Suðurland Um margt einstakur staður, segir Steindór Eiríksson, hér við Hrunalaug. Um áratugur er síðan aðsókn á þennan stað fór að aukast til muna nánast óvænt. Aðgerða og umhverfisbóta var þörf og í því sáu landeigendur tækifæri sem þeir svöruðu með uppbyggingu og bættri aðstöðu.
Suðurland Um margt einstakur staður, segir Steindór Eiríksson, hér við Hrunalaug. Um áratugur er síðan aðsókn á þennan stað fór að aukast til muna nánast óvænt. Aðgerða og umhverfisbóta var þörf og í því sáu landeigendur tækifæri sem þeir svöruðu með uppbyggingu og bættri aðstöðu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðastliðið sumar var tekin í notkun ný og endurbætt aðstaða í Hrunalaug, skammt frá Flúðum í uppsveitum Árnessýslu. Þarna er náttúrulegur baðstaður sem komið hefur sterkt inn á síðustu árum meðal ferðafólks

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Síðastliðið sumar var tekin í notkun ný og endurbætt aðstaða í Hrunalaug, skammt frá Flúðum í uppsveitum Árnessýslu. Þarna er náttúrulegur baðstaður sem komið hefur sterkt inn á síðustu árum meðal ferðafólks. Laug þessi er í landi jarðarinnar Áss, sem er skammt frá kirkjustaðnum Hruna. Á þessum slóðum háttar svo til að vatn safnast saman í hæðadrögum, sem rennur eftir heitri klöpp og fellur síðan fram eins og lindin tær. Og þarna verður Hrunalaug til, mynduð með fyrirhleðslum og grjótveggjum.

Aðstaða til þvotta og baða

„Þetta er um margt einstakur staður sem komið hefur sterkur inn meðal ferðamanna,“ segir Steindór Eiríksson. Hann er frá Ási og á þá jörð með tveimur systrum sínum. Ættmenni þeirra systkina hafa lengi búið í Ási og um 1890 var hlaðinn veggur við uppsprettuna og heitir þar síðan Hrunalaug. Aðstaða þessi var lengi notuð til þvotta og baða, meðal annars á sauðfé. Síðar fór heimafólk í sveitinni að nýta sér staðinn til að busla í og baða sig á góðum stundum, sem var látið óátalið.

Fyrir um áratug, þegar erlendum ferðamönnum sem koma til landsins fór að fjölga til muna, varð Hrunalaug skyndilega vinsæll staður. Gerðu landeigendur sér þá grein fyrir að við því þyrfti að bregðast ætti staðurinn ekki að skaðast varanlega sökum ásóknar. Í aðsókninni fælust einnig tækifæri. Því var farið í uppbyggingu.

Óvænt aðsókn

„Hve margir koma hingað í Hrunalaug var óvænt,“ segir Steindór. Upplýsingar um staðinn í bókinni Heitar laugar á Íslandi eftir Jón G. Snædal og Þóru Sigurbjörnsdóttur, sem út kom árið 2009, breyttu miklu sem og upplýsingar sem ferðamenn deila sín á milli á netinu.

„Árið 2017 var ásóknin orðin slík að hér voru hleðslur að aflagast, lækjarbakkar að troðast niður og svöð að myndast. Því var farið í stígagerð; úrbætur sem við landeigendur höfum svo haldið áfram með. Nýjast í þessu verkefni er að nú er Hrunalaug í raun orðin þrískipt. Vatnið rennur fram í þrepum og neðst er laug sem við útbjuggum með stuðlabergi sem fengið er héðan úr sveitinni. Hér niður við veg höfum við útbúið bílastæði og afgreiðsluhús með salernum. Næsta skref verður að reisa hér búnings- og sturtuaðstöðu í brekkunni og við laugarnar, samanber deiliskipulag fyrir staðinn sem liggur fyrr. Í þær framkvæmdir förum við væntanlega í haust eða næsta vetur.“

Einstök upplifun

Steindór er vélhönnuður og sviðsstjóri hjá Marel. Er tæknimenntaður og segir slíkt hafa komið sér vel í þessari aukavinnu sinni í sveitinni. Í verkefni þessu segir hann að sömuleiðis hafi munað mjög um framlag frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, en styrkir þaðan hafa nýst mjög vel við framkvæmdir. Frekari uppbygging, sem snýr að varanlegri búningsaðstöðu, er nú í umsóknarferli og í góðri samvinnu við heilbrigðis- og skipulagsyfirvöld. Nú nýverið var sett upp tímabundin búningsaðstaða en sú verður fjarlægð um leið og varanleg mannvirki eru tilbúin.

„Leiðarljósið í þessari uppbyggingu hefur verið að halda í náttúrulegar aðstæður og forðast að gera umhverfið manngert um of. Laugargestir, sem að stærstum hluta eru erlendir, eru líka heillaðir af þessu umhverfi. Bandaríkjamennirnir segja sumir hverjir að upplifunin sé einstök, þakka okkur fyrir en bæta við að ættu þeir sjálfir svona stað myndu þeir ekki leyfa neinum öðrum að njóta. Og svo róma þeir staðinn mjög, sem okkur sem að Hrunalaug stöndum þykir mikilvæg endurgjöf.“