— Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsti úrslitaleikur Suðurnesjaliðanna Keflavíkur og Njarðvíkur um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik fer fram í húsi Keflavíkur klukkan 20:15 í kvöld. Deildarmeistarar Keflavíkur unnu Stjörnuna 3:2 í hörkueinvígi í undanúrslitum en Njarðvík fór nokkuð létt með Grindavík, 3:0

Körfubolti

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Fyrsti úrslitaleikur Suðurnesjaliðanna Keflavíkur og Njarðvíkur um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik fer fram í húsi Keflavíkur klukkan 20:15 í kvöld. Deildarmeistarar Keflavíkur unnu Stjörnuna 3:2 í hörkueinvígi í undanúrslitum en Njarðvík fór nokkuð létt með Grindavík, 3:0.

Undirbúningur liðanna var því nokkuð ólíkur en Njarðvík fékk tíu daga hvíld á meðan Keflavík fékk aðeins tveggja daga hvíld. Kom það þó nokkuð á óvart en flestir bjuggust við því að Keflavík færi létt með Stjörnuna en Grindavík – Njarðvík yrði aftur á móti háspennueinvígi.

Landsliðskonurnar Sara Rún Hinriksdóttir leikmaður Keflavíkur og Isabella Ósk Sigurðardóttir leikmaður Njarðvíkur tóku undir með almenningi í samtali við Morgunblaðið í gær en sögðu þó að allt gæti gerst í úrslitakeppninni.

„Auðvitað segja margir að við höfum spilað undir getu gegn Stjörnunni en við mættum afar flottum stelpum. Við gerðum fullt af mistökum og spiluðum stundum þeirra körfubolta. Ég er fyrst og fremst ánægð með að hafa komist í gegnum þetta,“ sagði Sara og bætti við að hún hefði búist við meiru frá Grindavík í einvíginu gegn Njarðvík en að allt gæti gerst í körfubolta.

Isabella Ósk tók undir. „Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með einvígi Keflavíkur og Stjörnunnar. Hörkuleikir hjá báðum liðum og alltaf gaman að fá oddaleik. Ég held að flestir hafi gert ráð fyrir því að þetta yrði öfugt, að Keflavík myndi vinna Stjörnuna 3:0 og við færum í oddaleik gegn Grindavík. En ef við spilum okkar leik vinnum við öll lið,“ sagði Isabella.

Vorum alls ekki tilbúnar

Eins og áður kom fram er undirbúningur liðanna mismunandi fyrir úrslitaeinvígið þar sem svo miklu munaði á hvíld leikmanna. Sara er óviss um hvort sé betra. „Það er mjög erfitt að segja hvort sé betra. Ég er ánægð með hvernig aðstæðurnar eru í dag. Við spiluðum við Fjölni í átta liða úrslitum. Með fullri virðingu fyrir Fjölnisliðinu spiluðum við ekki mikla vörn í þeim leikjum og fengum ekki mikið mótlæti. Síðan tók við rimman gegn Stjörnunni sem við vorum alls ekki tilbúnar í á meðan Stjarnan hafði spilað hörkuleiki gegn Haukum. Hver einasti leikur þar var svakalegur og héldum við að Stjörnukonur yrðu þreyttar en svo var ekki. Mér fannst óþægilegt að hvíla eftir einvígið gegn Fjölni og er ótrúlega spennt fyrir þessu, maður hugsar ekkert um þreytuna nema kannski daginn eftir leik.“

Isabella Ósk segir hafa verið nánast rólegt Njarðvíkurmegin meðan Keflavík keppti við Stjörnuna. „Þetta er ekki beint búið að vera rólegt en samt sem áður tíu dagar á milli leikja. Við fengum tvo til þrjá daga til að hvíla en erum nú komin á fullt í undirbúningi fyrir úrslitaeinvígið. Ég hefði svo sem verið til í að byrja fyrr en þetta er allt í góðu. Við vorum í hörkuleikjum gegn Grindavík þannig að það var gott fyrir okkur að fá smá hvíld.“

Vörnin í fyrirrúmi

Sara Rún og Isabella Ósk eru báðar á því að varnarleikurinn verði að vera í lagi til að lið þeirra verði Íslandsmeistari. Með góðri vörn eru báðir leikmenn bjartsýnir á að þeirra lið standi uppi sem sigurvegari. Sara bætir þó við að Keflavík verði einnig að hitta úr sínum skotum.

„Fyrir okkur er mikilvægt að spila góða vörn og skotin verða að fara ofan í. Þetta er öðruvísi einvígi en gegn Stjörnunni þar sem einstaklingarnir eru lengra komnir hjá Njarðvíkurliðinu. Verður þetta meira um kerfi og að opna fyrir leikmenn. Þetta verður allt annar leikur og við verðum að aðlagast því. Við höfum ekki hitt nægilega vel en ég hef mikla trú á því núna.“

Isabella segist vera bjartsýn á einvígið og að þær séu í góðum málum ef varnarleikurinn verður í lagi. „Við erum á uppleið núna og spilum okkar besta körfubolta. Það er gott að vera að toppa á þessum tímapunkti. Við spiluðum góða vörn gegn Grindavík á flestum köflum og ef við höldum því áfram erum við góðar. Sóknin kemur ef við spilum góða vörn. Þetta nefnilega byrjar allt á vörninni. Ég er mjög bjartsýn á þetta einvígi.“

Aðeins einu sinni áður

Nágrannarnir Keflavík og Njarðvík hafa aðeins einu sinni mæst í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna. Var það árið 2011 og vann þá Keflavíkurliðið sannfærandi 3:0. Þá hafði Njarðvík ekki enn unnið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil en hann kom ári seinna. Sara segir planið vera að endurtaka leikinn en Isabella er staðráðin í að svara fyrir tap Njarðvíkurliðsins 2011 og vinna einvígið 3:0.

Báðir leikmenn hafa fundið fyrir tilhlökkuninni í Reykjanesbæ fyrir einvíginu. Hefur Sara Rún til að mynda heyrt í óvæntum röddum frá alls konar fólki og Isabella segist sérstaklega finna fyrir stemningunni vegna þess að nágrannaslagur er í vændum. Ljóst er að hörkueinvígi er fram undan og erfitt er að segja til um hvernig það fari. Fyrir úrslitakeppnina var Keflavík langlíklegasta liðið en undanúrslitin breyttu þó nokkru hvað varðar væntingar til úrslitaeinvígisins. Getur allt gerst og eru bæði lið sannfærð um að þau vinni og er því ljóst að leikmenn muni gefa allt í þetta fram að lokaflautunni.

KEFLAVÍK – NJARÐVÍK 16:2

Keflvíkingar freista þess að vinna sinn sautjánda Íslandsmeistaratitil. Þeir hafa áður unnið árin 1988, 1989, 1990, 1992, 1993, 1994, 1996, 1998, 2000, 2003, 2004, 2005, 2008, 2011, 2013 og 2017. Keflavík tapaði úrslitaeinvígjum 1995, 1999, 2001, 2006, 2007, 2015, 2019 og 2023.

Njarðvíkingar eru á höttunum eftir sínum þriðja Íslandsmeistaratitli. Þeir unnu árin 2012 og 2022. Njarðvík tapaði úrslitaeinvíginu árið 2011.

Keflavík varð deildarmeistari 2024, fékk 42 stig í úrvalsdeildinni í vetur, og Njarðvík varð í þriðja sæti með 32 stig.

Keflavík vann alla fjóra leikina gegn Njarðvík í vetur, fyrst 83:80 á útivelli 27. september, 72:45 á heimavelli 29. nóvember, 75:74 á útivelli 28. febrúar og 70:69 á heimavelli 3. apríl.

Úrslitaleikirnir um Íslandsmeistaratitilinn:

Fimmtudagur 16.5. kl. 20.15: Keflavík – Njarðvík

Sunnudagur 19.5. kl. 19.15: Njarðvík – Keflavík

Miðvikudagur 22.5. kl. 19.15: Keflavík – Njarðvík

Laugardagur 25.5. kl. 19.15: Njarðvík – Keflavík (ef þarf)

Þriðjudagur 28.5. kl. 19.15: Keflavík – Njarðvík (ef þarf)

Höf.: Jökull Þorkelsson