Niðurlæging Bandaríkjanna

Það verða víðar forsetakosningar á þessu ári en á Íslandi, hinar veigamestu vestur í Bandaríkjunum. Þar blæs ekki byrlegar fyrir Joe Biden forseta en svo, að þegar er farið að ræða hver arfleifð hans verði.

Innanlands nefna menn helst verðbólgu og ævintýralega skuldaaukningu ríkisins, en þetta tvennt er ekki ótengt, auk útlendingamála. Sumir minnast kosningaloforðs hans um að græða sár skautunar og átaka, en þau eru hálfu dýpri en fyrir. Annar árangur er óræðari.

Líklega verður Bidens lengur minnst fyrir arfleifð hans á alþjóðasviðinu og ekki af hlýhug. Þar hefur hann sérhæft sig í að styggja, svíkja og vanrækja bandamenn eins og Breta, Afgani, Sáda og Ísraelsmenn, en láta undan óvinum eða jafnvel verðlauna þá.

Sumt af því virðist þaulhugsuð vitleysa, annað vanmáttarkennd, en stjórnarstefnan jafnreikul í spori og óskýr í hugsun og Biden er sjálfur. Stundum svo að efast er um að hann sé allur þar. En hver stjórnar risaveldinu þá?