Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Ég tel ekki eðlilegt að þingmenn afgreiði umsóknir um ríkisborgararétt í blindni og án þess að vita neitt um hvaða fólk þar er að ræða og hvað býr að baki, en dæmi eru um að fólk hafi fengið ríkisborgararétt hér á landi sem með réttu hefði ekki átt að hljóta hann,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég tel ekki eðlilegt að þingmenn afgreiði umsóknir um ríkisborgararétt í blindni og án þess að vita neitt um hvaða fólk þar er að ræða og hvað býr að baki, en dæmi eru um að fólk hafi fengið ríkisborgararétt hér á landi sem með réttu hefði ekki átt að hljóta hann,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.

Hann hefur sent forsætisnefnd Alþingis bréf þar sem farið er fram á að hann og þar með þingheimur allur fái aðgang að þeim umsóknum um ríkisborgararétt sem nú liggja fyrir hjá Alþingi, sem og fylgigögnum.

„Ég tel að Alþingi verði að breyta vinnulagi sínu í þessum málum. Reglan á að vera sú að fólk fari í gegnum gildandi lagaumhverfi um veitingu ríkisborgararéttar hér á landi, en þingið komi einungis að slíkum veitingum í algerum undantekningartilfellum,“ segir Jón.

Í bréfi Jóns er rifjað upp að framkvæmd veitingar ríkisborgararéttar sé með þeim hætti að umsóknir berast þriggja manna nefnd þingmanna, auk nefndarritara allsherjar- og menntamálanefndar. Sú nefnd leggi síðan fram frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar til ákveðins hóps fólks. Umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar frá Alþingi skv. 6. gr. laga um ríkisborgararétt „eru lagðar fyrir Alþingi“, eins og segir í ákvæðinu. Segir Jón að með Alþingi sé átt við þá 63 þingmenn sem sitja þar, sbr. ákvæði stjórnarskrárinnar þar um. Samkvæmt orðanna hljóðan séu umsagnir um ríkisborgararétt frá Alþingi lagðar fyrir alla þjóðkjörna þingmenn.

Réttur þingmanna

Einnig megi líta til þess að skv. þingskapalögum eigi þingmenn rétt á þeim upplýsingum um þingmál sem ráðherra býr yfir og hafi verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu. Réttur þingmanna til aðgangs að umsóknum um ríkisborgararétt sé því ótvíræður.

Segir Jón að persónuverndarlög takmarki ekki rétt þingmanna til aðgangs að þessum umsóknum. Þannig komi skýrt fram í 4. gr. laganna að þau og reglugerðin gildi ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram í tengslum við lögbundin verkefni Alþingis. Umsækjandi sendi sjálfur inn umsóknina til Alþingis að eigin frumkvæði og hafi þar með gefið þingmönnum samþykki fyrir vinnslu upplýsinganna. Þá fái ekki staðist að ritara allsherjar- og menntamálanefndar sé veittur aðgangur að umsóknunum en ekki þingmönnum sem lögum samkvæmt eigi að taka afstöðu til þeirra, ólíkt nefndarriturum.

Jón segir að áður hafi meginreglan verið sú að umsóknir til Alþingis um ríkisborgararétt væru undantekning, en síðustu ár hafi mál þróast þannig að umsóknum til þingsins hafi fjölgað mikið og fólk stytt sér leið með því að fara fram hjá Útlendingastofnun með umsóknir. Þetta segist hann hafa gagnrýnt, enda hafi vinnuálag á lögreglu og Útlendingastofnun við vinnslu upplýsinga um umsækjendur fyrir Alþingi aukist mjög í kjölfarið. Þessu vinnulagi breytti Jón í sinni tíð sem dómsmálaráðherra, þannig að umsóknir voru afgreiddar í réttri tímaröð, en þær umsóknir sem beint var til Alþingis nutu ekki forgangs.

„Það hefur líka komið fram gagnrýni á möguleg tengsl einstakra þingmanna við umsækjendur, mögulegar yfirsjónir Alþingis við rannsókn á einstaka umsóknum vegna álags og því tel ég að breyta þurfi þessu vinnulagi sem ég hef sagt opinberlega að sé fyrir neðan allar hellur og óásættanlegt fyrir þingheim,“ segir Jón.