Ljóðskáldið Gyrðir Elíasson veitti ljóðaverðlaununum Maístjörnunni viðtöku á Þjóðarbókhlöðunni síðdegis í gær. Með honum eru Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, og Guðrún Eva Mínervudóttir.
Ljóðskáldið Gyrðir Elíasson veitti ljóðaverðlaununum Maístjörnunni viðtöku á Þjóðarbókhlöðunni síðdegis í gær. Með honum eru Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, og Guðrún Eva Mínervudóttir. — Morgunblaðið/Eggert
Gyrðir Elíasson hlýtur Maístjörnuna í ár fyrir ljóðabókatvennuna Dulstirni / Meðan glerið sefur en verðlaunin, sem veitt eru fyrir ljóðabók ársins 2023, voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni síðdegis í gær

Gyrðir Elíasson hlýtur Maístjörnuna í ár fyrir ljóðabókatvennuna Dulstirni / Meðan glerið sefur en verðlaunin, sem veitt eru fyrir ljóðabók ársins 2023, voru afhent í Þjóðarbókhlöðunni síðdegis í gær.

„Það er með gleði og þakklæti sem ég tek við þessari viðurkenningu í dag,“ sagði Gyrðir þegar hann veitti verðlaununum viðtöku.

„Kannski breyta ljóð ekki veröldinni, hins vegar er líklega margreynt að veröldin breytir ljóðinu, og samt er það kannski alltaf í eðli sínu hið sama, vitnisburður um einstaklinga og tegund í því formi sem er einstakt og ólíkt öðrum listformum. Þegar best tekst til segir ljóð eitthvað sem vart verður sagt með öðru móti, og stundum nær það að segja með orðum – eða milli orða – það sem í raun og veru verður ekki sagt með orðum – og það er mikilvægur eiginleiki,“ sagði hann einnig í ræðu sinni.

Maístjarnan er einu verðlaunin á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók og voru þau nú veitt í áttunda sinn. Þeim er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi. Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2023 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Dómnefnd skipuðu Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Jakub Stachowiak fyrir hönd Landsbókasafns. Í umsögn þeirra um verðlaunabækurnar segir:

„Ljóðin í ljóðatvennu Gyrðis Elíassonar eru hljóðlát, hlédræg, ásækin og jafn áhrifamikil og skáldið sem yrkir þau. En áhrif höfundarverks Gyrðis á íslenskar bókmenntir eru óumdeild og um leið svo samofin hugsun okkar að við tökum ekki alltaf eftir þeim. Yrkisefnin koma víða að: draumar og veruleiki tvinnast saman á látlausan hátt og eins náttúran og hið manngerða, gleði og sorg, húmor og depurð, sveit og borg, himinn og mold. Myndmálið er skýrt, tært og heillandi líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi og í þessum tærleika býr margt sem er satt, fagurt og mikilvægt. Skáldið notar ljóðlistina til þess að afhjúpa fyrir lesandanum hið dularfulla í hversdeginum sem hann sækir innblástur í á einlægan og hógværan en um leið margslunginn hátt. Vangaveltur tilvistarlegs eðlis og leit að tilgangi lífsins eru höfundi hugleiknar og mikilvægar en þau aldagömlu spursmál ganga í sífellda endurnýjun lífdaga og koma lesandanum því stöðugt á óvart. Ljóðverkið Dulstirni og Meðan glerið sefur er dýrmæt áminning um að hið fagra býr í einfaldleikanum og er aldrei langt undan.“ ragnheidurb@mbl.is