Barbara Hannigan
Barbara Hannigan
Kanadíski hljómsveitarstjórinn og söngkonan Barbara Hannigan hefur verið ráðin aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún tekur við stöðunni í ágúst 2026 og gegnir henni í þrjú starfsár

Kanadíski hljómsveitarstjórinn og söngkonan Barbara Hannigan hefur verið ráðin aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún tekur við stöðunni í ágúst 2026 og gegnir henni í þrjú starfsár.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Barbara Hannigan tekur að sér hlutverk aðalhljómsveitarstjóra en hún mun stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands á sex áskriftartónleikum á hverju starfsári, ásamt því að hljóðrita og stjórna sveitinni á tónleikaferðum. Sem listrænn stjórnandi mun Hannigan koma að framsæknu verkefnavali og dagskrárgerð hljómsveitarinnar,“ segir í tilkynningu frá sveitinni.

„Forvitni, hugrekki og sköpunargleði er það sem einkennir hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, auk metnaðar þeirra. Hljómsveitin er tæknilega mjög sterk en svo hafa þau líka dásamlegt ímyndunarafl. Í samstarfi mínu við hljómsveitina kviknaði í fyrsta sinn löngun hjá mér til að taka að mér hlutverk aðalhljómsveitarstjóra. Þegar saman kom þessi skapandi orka á hárréttum tímapunkti ákváðum við að leggja í þessa vegferð saman,“ er þar haft eftir Hannigan.