Heiðar Ragnarsson
Heiðar Ragnarsson
Við þurfum breytt hugarfar og fleiri menn eins og Jimmy Carter og Olof Palme.

Heiðar Ragnarsson

Það er mikil eftirsjá að mönnum eins og Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, sem þorði að halda úti sjálfstæðri utanríkis- og friðarstefnu. Nú virðist sem sumum íslenskum ráðherrum finnist töff að bakka upp stríð í Úkraínu með fjármunum til vopnakaupa. Þessir ráðherrar sjá ekki aðra lausn en sigur Úkraínu í þessum átökum og þeir virðast ekki hafa mikla þekkingu á hvernig þetta stríð byrjaði eða hvernig það hefur þróast.

Ég ætla ekki að rekja alla forsöguna, en nefna samt nokkur atriði. Krímskaginn var lengst af hluti af Rússlandi og síðar Sovétríkjunum. Úkraínumaðurinn Krústsjov, sem var aðalritari (forseti) Sovétríkjanna, lagði fram tillögu um að Sovétríkin gæfu Úkraínu Krím, forsetinn var nánast alráður og tillagan var samþykkt. Þegar Sovétríkin liðuðust sundur var gerður samningur um að Rússar hefðu áfram herstöð á Krím til frambúðar. Enda voru flestir íbúa á Krím Rússar og sama átti við sum austurhéruð Úkraínu.

Eftir hina friðsamlegu byltingu í Úkraínu, þegar þingið hrakti löglega kjörinn forseta, Viktor Janúkovitsj, úr landi með hótunum um að drepa hann ef hann færi ekki sjálfviljugur, ákvað þingið að svipta héraðsstjórnir austurhéraðanna völdum án kosninga. Héraðsstjórnirnar voru ekki sáttar og tóku til varna. Og þrátt fyrir harðar árásir Úkraínumanna tókst þeim ekki að brjóta varnir héraðanna á bak aftur. Síðar var gert samkomulag um ákveðið sjálfstæði þessara héraða að frumkvæði Angelu Merkel (Minsk-samkomulagið).

Þrátt fyrir þetta samkomulag um frið héldu Úkraínumenn áfram árásum á þessi héruð. Rússar höfðu áður tekið yfir stjórn á Krím, með friðsamlegum hætti, enda eins og áður segir flestir íbúanna Rússar og Úkraínumenn virtust ekki ætla að standa við samning um herstöð Rússa á Krím. Rússar sýndu mikla þolinmæði við að reyna að koma á friðsamlegum samskiptum og samningum en Úkraínumenn hlustuðu á ráð ESB og NATO um að semja ekki.

„Rannsóknarblaðamaðurinn“ Ingólfur Bjarni (RÚV) var á ferð í Úkraínu rétt áður en stríðið hófst og sýndi m.a. myndskeið þar sem úkraínskur hermaður skaut litlu flugskeyti yfir á sjálfstjórnarsvæðið. Einhverra hluta vegna hefur ekki mikið verið fjallað um þetta, heldur látið eins og Rússar hafi bara ráðist á Úkraínu upp úr þurru. Þeir voru samt í meira en hálft ár búnir að bíða með her sinn við landamærin og reyna að ná friðsamlegri lausn, sem var hafnað.

Það er enginn vafi að ESB, NATO og Bandaríkin löttu Úkraínu til að gera samninga.

Það er líka ljóst að Bandaríkin og NATO stóðu að baki innrásinni og loftárásum á Líbíu og gerðu það á sama hátt og víðar, með því að fá málaliða til að hefja smá stríð. Þegar stjórnvöld í Líbíu brugðust til varnar sögðu Vesturlönd að Gaddafí væri að ráðast á eigin borgara og það yrði að vernda þá og hófu loftárásir á Líbíu. Svipuð aðferð var notuð til að réttlæta innrás í Írak. Þá voru lagðar fram „pottþéttar“ sannanir fyrir því að í Írak væru birgðir af efna- og gjöreyðingarvopnum (ég þekki ekki muninn). Þessar sannanir voru m.a. sýndar á þingi hjá Sameinuðu þjóðunum. Svo var farið í harðar loftárásir og landhernað til að uppræta stjórn Saddams Husseins og finna þessi hættulegu efnavopn.

Það er skemmst frá því að segja að engin slík vopn fundust.

Eini ráðamaðurinn á Vesturlöndum sem hefur beðist afsökunar á þessu er Tony Blair enda var hann ekki sáttur við hvernig Bandaríkin blekktu hann eins og aðra. Þessi friðelskandi þjóð (BNA) hefur lengi stutt hernað Ísraels gegn Palestínu. Jafnvel nú þegar allt bendir til alvarlegra stríðsglæpa Ísraelsmanna stoppa Bandaríkin ályktanir í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en segjast leita friðsamlegra lausna. Á sama tíma leggja þeir meira fjármagn til hernaðar Ísraelsmanna.

Sem betur fer hafa stundum verið friðsamari forsetar í Bandaríkjunum og þar fer fremstur Jimmy Carter, sem stóð ekki í neinum stríðum á sínum valdatíma en leysti erfið mál með samningum. Við þurfum breytt hugarfar og fleiri menn eins og Jimmy Carter og Olof Palme – það er hættulegt að bakka upp stríð og alls ekki töff!

Höfundur er matreiðslumaður og fæst við náttúrulegar heilsumeðferðir.