Stjarnan Esther Rós Arnarsdóttir lék mjög vel gegn FH-ingum.
Stjarnan Esther Rós Arnarsdóttir lék mjög vel gegn FH-ingum. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Esther Rós Arnarsdóttir, framherji Stjörnunnar, var besti leikmaðurinn í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Esther var í lykilhlutverki í sóknarleik Garðabæjarliðsins sem fór hamförum á fyrstu 16 mínútum leiksins gegn FH og var komið í 4:1 eftir þann kafla

Esther Rós Arnarsdóttir, framherji Stjörnunnar, var besti leikmaðurinn í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Esther var í lykilhlutverki í sóknarleik Garðabæjarliðsins sem fór hamförum á fyrstu 16 mínútum leiksins gegn FH og var komið í 4:1 eftir þann kafla. Esther var bæði með mark og stoðsendingu og gerði sínum gömlu félögum í FH lífið leitt. Leikurinn endaði að lokum 4:3, Stjörnunni í hag. Esther fékk tvö M í einkunn hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína.

Esther er 26 ára gömul og leikur sitt 13. tímabil í meistaraflokki en hún spilaði fyrst aðeins 14 ára gömul með uppeldisfélaginu, Breiðabliki, í efstu deild árið 2012.

16 ára markadrottning

Hún var í röðum Breiðabliks til 2020 en var lánuð þrisvar. Fyrst til Fjölnis, þar sem hún skoraði 21 mark í 1. deildinni árið 2014 og varð markadrottning deildarinnar, aðeins 16 ára gömul. Hún lék síðan með ÍBV árið 2015 og var loks lánuð til HK/Víkings hluta tímabilsins 2019.

Esther gekk síðan til liðs við FH og lék með Hafnarfjarðarliðinu í þrjú ár, 2021 til 2023, og var í liði FH sem tryggði sér úrvalsdeildarsæti haustið 2022.

Hún hefur skorað níu mörk í 84 leikjum í efstu deild og 24 mörk í 37 leikjum í 1. deild en Esther skoraði 15 mörk í 31 leik fyrir yngri landslið Íslands á sínum tíma.

Esther var ein þriggja kvenna sem fengu tvö M fyrir frammistöðu sína í fimmtu umferð Bestu deildarinnar. Samherji hennar Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir, sem líka var öflug í sóknarleiknum gegn FH, fékk tvö M og sömuleiðis Fanndís Friðriksdóttir sem var í stóru hlutverki hjá Val í sigri meistaranna gegn Tindastóli, 3:1.

Þær eru allar í úrvalsliði fimmtu umferðar, Esther og Fanndís eru báðar í liðinu í annað sinn í ár, en Víkingurinn ungi Sigdís Eva Bárðardóttir er valin í úrvalsliðið í þriðja sinn.