Steinunn Ragnarsdóttir
Steinunn Ragnarsdóttir
Hún talar ekki eftir tilbúnu handriti heldur frá hjartanu og með hjartanu og þannig forseta vil ég sjá á Bessastöðum.

Steinunn Ragnarsdóttir

Nú þegar styttist í forsetakosningar langar mig, algerlega af fúsum og frjálsum vilja, að leggja inn nokkur orð um framboðið, sem hefur að mörgu leyti verið áhugavert að fylgjast með. Samkeppni og öfundargremja kalla ekki alltaf fram bestu hliðar manneskjunnar, en í persónukjöri er sérstaklega mikilvægt að vanda allan málflutning og framsetningu og standa vörð um trúverðugleika og traust sem er ekki sjálfgefið.

Maður þarf ekki að vera sérfræðingur í mannlegu sálarlífi til þess að átta sig á því að þegar fólk verður fyrir vonbrigðum eða telur sig eiga harma að hefna velur það sér ekki stofnanir, félög eða stjórnir til að beina reiði sinni að heldur einstaklinga í leiðandi hlutverkum sem oftar en ekki eru andlit viðkomandi stofnana eða stjórna og verða því sjálfkrafa skotmörk. Þetta þekkja flestir af eigin reynslu sem hafa gegnt ábyrgðarstörfum. Það er hins vegar ekki öllum gefið að falla ekki í freistinguna að hrökkva í vörn, hlaða vopnin og gera gagnárás. Þar reynir á innra jafnvægi og festu og umfram allt hæfnina til þess að skilja sitt kröfuharða egó, sem við þurfum öll að kljást við, eftir heima og horfa á stóru myndina með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Þessa yfirvegun og þroska hefur Katrín Jakobsdóttir eignast eftir langa reynslu í ábyrgðarstörfum sem oftar en ekki hefur fylgt töluvert hnjask sem hún hefur aldrei kveinkað sér undan og eru óhjákvæmilegar aukaverkanir leiðandi stjórnunarstarfa í framlínunni.

Ég hef þekkt Katrínu frá því um aldamótin þegar við störfuðum saman í borgarmálunum og á meðan hún var menntamálaráðherra þegar ég starfaði sem tónlistarstjóri Hörpu og allar götur síðan. Við megum aldrei gleyma því að við eigum Katrínu m.a. að þakka að við eigum Hörpu í dag þar sem hún og Hanna Birna stigu fram með eftirminnilegum hætti og beittu sér fyrir því að húsið yrði byggt þrátt fyrir efnahagshrunið með þeim rökum að það væri einmitt á tímum mótlætis og áfalla sem við þyrftum mest á menningu og listum að halda. Þar var allt pólitískt argaþras lagt til hliðar og sameinast um það sem mestu máli skiptir. Þar voru stærri hagsmunir þjóðarinnar hafðir að leiðarljósi, en það er einmitt einn helsti styrkleiki Katrínar að missa aldrei sjónar á þeim.

Pólitík Katrínar snýst fyrst og fremst um mennsku og ég þykist þess fullviss að hún hafi oft misst svefn yfir því að geta ekki bjargað heiminum frá sjálfum sér. Þar hefur hún þó vissulega lagt sitt af mörkum af ósérhlífni og heilindum og það er einmitt fyrir hennar einstöku mannkosti að við höfum ekki upplifað reglulegar stjórnarkreppur og óvissu í ofanálag við heimsfaraldur og fleira sem dunið hefur yfir vegna hennar einstöku hæfni til þess að leiða fólk sem hefur ólíkar sannfæringar og hagsmuni og sætta ólík sjónarmið með farsælum hætti, alltaf með velferð þjóðarinnar að leiðarljósi.

Forsetinn er ekki síst mikilvæg fyrirmynd fyrir þær kynslóðir sem nú eru að vaxa úr grasi, en þar hefur fráfarandi forseti lagt mjög mikið af mörkum og gefið embættinu það yfirbragð og nálgun sem móta gildismat þjóðarinnar og sýn á hvaða persónuleikaþættir þurfa að vera fyrir hendi til þess að gegna þessu embætti með sóma.

Aðalsmerki leiðtogans er að halla aldrei orði um aðra, upphefja sig ekki á kostnað annarra né hreykja sér af eigin afrekum, að vera aldrei meiðandi í orðavali og alltaf yfirvegaður. Þannig leiðtogi er Katrín. Hún talar ekki eftir tilbúnu handriti heldur frá hjartanu og með hjartanu og þannig forseta vil ég sjá á Bessastöðum.

Ég vil sjá heilsteypta og heiðarlega manneskju sem forseta, sem er fær um að taka sjálfa sig út fyrir sviga. Forseta sem sameinar og getur sætt ólík sjónarmið af yfirvegun og ósérhlífni og þess vegna kýs ég Katrínu Jakobsdóttur í komandi forsetakosningum. Að öðrum ágætum frambjóðendum ólöstuðum er ég sannfærð um að hún er hæfust til þess að taka að sér þetta mikilvæga leiðtoga- og sameiningarhlutverk og sinna því með sóma, í þágu þjóðarinnar.

Höfundur er framkvæmdastjóri.