2021 Efri röð: Matthildur, Þórir, Hjálmar, Alexander, Eygló Ösp, Arnar, Marín Matthildur, Íris Hulda og Jón Páll. Fremri röð: Perla, Rakel, Bjarni Natan, Jóhann Karl, Tanja Ýr, Emil Jóhann og Kristín Óskarsdóttir, tengdamóðir Jóhanns Karls. Á myndina vantar Elísu Inger.
2021 Efri röð: Matthildur, Þórir, Hjálmar, Alexander, Eygló Ösp, Arnar, Marín Matthildur, Íris Hulda og Jón Páll. Fremri röð: Perla, Rakel, Bjarni Natan, Jóhann Karl, Tanja Ýr, Emil Jóhann og Kristín Óskarsdóttir, tengdamóðir Jóhanns Karls. Á myndina vantar Elísu Inger.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórir Svansson fæddist 16. maí 1944 á Ásvallagötu 29, í svefnherbergi ömmu sinnar. „Þetta var fjölskylduhús og við bjuggum í risinu en amma og afi bjuggu á hæðinni og mikill samgangur á milli hæðanna.“ Þórir segir að það hafi verið gaman að alast upp í Vesturbænum og nóg af leikfélögum

Þórir Svansson fæddist 16. maí 1944 á Ásvallagötu 29, í svefnherbergi ömmu sinnar. „Þetta var fjölskylduhús og við bjuggum í risinu en amma og afi bjuggu á hæðinni og mikill samgangur á milli hæðanna.“ Þórir segir að það hafi verið gaman að alast upp í Vesturbænum og nóg af leikfélögum. „Húsið var við hliðina á Verkó og það var mikið leikið þar á róluvellinum. Svo vorum við með fótboltafélag í hverfinu og spiluðum leiki uppi á Landakotstúni, oft við önnur hverfislið.“

Hann gekk í Melaskóla og þaðan fór hann í Gaggó Vest. Hann fékk einnig að kynnast sveitalífinu tvö sumur, þegar hann var í sveit í Tjarnarkoti nálægt Laugarbakka, milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar, og kynntist þar fyrri tíma búháttum þar sem enginn traktor var á bænum og allt slegið með orfi og ljá. „Það var dýrðlegt að fá að upplifa þetta, en seinna sumarið kom traktor sem var mikill munur.“

Þegar Þórir var á fjórtánda ári fór hann að vinna á sumrin í Alþýðuprentsmiðjunni og var aðstoðarmaður við að prenta Alþýðublaðið. „Faðir minn prentaði Vísi, svo þetta er í ættinni,“ en Þórir er þriðja kynslóð prentara í beinan karllegg. Í Alþýðuprentsmiðjunni var Þórir að vinna með Pálma Arasyni, sem fór síðan að vinna hjá Morgunblaðinu.

Þórir ákvað að læra til prentara og var í Félagsprentsmiðjunni 1960 og útskrifaðist úr Iðnskólanum 1964. „Ég hélt áfram að vinna í Félagsprentsmiðjunni, en þá hringdi Pálmi í mig og sagðist vera að hætta að vinna á Mogganum og spurði hvort ég vildi ekki taka við af sér. Ég sló til og byrjaði á Morgunblaðinu í janúar 1965. Þar byrjaði ég að vinna með Guðbirni Guðmundssyni prentara, en hann prentaði Moggann niðri í Austurstræti á fyrstu hraðpressunni sem Mogginn keypti, en sú vél gat prentað 3.600 blöð á klukkutíma og hún var í Ísafoldarhúsinu og var notuð áður en prentvélin var keypt í Aðalstrætið.“

Þórir vann á Morgunblaðinu til 1970, en fór í þrjú ár til Prentsmiðju Guðjóns Ó., en var aftur kominn til Morgunblaðsins 1973. „Það var mikil breyting þegar við fórum í Skeifuna og offsetprentið kom og við vorum ekki með blýið lengur. Þá var hægt að prenta 48 síður og ég tók sveinspróf í offsetprentun,“ en áður var hann með próf í letterpress og gömlu blýprentuninni. „Næsta bylting er svo þegar við fluttum í Kringluna 1984 og hægt var að prenta 64 blaðsíður í fjórlit. Mesta byltingin er síðan þegar við fórum upp í Hádegismóa og gátum prentað 128 síður í fjórlit.“

Þórir vann á Morgunblaðinu til 2009. Þegar hann var að prenta Morgunblaðið í Hádegismóum vann prentsmiðjan tvisvar verðlaun fyrir að vera eitt af 16 best prentuðu dagblöðum Evrópu. „Þetta var góður tími sem ég átti á Morgunblaðinu og margir góðir vinnufélagar, eins og Ragnar Magnússon sem var með mér í þessu mestan hluta þessa tíma. Svo var Örn Hallsteinsson, prentari og handboltamaður, og Ingvar bróðir hans, sem var verkstjóri þarna á tímabili, og Viðar Janusson, Gísli Elíasson, Heimir Baldursson og Jón Hjartarson og margir fleiri. Svo voru ritstjórarnir Matthías og Styrmir ógleymanlegir og Haraldur Sveinsson og svo blaðamenn eins og Siddi, sem standa upp úr í minningunni.“ Þórir segir að sérstakur söknuður sé eftir andrúmsloftinu í Aðalstræti, en þá var prentað í sama húsi. „Þar náði maður að fylgjast með öllu, sem breyttist svolítið þegar við fluttum í Skeifuna og prentsmiðjan var alveg sér.“

Þórir er í góðu formi og var mikið á skíðum þegar hann var yngri og eins í sundi. „Ég hef verið í líkamsrækt með gömlum KR-ingum í KR-heimilinu og við hittumst núna þrisvar í viku.“ Hann og Matthildur hafa gaman af göngum og ferðalögum og hafa ferðast mikið um Ísland og einnig erlendis. „Ég er gæfumaður í lífinu og lánsamur með börn og afkomendur.“

Fjölskylda

Eiginkona Þóris er Matthildur Þórarinsdóttir læknaritari, f. 30.11. 1943 og þau búa í vesturbæ Reykjavíkur. Foreldrar Matthildar eru hjónin Þórarinn Hallbjörnsson matsveinn, f. 7.8. 1916, d. 3.2. 1978 og Hildur Þóra Þórarinsdóttir húsmóðir, f. 29.5. 1918, d. 17.6. 1978. Þau bjuggu í Reykjavík.

Börn Þóris og Matthildar eru 1) Jóhann Karl aðstoðaryfirlögregluþjónn, f. 8.7. 1966, kvæntur Rakel Bjarndóttur, heilbrigðisgagnafræðingi hjá tölvudeild Landspítalans. Börn þeirra eru a) Tanja Ýr lögfræðingur, á þrjú börn; b) Alexander, útskrifast úr læknanámi í júní; c) Perla lögreglunemi og d) Bjarni Natan, nemi í Hagaskóla. 2) Íris Hulda, forstöðumaður á fjármálasviði Icelandair, f. 11.4. 1969, gift Jóni Páli Jónssyni, fjármálastjóra hjá Qair. Dætur þeirra eru a) Marín Matthildur, í meistaranámi í stærðfræði í Amsterdam, og b) Elísa Inger, stærðfræðinemi í HÍ.

Systir Þóris er Svanhildur læknaritari, f. 25.3. 1947, d. 2.12. 2021.

Foreldrar Þóris eru hjónin Svanur Steindórsson prentari, f. 10.11. 1916, d. 8.12. 1989, og Hulda Karlsdóttir saumakona, f. 2.10. 1918, d. 1.12. 1980.