[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur og Grindavík eigast við í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Varð það ljóst þegar bæði lið unnu oddaleiki sína í undanúrslitum á þriðjudagskvöld. Fyrsti leikurinn í úrslitaeinvíginu fer fram annað kvöld á Hlíðarenda og þarf sem …

Körfubolti

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Valur og Grindavík eigast við í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Varð það ljóst þegar bæði lið unnu oddaleiki sína í undanúrslitum á þriðjudagskvöld.

Fyrsti leikurinn í úrslitaeinvíginu fer fram annað kvöld á Hlíðarenda og þarf sem fyrr að vinna þrjá leiki til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Áður en úrslitakeppnin hófst stóð Valur uppi sem deildarmeistari á meðan Grindavík hafnaði í öðru sæti. Af þeim sökum eru Valsmenn með heimavallarrétt.

Á leið sinni í úrslitin hafði Valur betur gegn Hetti, 3:1, í átta liða úrslitum og 3:2 gegn Njarðvík í undanúrslitum. Grindavík sópaði fráfarandi Íslandsmeisturum Tindastóls úr keppni, 3:0, í átta liða úrslitum og vann svo Keflavík, 3:2, í undanúrslitum.

Hafa staðið sig hvað best

„Mér líst vel á að mæta Grindavík. Valur og Grindavík eru örugglega heilt yfir búin að vera heitustu liðin í vetur, þau lið sem hafa staðið sig hvað best.

Þetta eru líka liðin í fyrsta og öðru sæti þannig að það verður gaman að fá alvöru, hörkuseríu í úrslitaeinvíginu,“ sagði Kristófer Acox, fyrirliði Vals, er Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, kvaðst sömuleiðis spenntur fyrir einvíginu gegn Val er Morgunblaðið náði tali af honum á þriðjudagskvöld.

Vildi mæta Val

„Mér líst furðuvel á þetta. Hvað körfuboltann varðar er þetta ekkert betra eða verra en að spila við Njarðvík. Það er mikil þekking og reynsla sem er á bak við þetta Valslið, leikmenn sem hafa farið í úrslit síðustu þrjú ár og þjálfari sem hefur unnið þetta margoft.

Ég var spurður hvort liðið ég vildi og ég sagði Val þar sem ég vil að fólkið okkar, samfélagið í Grindavík, komist að horfa á leikina. Eins yndisleg og Ljónagryfjan er tekur hún ekki eins marga. Það verður slegist um miða og mér líst vel á þetta,“ sagði Jóhann.

Henta hvort öðru vel

Liðin unnu sitt hvorn heimaleikinn er þau áttust við í úrvalsdeildinni í vetur. Valur vann 96:83 á Hlíðarenda í nóvember og Grindavík vann örugglega, 98:67, á tímabundnum heimavelli sínum í Smáranum í Kópavogi í mars.

Spurður hvernig hann teldi að það hentaði Val að mæta Grindavík sagði Kristófer:

„Bara ágætlega. Þeir eru búnir að spila rosalega vel, sérstaklega eftir áramót, og eru búnir að finna sitt einkennismerki. Það er kannski ekki alveg að marka þennan leik sem við spiluðum við þá eftir áramót.

Við vitum að við erum á aðeins öðruvísi stað en þá, en náttúrlega sömuleiðis þeir. Þeir eru frábærir en ég held að við getum spilað okkar varnarleik vel á móti þeim. Ég held að það henti okkur ágætlega en að sama skapi held ég líka að við hentum þeim ágætlega.“

Langt síðan síðast

Spurður sömu spurningar tók Jóhann í sama streng.

„Alveg ágætlega. Við þurfum náttúrlega að finna lausnir í sóknarleik þar sem þeir eru feikilega sterkir í varnarleiknum. Þeir eru stórir og gera vel í að loka svæðum. Við þurfum að leggjast yfir þetta í kvöld [sl. þriðjudag] og hefja undirbúning strax á morgun [í gær].

Það hentar okkur ekkert betur eða verr að spila við Val. Ég hlakka mikið til og það er langt síðan ég gerði þetta síðast, 2017. Þá mætti ég jafnaldra mínum, Finni Frey [Stefánssyni, þjálfara Vals], á móti KR. Þetta verður erfitt en gaman að kljást við þá.“

Bæði Kristófer og Jóhann átta sig á því að ýmislegt ber að varast hjá andstæðingum sínum.

„Ég held að númer eitt, tvö og þrjú sé að hægja á [Dedrick] Basile. Hann er búinn að vera frábær fyrir þá og auðvitað búinn að vera hörkuleikmaður síðustu ár á Íslandi.

Hann er svolítið lykillinn að þeirra sóknarleik. Það er erfitt að halda honum í skefjum en við teljum okkur vera með sterkt varnarlið og sterka varnarmenn innanborðs.

Því munum við reyna að henda okkar bestu varnarmönnum á hann til þess að reyna að hægja á honum. Svo eru þeir auðvitað með frábæra leikmenn í kringum Basile.

Það verður erfitt að stöðva allt saman en við munum örugglega leggja mikla áherslu á að reyna að hægja aðeins á Basile,“ sagði Kristófer um lið Grindavíkur.

Kristinn verið mjög góður

„Kristinn Pálsson er náttúrlega búinn að vera hrikalega góður í vetur. Í sóknarleiknum þurfum við að vera vel samstiga, vera í góðu jafnvægi og passa að þeir keyri ekki í bakið á okkur. Þetta er bara þetta sígilda og engin geimvísindi.

Við þurfum að setjast niður og fara yfir þetta. Hvernig við ætlum að leysa það að verjast á móti þeim og allt það. Þetta er bara þessi dæmigerða skák sem hefst í kvöld og verður ofboðslega gaman að taka þátt í,“ sagði Jóhann um hvað bæri að varast í liði Vals.

VALUR – GRINDAVÍK 3:3

Valsmenn freista þess að vinna sinn fjórða Íslandsmeistaratitil. Þeir hafa áður unnið árin 1980, 1983 og 2022. Valur tapaði úrslitaeinvígjum árin 1984, 1987, 1992 og 2023.

Grindvíkingar eru líka á höttunum á eftir sínum fjórða Íslandsmeistaratitli. Þeir hafa áður unnið árin 1996, 2012 og 2013. Grindavík tapaði úrslitaeinvígjum árin 1994, 1995, 1997, 2000, 2003, 2009, 2014 og 2017.

Valur varð deildarmeistari 2024, fékk 36 stig í úrvalsdeildinni í vetur, og Grindavík varð í öðru sæti með 30 stig.

Valur vann Grindavík 96:83 í fyrri leik liðanna á Hlíðarenda 30. nóvember en Grindavík vann seinni leikinn, 98:67, í Smáranum 15. mars.

Úrslitaleikirnir um Íslandsmeistaratitilinn:

Föstudagur 17.5. kl. 19.15: Valur – Grindavík á Hlíðarenda

Mánudagur 20.5. kl. 19.15: Grindavík – Valur í Smáranum

Fimmtudagur 23.5. kl. 19.15: Valur – Grindavík á Hlíðarenda

Sunnudagur 26.5. kl. 19.15: Grindavík – Valur í Smáranum (ef þarf)

Miðvikudagur 29.5. kl. 19.15: Valur – Grindavík á Hlíðarenda (ef þarf)