Árni Árnason
Árni Árnason
Rottufaraldurinn versnar bara með hverjum orkupakkanum, þar til við vöknum, fáum forseta sem hefur kjark til að hjálpa okkur að stöðva hann.

Árni Árnason

Flestu fólki finnst rottur ógeðsleg kvikindi. Það er ekki að undra, því þær þrífast best þar sem sóðaskapur fær að viðgangast, og ekkert er gert til að stemma stigu við þeim. Rottur eru gráðug kvikindi, éta allt sem að kjafti kemur og eru þannig gerðar að þær geta ekki einu sinni ælt þó að ekki sé allt sem þær éta beinlínis heilsufæði. Nú eru komnar rottur í rafmagnið okkar. Þær rottur eru að vísu af kyni manna, þó að þeir skýli sér á bak við ehf. eins og Orkusalan, N1, Atlantsorka og annað álíka. Eins og hinar rotturnar gera þær ekkert gagn, leggja ekkert af mörkum, en naga og naga alla daga, fitna og belgjast út og verður ekki bumbult sama hvað þær graðga í sig. Og nú hafa bæst við ný rottuhjón sem munu ekki fremur en hinar rotturnar leggja nokkurn skapaðan hlut til samfélagsins, en hyggjast soga til sín molana sem falla af borðinu hjá hinum rottunum þegar þær fara að víla og díla með feng sinn úr rafmagninu sem þjóðin á. Á skrautmáli kallast át þeirra rottuhjónanna orkukauphöll.

En það er svo sem ekki við rottuskarann að sakast. Rottur eru og verða rottur, tækifærissinnar sem éta sig fullir af öllu því sem kló á festir. Það eru alþingismennirnir okkar sem við héldum að væru að vinna í þágu þjóðarinnar, sem sumir viljandi og aðrir í fávisku sinni hafa skapað rottunum kjöraðstæður á fölskum forsendum.

Rottufaraldurinn versnar bara með hverjum orkupakkanum, þar til við vöknum, fáum forseta sem hefur kjark til að hjálpa okkur að stöðva hann. Ella verðum við rottunum að bráð og verðum étin upp til agna.

Höfundur er vélstjóri.

Höf.: Árni Árnason