Matti og Maurún Matti í nýju bókinni á spjalli við Maurúnu vinkonu sína. Maurar eru furðu loðnir, með kjálka og beinagrind þeirra er utan á þeim.
Matti og Maurún Matti í nýju bókinni á spjalli við Maurúnu vinkonu sína. Maurar eru furðu loðnir, með kjálka og beinagrind þeirra er utan á þeim.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér finnst áríðandi að uppfræða börn um þá staðreynd að maurar eru til á Íslandi og kynna þeim þessar stórkostlegu lífverur. Þá vex upp ný kynslóð Íslendinga sem er vel upplýst um maura hér á landi og getur verið afslöppuð gagnvart þeim,“…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Mér finnst áríðandi að uppfræða börn um þá staðreynd að maurar eru til á Íslandi og kynna þeim þessar stórkostlegu lífverur. Þá vex upp ný kynslóð Íslendinga sem er vel upplýst um maura hér á landi og getur verið afslöppuð gagnvart þeim,“ segir Marco Mancini, líffræðingur og rithöfundur, en hann er annar höfundur nýrrar barnabókar, Matti og Maurún, sem kom út á dögunum. Bókin er bæði á íslensku og ensku og fjallar um hulinn heim íslenskra maura og þar segir af leikskóladrengnum Matta og vináttu hans og maurs sem býr á leikskólalóðinni. Lesendur fá að kynnast leynilegri mauranýlendu og furðuverkum mauraheimsins.

„Flestir núlifandi Íslendingar ólust upp við þá hugmynd að engir maurar fyrirfyndust á Íslandi, en rannsóknir okkar hafa leitt í ljós að hér hafa fundist 25 mismunandi tegundir maura. Fjórar tegundir eru viðvarandi, húsamaur, blökkumaur, faraómaur og draugamaur, en flestir maurar koma hingað með plöntum, en einnig mögulega líka með farangri og öðru slíku. Maurar eru heillandi af því að þeir eru mjög klókir og afar skipulagðir í að viðhalda samfélagi sínu. Við getum lært af þeim, í þeirra samfélagi má sjá mátt samvinnunnar, maurar sem tilheyra sama búi láta sig velferð allra í því samfélagi varða. Einmitt þess vegna er frábært að nota maura til að kenna börnum um gildi samvinnu og að vera góð hvert við annað.“

Börn elska skordýr

„Ég hafði lengi hugsað mér að skrifa barnabók en sá sem kveikti hugmyndina að bók um maura er átta ára sonur minn, Matthías, en eðli málsins samkvæmt veit pilturinn allt um maura, eftir að hafa alist upp með föður sínum,“ segir Marco og hlær, en aðalpersóna nýju bókarinnar heitir Matti.

„Ég fékk styrk hjá Rannís úr þróunarsjóði námsgagna og þá fékk ég Laufeyju Jónsdóttur myndskreyti til liðs við mig, en hún á jafn mikinn þátt og ég í þessari bók. Þótt ég eigi hugmyndina þá væri bókin ekki svona frábær án Laufeyjar og hennar hæfileika. Caterina konan mín tók að sér að vera kennslufræðisérfræðingur við gerð bókarinnar, en hún er kennari, og Andreas Guðmundsson kollegi minn í maurarannsóknum sá um þýðinguna frá ensku yfir á íslensku. Við fengum leikskólakennara til að lesa handritið yfir, því við viljum kynna kennurum bókina. Aftast í bókinni er qr-kóði sem leikskólakennarar eða aðrir geta skannað og komist inn á vefsíðu með meira efni um maura. Til dæmis væri hægt að hafa mauraþema í skólanum og við gætum jafnvel mætt með maura á staðinn. Ég gæti skilið maurabú eftir í leikskólanum í nokkra daga og þá geta börnin fylgst með því og gefið maurunum eitthvað að éta, enda elska flest börn öll dýr, líka skordýr.“

Þrífast vel í raka og hita

Marco segir að sér hafi fundist áhugavert að flytja til Íslands á sínum tíma, í ljósi þess að hann hafði lesið í vísindagreinum að maurar væru alls staðar nema á Antarktíku og á Íslandi.

„Þar sem ég er mikill aðdáandi maura fór ég að grúska eftir að ég flutti hingað og fann gögn á Náttúrufræðistofnun. Elstu gögn sem til eru um húsamaura á Íslandi eru frá því fyrir hálfri öld, frá 1974. Stakir eða nokkrir vinnumaurar sem hafa borist hingað með timbri eða lifandi blómum, þeir drepast að lokum, en þegar maurar hafa borist hingað með frjósamri drottningu, þá setjast þeir að, gera bú og fjölga sér. Ef þeir hafa hita og mat, þá fjölgar þeim hratt, á einum mánuði frá tuttugu maurum yfir í þúsund. Flestir maurar á Íslandi eru frá hitabeltislöndum og þeir þrífast vel undir vel upphituðum íslenskum byggingum. Maurarnir halda til í kringum hitaveitulagnir þar sem er raki og fjörutíu stiga hiti, fullkomið fyrir þá,“ segir Marco og bætir við að sér finnist merkilegt að hér á landi séu strangar reglur um innflutning á dýrum en lítið hugað að innflutningi plantna, sem skordýr ferðast með milli landa.

„Fólk kaupir lifandi blóm til dæmis í Costco eða Ikea, en sér ekki maurana sem eru mögulega í moldinni, kemur blóminu svo fyrir inn í húsi og um nætur fara nokkrir vinnumaurar á stjá og finna smugu til dæmis í parketinu. Þeir sækja fleiri maura í pottinn og flytja á endanum allir undir parketið. Fáir sjá maurana, þótt þeir byggi sér nýlendu, og þeir stækka veldi sitt smám saman yfir í næstu byggingu og/eða húsgötu,“ segir Marco og bætir við að hann vilji endilega að sem flestir láti hann vita ef fólk verður vart við maura heima hjá sér.

„Flestir maurar hér á landi finnast innandyra, og þá get ég komið og skoðað maurana og skráð þá í rannsóknargögn okkar mauragengisins, eins og við erum stundum kölluð vísindafólkið í háskólanum sem stöndum að maurarannsóknum á Íslandi. Ég vil líka gjarnan vera meindýraeyðum innanhandar við að losna við maura. Stundum þegar ég hef komið heim til fólks vegna maura sem þar finnast, þá fyllist fólk ótta og vill jafnvel selja húsið sitt, en það er algjör óþarfi. Sumir finna fyrir skömm yfir því að maurar finnist á heimilinu og halda að þeir séu einu manneskjurnar hér á landi sem lenda í því. Þeim finnst jafnvel eins og þeir hafi gert eitthvað rangt, en tilvist maura hérlendis hefur ekkert með hegðun fólks á heimilum að gera.“

Nánar:
maurar.hi.is/islenskir-maurar