Kossinn Stilla úr myndinni sem sýnir kærleikann sem birtist í kossinum sem eiginmaðurinn smellir á konu sína í heimsókn á Grund.
Kossinn Stilla úr myndinni sem sýnir kærleikann sem birtist í kossinum sem eiginmaðurinn smellir á konu sína í heimsókn á Grund.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mikilvægt að hugsa um hvernig maður endar lífið. Því það tekur enda hjá okkur öllum,“ segir kvikmyndagerðarkonan Yrsa Roca Fannberg um nýjustu mynd sína, Jörðina undir fótum okkar, sem hún tók á vistheimilinu Grund árið 2021 og mest 2022

Viðtal

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er mikilvægt að hugsa um hvernig maður endar lífið. Því það tekur enda hjá okkur öllum,“ segir kvikmyndagerðarkonan Yrsa Roca Fannberg um nýjustu mynd sína, Jörðina undir fótum okkar, sem hún tók á vistheimilinu Grund árið 2021 og mest 2022. Myndin er nú á klippiborðinu og í hljóðvinnslu en gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin í lok þessa árs.

Áður hefur Yrsa gert myndina Salóme (2014) og Síðasta haustið (2019) sem fjallar um Úlfar og Oddnýju, bændur á Krossnesi á Ströndum sem eru að bregða búi. Báðar myndir Yrsu hafa hlotið fjölda viðurkenninga. Salóme var m.a. valin besta norræna heimildarmyndin á Nordisk Panorama og Síðasta haustið fékk dómaraverðlaunin í sömu keppni og fékk m.a. mjög góða dóma í The New York Times, svo aðeins fátt sé upp talið. „Ég er búin að vera með hugmyndina að Jörðinni undir fótum okkar alveg frá því að amma mín var á elliheimili. Ég hef alltaf haft gaman af því að umgangast og tala við gamalt fólk og svo hef ég verið að vinna á Grund síðan 2009. Ég sá mjög fljótt í mínu starfi hvað margar sögur þar eru ósagðar.“

Hún segir að hún hafi nálgast tökurnar af mikilli nærgætni og það hafi hjálpað mikið hversu vel vistmennirnir þekktu hana og treystu. „Ég held að í myndinni náum við að fanga svolítið þessa umhyggju og kærleika sem ríkir inni á Grund. Ég vissi oft ekkert um fortíð fólksins sem ég var að sinna, en ég mætti því bara á þeim stað sem það var.“ Hún segir að það hafi verið mjög skemmtilegt hvað heimilismenn kunnu vel að meta tökuliðið, en myndin er tekin upp á 16 mm filmu sem gefur henni einstaka áferð.

Kynslóð sem ruddi brautina

Yrsa lagði mikla áherslu á það í myndinni að það kæmi fram hlýja, nærgætni og næmni fyrir einstaklingunum og fyrir litlu hlutunum í tilverunni.

„Þessi kynslóð vandar sig svo mikið við alla hluti. Handþvottur er nákvæmnisverk sem er gert vel og ekki í neinum flýti. Svo sinnir þessi kynslóð fatnaði sínum af mikilli umhyggju og gengur vel frá. Ég tók eftir hvað hlutir eins og naglalakk geta haft mikil áhrif á reisn og virðingu. Ég upplifi þetta sem ákveðna virðingu fyrir hlutunum og mikilvægi þess að varðveita allt vel og ganga vel um eigur sínar og umhverfi. Þessi kynslóð er mjög nýtin og sparsöm og við sem yngri erum höfum notið góðs af því. Þetta er kynslóðin sem við byggjum okkar velferðarsamfélag á og við þurfum að bera mikla virðingu fyrir okkar elsta fólki. Þótt aldurinn hafi tekið ýmislegt frá fólki, minnið sé kannski lélegt eða hreyfifærnin minnkuð, þá er svo mikil saga og lífsreynsla sem maður sér í húðinni, sem maður sér í andlitinu og í hreyfingum fólks. Það er eiginlega það sem kveikti áhuga minn á að gera þessa mynd.“

„Þetta er bara náttúran“

Í myndinni fylgist Yrsa með nokkrum heimilismönnum á Grund þessi tvö ár. „Sum létust á meðan ég var að taka upp myndina, en það er líka raunveruleikinn. Maður á ekki að fela dauðann,“ segir hún og bætir við að vistmenn séu mjög meðvitaðir um að endalokin nálgist og ræði það stundum við starfsfólkið, jafnvel frekar en fjölskylduna, þótt það sé misjafnt. „Þetta er bara náttúran,“ sagði einn maðurinn á Grund um hverfulleika lífsins.

Virðing er mikilvæg

Yrsa segir myndina ekki hefðbundna viðtalsmynd, heldur frekar eins og innlit eða heimsókn. „Við erum í sjálfu sér ekki að kynnast fólkinu eins og það var, heldur sjáum það í leikfimi, þegar það er úti að reykja, að grínast og við hittum manninn sem er með konuna sína á Grund. Dyrnar opnast á Grund og þú ferð í ferðalag með heimilisfólkinu, frekar en að áherslan sé á starfsmennina eða stofnunina sem slíka.“

Yrsa segir að hún hafi viljað opna augu fólks fyrir þessum raunveruleika og hversu mikilvægt það er að bera virðingu fyrir aldri. „Það skiptir alveg jafn miklu máli hvernig þú ferð úr þessum heimi og hvernig þú kemur í hann og það er ákveðin fegurð fólgin í þessum tímapunkti lífsins, þótt það sé á sama tíma svolítið sorglegt líka.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir