Guðbjörg Svanhildur Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 27. nóvember 1930. Hún lést 26. apríl 2024 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Foreldrar hennar voru Jón Ármann Benediktsson bóndi, f. 16. desember 1898 á Eystri-Reyni í Innri-Akraneshreppi, d. 2. desember 1963, og Valdís Ragnheiður Jónsdóttir húsfreyja, f. 26. október 1892 á Leiti í Dýrafirði, d. 10. október 1962.

Systir Guðbjargar, sammæðra, var Bergþóra Baldvinsdóttir, f. 27. desember 1913, d. 30. desember 1999, Alsystur Guðbjargar voru Sigríður, f. 6. apríl 1918, d. 20. febrúar 2018, Margrét Ingunn, f. 13. október 1919, d. 18. september 1995, Matthildur, f. 8. febrúar 1922, d. 13. maí 2009, og Katrín Ruth, f. 11. maí 1927, d. 4. október 2007.

Hinn 28. ágúst 1949 giftist Guðbjörg Gunnari Jóni Sigtryggssyni, f. 3. febrúar 1928, d. 10. janúar 2002. Foreldrar Gunnars voru Sigtryggur Kristinsson, f. 18. nóvember 1896, d. 19. desember 1972, og Kristjana Vigdís Jónsdóttir, f. 23. nóvember 1904, d. 1. maí 1984.

Börn Guðbjargar og Gunnars eru: 1) Kristján Sigtryggur, f. 14. júní 1949, maki Ásta G. Sigurðardóttir, f. 22. júní 1951. Börn þeirra eru a) Guðbjörg Unnur, maki Sigurgeir Aðalsteinsson, b) Haukur, maki Berglind Ósk Jóhannesdóttir, c) Gunnhildur Erla, maki Birgir Jónasson. 2) Kolbrún Rut, f. 1. nóvember 1951, d. 5. apríl 2006, fyrrverandi maki Einar Helgason, f. 15. ágúst 1944. Börn þeirra eru a) Helgi Valur, b) Gunnar Svanur, maki Áslaug Björnsdóttir, c) Rúna, maki Þorsteinn Ingi Ómarsson. 3) Valur Ármann, f. 21. ágúst 1953, maki Þóra Aradóttir, f. 25. janúar 1954. Börn þeirra eru a) Thelma Rut, sambýlismaður Magnús Garðarsson, b) Hlynur Þór, maki Ásdís Ösp Ólafsdóttir, c) Ari Lár, maki Hjördís Rós Egilsdóttir. 4) Rakel Kristín, f. 17. ágúst 1957, maki Jóhann Guðbjörn Guðjónsson, f. 18. ágúst 1954. Synir þeirra eru a) Guðjón Örn, maki Anna Lea Gestsdóttir, b) Kristján Helgi, maki Íris Sigurðardóttir, c) Þröstur Leó, maki Ólafía Kristín Norðfjörð. 5) Jón Ragnar, f. 9. mars 1964, maki Guðrún Guðmundsdóttir, f. 14. febrúar 1966. Börn Jóns úr fyrra hjónabandi eru a) Sandra Rós, maki Eva Mariníková, b) Aðalheiður Valdís, c) Gunnar Dagur, unnusta Björg Hákonardóttir. Sonur Guðrúnar úr fyrra sambandi er d) Ólafur Davíðsson. 6) Aðalheiður Ósk, f. 19. desember 1967, maki Ingvi Þór Sigríðarson, f. 9. janúar 1971. Börn þeirra eru a) Kristjana Vigdís, maki Davíð Sæmundsson, b) Arnþór Ingi.

Barnabarnabörnin eru þrjátíu talsins og barnabarnabarnabörnin eru þrjú.

Guðbjörg bjó fyrstu árin í Fögrubrekku við Langholtsveg í Reykjavík en flutti að Krossi í Innri-Akraneshreppi árið 1938. Guðbjörg og Gunnar bjuggu sín fyrstu búskaparár á Krossi en byggðu síðan upp búið Fögrubrekku í Innri-Akraneshreppi og hófu þar búskap árið 1955. Þau fluttu á Akranes árið 1967 og síðan til Sandgerðis árið 1970. Eftir að Gunnar lést árið 2002 fluttist Guðbjörg til Keflavíkur.

Útför Guðbjargar fer fram frá Sandgerðiskirkju í dag, 16. maí 2024, klukkan 13.

Fólk sem fætt er árið 1930 hefur upplifað einhverja ótrúlegustu tíma sögunnar. Móðir mín, Guðbjörg Svanhildur Jónsdóttir, alla tíð kölluð Lilla (amma Lilla eða Lilla frænka), var ein af þeim. Henni féll sjaldnast verk úr hendi og var með í öllu alveg fram á síðasta dag. Hún átti erfitt með að sætta sig við óréttlæti sem viðgengst allt of víða, enda hennar lífsmáti að bæta líf annarra.

Hún fæddist í Reykjavík, yngst sex systra, en flutti með foreldrum sínum að Krossi í Innri-Akraneshreppi átta ára gömul. Það var oft fjölmennt á bænum, unglingar jafnt og fullorðnir dvöldu á staðnum og tóku þátt í bústörfunum en einnig ættingjar og vinir sem litu við, því á Krossi var vel tekið á móti fólki og þaðan átti móðir mín margar góðar minningar. Eftir að hún kynntist föður okkar systkina, Gunnari J. Sigtryggssyni, og byggði með honum nýbýlið Fögrubrekku, var sami háttur hafður á og gestir ávallt velkomnir.

Árin á Fögrubrekku eru minnisstæð, í sjálfu sér var það afrek á þessum árum að byggja svo reisulegar byggingar með tvær hendur tómar en það tókst að miklu leyti þó svo að árin sem á eftir gengu væru erfið en á þessum tíma hjálpaðist fólk að og nýtti hluti. Sveitungarnir mættu í vinnu ef þörf var á, störfuðu saman í ungmennafélagi, kvenfélagi eða bændafélagi, skemmtu sér á þorrablótum og sungu í kirkjukórnum, svona var lífið, en upp úr stendur þó minning um margra ára samvinnu vinafólks á Kjaranstöðum.

Móðir okkar var listakokkur og gerði oft kræsingar úr litlu líkt og Valdís móðir hennar. Auknar kröfur og hröð tæknivæðing í landbúnaði gerði það að verkum að foreldrar mínir ákváðu að bregða búi og fluttu til að byrja með á Akranes en þar var litla eldhúsið á Skagabrautinni eins og kaffihús því margir úr sveitinni litu þar við ef þeir áttu erindi í kaupstaðinn og þannig héldust tengslin við sveitina. Þarna kom Ásta inn í fjölskylduna og var tekið opnum örmum, þær Lilla urðu perluvinkonur frá fyrsta degi og bar aldrei skugga á þá vináttu.

Árið 1970 var svo ákveðið að flytja suður í Sandgerði ásamt þeim börnum sem enn voru heima. Í Sandgerði eignuðust þau fjölda vina og leið vel, þau voru alla tíð samrýmd og gengu hvort í annars verk eftir þörfum. Við Bjarmaland byggðum við sitt húsið hvort og áttum þar mörg góð ár því gatan á þessum tíma var eins og eitt stórt heimili þar sem allir þekktust en móðir okkar eins og endranær dró alla að sér og varð að ömmu Lillu sem allir þekkja.

Þegar heilsu föður míns fór að hraka ákváðu þau að minnka við sig og fluttu í notalega hæð í ágætu húsi við Suðurgötu í Sandgerði. Við Ásta fluttum til baka að Fögrubrekku og foreldrar mínir nutu þess að koma í sveitina, rifja upp liðna tíð og heilsa upp á ættingja og vini. Eftir fráfall föður okkar 2002 flutti móðir okkar á Kirkjuveg 5 í Keflavík sem var hennar síðasta heimili. Amma Lilla var fasti punkturinn í fjölskyldunni og alltaf í góðu sambandi við allt sitt fólk, við minnumst samverustunda og langra símtala.

Þín er sárt saknað.

Kristján og Ásta.

Elsku mamma, það er erfitt að kveðja og söknuðurinn er mikill, en mikið er ég líka þakklát fyrir allar góðu minningarnar. Mamma var einstök kona, hún var ættmóðirin sem hélt utan um stóru fjölskylduna sína, hún fylgdist vel með fólkinu sínu og sýndi öllum ást og umhyggju. Hún var mikil félagsvera og elskaði að hafa fólkið sitt í kringum sig. Hún lét sig helst aldrei vanta þegar fjölskylda og vinir komu saman og þó hún væri komin á tíræðisaldur vildi hún fara í allar veislur, var yfirleitt með þeim fyrstu sem mættu og með þeim síðustu út. Allir löðuðust að henni, enda kom hún vel fram við alla og fór aldrei í manngreinarálit. Börnin hændust að henni og það var svo gaman að fylgjast með að öll ömmubörnin komu alltaf og knúsuðu hana þegar fjölskyldan hittist, þeim þótti svo undur vænt um hana eins og okkur öllum.

Mamma lifði tímana tvenna og rúmlega það. Það var gaman að hlusta á hana segja frá sínum yngri árum. Þó að hvorki foreldrar hennar né hún og pabbi hefðu mikið á milli handanna talaði hún um að þau hefðu aldrei liðið skort. Mamma og pabbi voru einstaklega samhent hjón og áttu fallegt og gott samband. Það var alltaf nóg að gera á stóru heimili, ekki einungis var fjölskyldan stór heldur var alla tíð gestkvæmt hjá þeim og var alltaf boðið upp á hlaðið borð af gómsætum mat, bakkelsi og smurbrauði. Mamma hafði yndi af matseld og bakstri og það var ekki bara heimilisfólk og gestir sem nutu góðs af heldur var hún dugleg að gefa vinum og ættingjum alls kyns góðgæti. Fyrir jólin bakaði hún oft heil ósköp af smákökum og tertum og gaf, sérstaklega ef hún vissi að einhvers staðar væru veikindi eða að einhver ætti um sárt að binda. Hún var líka snillingur í saumaskap og handavinnu, lengi vel saumaði hún öll föt á fjölskylduna og allt var svo flott og vandað. Barnabörnin fengu öll útprjónaðar peysur, húfur og fleira, hún saumaði líka falleg vöggusett með hekluðu milliverki fyrir börnin í fjölskyldunni.

Fjölskyldan flutti úr sveitinni niður á Akranes stuttu áður en ég fæddist og þegar ég var á þriðja ári fluttum við til Sandgerðis. Ég á ljúfar minningar frá æsku minni í Sandgerði, mamma var alltaf til staðar með sína ást og umhyggju. Þar eins og í sveitinni var alltaf gestagangur og allir velkomnir, ungir sem aldnir. Mamma og pabbi voru virk í félagsstarfi, þau höfðu yndi af söng og tóku alla tíð þátt í kirkjukórastarfi, fyrst í Innri-Hólmskirkju og síðar Hvalsneskirkju og söng mamma í kórnum fram yfir áttrætt. Það var mikið áfall fyrir mömmu þegar pabbi dó, eins samrýmd og þau voru. Annað áfall reið yfir þegar Rut systir lést aðeins 54 ára. En þó að söknuðurinn hafi verið mikill átti mamma mörg góð ár eftir þetta. Ég var svo lánsöm að búa nálægt henni síðustu árin þannig að við hittumst nánast daglega og er ég þakklát fyrir hve náið samband okkar hefur alltaf verið.

Elsku mamma mín, ég veit að pabbi og Rut hafa tekið vel á móti þér í sumarlandinu ásamt öllum hinum sem eru farin. Ég bið að heilsa öllum.

Takk fyrir allt, ég elska þig.

Þín dóttir,

Aðalheiður (Heiða).

Hvernig kveður maður elsku mömmu? Þessa dásamlegu konu sem hafði yfir ótæmandi kærleiksbrunni að ráða sem hún jós óhikað upp úr til allra sem á þurftu að halda. Það er erfitt að horfa á eftir fólkinu sem maður elskar mest en á sama tíma er ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir að hafa fengið að hafa mömmu hjá okkur allan þennan tíma. Mamma fylgdist vel með öllu sem á gekk í fjölskyldunni okkar og einnig var hún tengillinn við fjölskyldur systra sinna og bræður pabba heitins. Talandi um pabba þá var hann einn geðprúðasti maður sem ég hef kynnst og það var yndislegt að sjá hvað þau voru samrýmd hjón. Sama hvað á gekk var alltaf litið á björtu hliðarnar og jákvæðnin höfð að leiðarljósi þó svo oft hafi verið hart í ári. Heimili þeirra var öllum opið og oft á tíðum var líf og fjör við eldhúsborðið þegar nágrannarnir kíktu í kaffi.

Mamma var þeim einstaka eiginleika búin að hún gerði aldrei upp á milli fólks. Fyrir henni voru allir jafnir. Þetta sást glöggt innan fjölskyldunnar því að þar fengu allir jafna og hlutlausa meðferð. Ef hún gaf einu barnabarni eitthvað, þá fengu öll hin það sama eða eitthvað sambærilegt. Eftir því sem hópurinn stækkaði varð þetta flóknara en það kom aldrei til greina að bregða út af þessari reglu. Ætíð skyldi jafnt yfir alla ganga. Hún var líka ótrúlega dugleg kona sem hikaði ekki við að leggja á sig vinnu til að hjálpa öðrum þó hún væri oft á tíðum dauðþreytt sjálf. Hennar leið að fólki var í gegnum kökur. Ef eitthvað bjátaði á hjá einhverjum í vinahópnum, og það svo sem þurfti ekkert endilega að vera í vinahópnum heldur átti það við ef hún heyrði af því að einhver ætti bágt, þá bakaði mamma köku og fór með til viðkomandi og þannig eignaðist hún marga vini.

Mamma mátti ekki til þess hugsa að verða fangi í eigin líkama. Hún var búin að fá væga blóðtappa sem höfðu greinilega áhrif á minnið hennar. Mamma var einstök kona, hún var alltaf með afmælisdaga allra í fjölskyldunni á hreinu þó hún kynni ekkert á tölvur og ekki var hún á fésbókinni. Hún var bara með þetta allt í höfðinu. Eftir að blóðtapparnir fóru að hafa áhrif þá gekk henni ekki eins vel að muna eftir ýmsum hlutum og kvartaði sáran yfir því en ég held svei mér að hún hafi samt haft betra minni en ég hef nokkurn tímann haft. Svo kom að því að mamma blessunin fékk svo slæmt heilablóðfall að ekki varð við ráðið. Þrátt fyrir það tókst henni að halda rænu á meðan allir hennar afkomendur sem gátu komið og heimsótt hana áttu fallega kveðjustund með henni. Það var aðdáunarvert að þrátt fyrir áfallið þá vissi hún nákvæmlega við hvern hún var að tala í hvert skipti og spurði alla út í persónulega hluti sem sneru að þeim. Svo kom að því að mátturinn þvarr og hún féll í friðsælan svefn sem leiddi til fallegrar kveðjustundar í faðmi fjölskyldunnar, alveg eins og hún hefði helst viljað. Þessi kona var ein af þessum sterku íslensku konum sem eru engu líkar og við karlarnir erum svo stoltir af og elskum svo óendanlega mikið. Hvíldu í friði elsku mamma.

Þinn Nonni.

Jón.

Elsku amma Lilla, langamma Lilla, langalangamma Lilla, mikill er missir okkar allra. Þú varst amman úr ævintýrunum sem lést öllum líða vel og máttir ekkert aumt sjá. Þú gerðir aldrei upp á milli afkomenda þinna en lést hverjum og einum líða eins og hann væri í uppáhaldi, við systkinin erum þar engin undantekning. Við minnumst þess hversu lánsöm við vorum að fá að búa í næsta húsi við ykkur afa í Sandgerði fyrstu árin okkar og síðar að fá að búa á Fögrubrekku og taka þátt í að gera upp „ættaróðalið“ sem þið afi byggðuð í upphafi sambands ykkar á þínum heimaslóðum í Innri-Akraneshreppi, nú Hvalfjarðarsveit.

Þið afi voruð fyrirmyndarhjón. Allir voru jafnir í ykkar augum og þið voruð alltaf tilbúin til að aðstoða náungann. Góðmennskan og fórnfýsin voru aðalsmerki ykkar alla tíð. Að alast upp með slíkar fyrirmyndir eru forréttindi og reynum við systkinin að bera arfleifð ykkar með sóma.

Þótt auðvelt sé að leiðast út í að rita um ykkur afa sem eina heild þar sem þið voruð svo samheldin hjón þá voruð þið ekki síður til fyrirmyndar sem einstaklingar. Þú varst alla tíð kjarnakona og lést fátt stoppa þig. Varst mætt í heyskap á túnunum á Krossi þegar þú varst nýbúin að eiga pabba og stóðst við bakstur í eldhúsinu svo til fram á síðasta dag, þá komin á 94. aldursár. Okkur er minnisstætt þegar heilsu afa hrakaði og þið höfðuð áhyggjur af því að komast ekki á kóræfingar, á skemmtanir eða að vitja ættingja og vina. Þá var ekkert annað að gera en að drífa ömmu gömlu í bílprófið sem þú stóðst með prýði, þá sjötug að aldri.

Tíminn leið alltaf hratt í návist þinni, elsku amma. Löngu símtölin eru ekki síst merki um það. Það var auðvelt að gleyma sér í sögum þínum af lífinu á árum áður, frá þér sem lítilli stúlku í borginni, af sveitalífinu á Krossi þar sem alltaf var margt um manninn, af pabba þegar hann var lítill drengur og systkinum hans, af draugnum Gvendi neflausa, af dýrunum á bænum og svo mætti lengi telja. Samtölin voru iðulega talin í klukkustundum en ekki mínútum en það er tími sem við metum mikils og munum sakna um ókomna tíð.

Heimili þitt var alltaf fallegt og hlýlegt og þar var ekki rykkorn að finna. Meira að segja þröskuldarnir voru glansandi hreinir. Þar var heldur engum í kot vísað. Eldhúsborðið svignaði iðulega undan kræsingunum sem þú reiddir fram fyrir gesti og gangandi. Við barnabörnin höfum flest reynt að leika eftir ömmu Lillu brúntertuna, skinkuhornin, vínarbrauðin, eplakökuna og jafnvel fiskibollurnar en alltaf vantar þó eitthvað örlítið upp á, kannski ömmu Lillu hlýjuna og ástina.

Nú þegar nýr veruleiki bíður okkar, án návistar þinnar, þá munum við heiðra minningu þína með kærleik, fórnfýsi og góðmennsku að leiðarljósi, rækta fjölskylduböndin nú sem endranær og halda áfram að reyna að reiða fram kræsingar í þínum anda.

Við söknum þín, elsku amma Lilla.

Guðbjörg, Haukur
og Gunnhildur
Kristjánsbörn.

Með örfáum orðum vil ég minnast Lillu tengdamömmu minnar. Frá fyrstu kynnum var hún óþreytandi við að reyna að koma mat eða kökum á diskinn minn. Lilla tók eins á móti öllum, með opinn faðminn og fordómalaus bauð hún upp á kaffi og með því. Hún var dugleg kona með stórt heimili og dagarnir oft ansi langir. Afkomendur hennar eru mjög stór hópur sem hún fylgdist vel með og var stolt af þeim öllum.

Góð kona, eru orðin sem lýsa henni vel.

Ingvi Þór.

Komið er að kveðjustund. Mig langar að minnast Lillu, eins og hún var ætíð kölluð, með nokkrum orðum. Okkar leiðir lágu saman fyrir rúmum 30 árum en Lilla var frænka mannsins míns sem nú er látinn. Það fór strax vel á með okkur Lillu. Ég sá fljótt að hér var á ferðinni mikil mannkostakona og ljúfmenni. Það var afskaplega gott að heimsækja Lillu. Hún tók okkur opnum örmum og af henni geislaði hlýja og væntumþykja. Ef hægt er að segja að einhver sé með geislabaug, þá var Lilla svo sannarlega með hann.

Ég get nú ekki látið hjá líða að minnast á kræsingarnar sem Lilla bar á borð þegar komið var til hennar. Hún átti alltaf gott heimabakað með kaffinu enda var hún mikið að baka og stússast í eldhúsinu á meðan heilsan leyfði.

Lilla kom oft til okkar í Akurprýði þegar hún kom á Akranes á meðan maðurinn minn lifði. Það var gott að fá hana í heimsókn og spjalla. Það gladdi mig líka mikið að hún náði að heimsækja mig í nýju íbúðina mína við Þjóðbraut. Ég er þakklát fyrir heimsóknirnar hennar Lillu í gegnum árin og að hún lagði það á sig að heimsækja okkur þó að heilsan væri ekki alltaf upp á það besta.

Lilla var falleg kona. Hún var alltaf í svo fallegum fötum og vel snyrt. Við áttum notalegar stundir þegar við töluðum saman í síma. Hún átti stóra fjölskyldu sem hún talaði mikið um og var svo stolt af. Lilla lét sér afar annt um sína fjölskyldu og fylgdist vel með öllum. Hún lét sér líka annt um náungann og sitt samferðafólk.

Lilla var 93 ára þegar hún kvaddi þennan heim, það er hár aldur. Það er samt einhvern veginn þannig að maður er aldrei tilbúinn að kveðja vini og ættingja hinstu kveðju. Mér þótti afskaplega vænt um Lillu og ég á eftir að sakna hennar mikið.

Mig langar að þakka henni fyrir okkar ljúfu samverustundir, þær ylja þegar komið er að kveðjustund. Ég votta börnum hennar, tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ástvinum samúð mína.

Blessuð sé minning þessarar mætu konu.

Þeir segja mig látinn, ég lifi samt

og í ljósinu fæ ég að dafna.

Því ljósi var úthlutað öllum jafnt

og engum bar þar að hafna.

Frá litlu hjarta berst lítil rós,

því lífið ég þurfti að kveðja.

Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,

sem að mun ykkur gleðja.

(G. Ingi)

Anna G. Barðadóttir.