Þríþrautarkona Hjördís Ýr hljóp hálft maraþon í hálfum járnkarli í Feneyjum og bætti eigið Íslandsmet.
Þríþrautarkona Hjördís Ýr hljóp hálft maraþon í hálfum járnkarli í Feneyjum og bætti eigið Íslandsmet. — Ljósmynd/Sportgraf
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjördís Ýr Ólafsdóttir, 41 árs þríþrautarkona, bætti nýverið eigið Íslandsmet í hálfum járnkarli í keppni í Feneyjum á Ítalíu. Hún kom í mark á 4 klukkustundum 55 mínútum og 27 sekúndum. Fyrra Íslandsmetið setti hún í Samorin í Slóvakíu árið 2017 og …

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir

vally@mbl.is

Hjördís Ýr Ólafsdóttir, 41 árs þríþrautarkona, bætti nýverið eigið Íslandsmet í hálfum járnkarli í keppni í Feneyjum á Ítalíu.

Hún kom í mark á 4 klukkustundum 55 mínútum og 27 sekúndum. Fyrra Íslandsmetið setti hún í Samorin í Slóvakíu árið 2017 og kom þá í mark á tímanum 4 klukkustundum 56 mínútum og 49 sekúndum. Hún bætti því eigið Íslandsmet um 1 mínútu og 22 sekúndur í Feneyjum.

Keppendur í hálfum járnkarli byrja á því að synda 1,9 kílómetra, hjóla svo 90 kílómetra og hlaupa að lokum hálft maraþon, eða 21,1 kílómetra.

Áhuginn kviknaði í Ástralíu

Hjördís segist alla tíð hafa stundað líkamsrækt af miklu kappi. Hún æfði frjálsar íþróttir sem barn og fór að keppa í hlaupum fyrir 15 árum eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn. Við hlaupin átti hún það til að meiðast og byrjaði í framhaldinu að stunda sund og hjólreiðar.

Aðspurð hvað það hafi verið sem vakti áhuga hennar á þríþraut segir hún að áhuginn hafi kviknað þegar hún bjó í Ástralíu í sjö ár. Þríþraut er vinsæl íþrótt í Ástralíu, þar tók hún þátt í sinni fyrstu þríþrautarkeppni og þá varð ekki aftur snúið.

Síðan þá hefur Hjördís stundað þríþraut af kappi með 3SH, þríþrautardeild Sundfélags Hafnarfjarðar. Hún hefur tekið þátt í mörgum keppnum bæði á Íslandi og erlendis og unnið til fjölda verðlauna. Auk þess að stunda þríþraut af kappi er Hjördís grunnskólakennari og þriggja barna móðir.

Aðspurð hvort markmiðið hafi verið að bæta Íslandsmetið segist hún alltaf stefna á að bæta eigin tíma, það vilji svo til að sá tími sé Íslandsmetið. Hún segir að sér líði best þegar hún keppir erlendis í hita, í keppninni í Feneyjum var 20 gráðu hiti og brautin flöt, svo hún vissi að það væri möguleiki á að bæta sjö ára gamla Íslandsmetið hennar, enda kominn tími til, að hennar sögn.

„Það var frábært að keppa á Ítalíu en Ítalía er mér mjög kær enda var ég þar í námi í þrjú ár svo það var gaman að bæta metið mitt þar,“ segir Hjördís að lokum.