Verðlaunahöfundur Ragnhildur segir verðlaunin hvatningu til að halda áfram og skrifa fleiri bækur í framtíðinni.
Verðlaunahöfundur Ragnhildur segir verðlaunin hvatningu til að halda áfram og skrifa fleiri bækur í framtíðinni. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
„Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hafði einu sinni áður sent inn handrit og fengið nei þannig að þegar ég fékk póstinn í febrúar var ég eiginlega að búast við því að það væri sami póstur og einhverjum árum áður þar sem mér yrði tilkynnt að…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Þetta kom mér mjög á óvart. Ég hafði einu sinni áður sent inn handrit og fengið nei þannig að þegar ég fékk póstinn í febrúar var ég eiginlega að búast við því að það væri sami póstur og einhverjum árum áður þar sem mér yrði tilkynnt að handritið hefði ekki verið valið, en svo var ekki þannig að þetta kom mjög mikið á óvart. Ég var alls ekki að búast við þessu en þetta var mjög gleðilegt,“ segir Ragnhildur Þrastardóttir, rithöfundur og blaðamaður, sem hlaut í gær handritaverðlaun Forlagsins, Nýjar raddir, fyrir handrit sitt að nóvellunni Eyju sem kom út í gær.

Þakklát fyrir að fá að gefa út bók

Um er að ræða fyrstu skáldsögu Ragnhildar sem segir verðlaunin hafa mikla þýðingu fyrir sig.

„Sérstaklega það að Forlagið er í raun og veru tilbúið að taka séns á manni og það er svolítið það sem er að gerast í þessum verðlaunum, að prófa að birta einhverja nýja rödd sem það veit ekkert hvernig fólki líkar við. Þannig að það hefur mikla þýðingu fyrir mig að fá loksins að gefa út og að þeim finnist það skipta máli að þessi saga fái að heyrast.“

Að sögn Ragnhildar hafa skrif ávallt verið henni hugleikin, allt frá því hún var barn. „Ég hef þó verið meira í svona súrrealískum smásögum og einhverju svona ævintýralegu, alltaf verið að skrifa eitthvað sem tengist mér ekki beinlínis. Síðasta sumar ákvað ég svo að skrá mig á námskeið hjá Sunnu Dís Másdóttur sem hvatti okkur til að skrifa í korter á dag. Hún kom alltaf með einhverja kveikju og sú kveikja sem varð til þess að ég skrifaði þessa bók var hvað gerist þegar þú hittir einhverja manneskju sem þú hefur ekki séð lengi,“ segir hún. „Þarna var hún að hvetja okkur til að sækja í eigin minningar og eigin reynslu og ég fór í rauninni svolítið að gera það í fyrsta sinn. Ég hafði alltaf forðast það því mér fannst það óþægilegt og einhvern veginn ekki vera jafn mikill skáldskapur og jafn mikil sköpun.“

Segir Ragnhildur að þegar hún hafi síðan sest niður og skrifað út frá eigin reynslu hafi allt farið af stað. „Þegar ég fer að skrifa út frá alls konar upplifunum sem ég hef orðið fyrir, og líka að skálda í kringum það, þá varð þessi bók allt í einu til.“

Haft efnið á heilanum lengi

Aðspurð segir Ragnhildur efni og innihald sögunnar hafa fylgt sér lengi þó að hugmyndin að nóvellunni sjálfri hafi ekki kviknað fyrr en nýlega. „Þetta efni, að takast á við stjúptengsl og það sem gerist þegar ein fjölskylda brotnar og reynir einhvern veginn að púsla sér saman með alls konar ólíkum púslum, er eitthvað sem hefur staðið mér alltaf mjög nærri og ég vissi kannski ekki að ég þyrfti að skrifa um fyrr en núna. Þetta er eitthvað sem ég er búin að vera með örugglega á heilanum síðan ég var krakki, alltaf að spá í þessu og haft mikinn áhuga á stjúptengslum, flóknum fjölskylduböndum og skrýtnum og jafnvel óeðlilegum samskiptum. Það var því mjög frelsandi að koma þessum hugsunum loks niður á blað.“

En skyldi hún þá eiga margt sameiginlegt með aðalpersónu bókarinnar, henni Eyju? „Já, alveg örugglega, en þetta er ekki ég. Allar persónurnar eru skáldaðar og atburðarásin er það að sjálfsögðu líka en klárlega þá var ég að mörgu leyti að skrifa út frá, ja, ég veit ekki, minni persónu örugglega. Þannig að ég reyndi að byggja að einhverju leyti á því sem ég þekki því það er kannski svona það sem maður getur lýst best.“

Gat ekki hætt

Þá segir Ragnhildur skrifin hafa gengið eins og í sögu og ferlið hafa verið mjög stutt. „Ætli ég geti ekki lýst þessu eins og að vera með matareitrun eða eitthvað. Þetta kom, þetta byrjaði og þetta rúllaði. Ég gat einhvern veginn ekki hætt. Ég skrifaði endalaust um helgar, á kvöldin meðfram vinnu og vaknaði ótrúlega snemma á morgnana til þess að fara að skrifa. Ekki af því ég væri svo stressuð yfir að koma þessu út heldur vegna þess að það var alltaf eitthvað að koma upp í hugann sem mér fannst að þyrfti að gerast næst eða ég þyrfti að koma orðunum út úr mér og niður á blað,“ segir hún og tekur fram að hún hafi farið á fyrrnefnt námskeið í júní á síðasta ári og sent handritið inn í keppnina í desember. „Þetta var því bara um hálft ár. En ég sæki líka mikið í það sem ég hef skrifað áður, alls konar smásögur sem hafa verið að malla lengi, eins og atburði, lýsingar og fleira. Þannig að tæknilega séð er þetta lengra tímabil en þessi lokaafurð einhvern veginn spýttist út.“

Lærdómsríkt ferli

Segist Ragnhildur alltaf hafa haft þörf fyrir að koma orðum frá sér niður á blað. „Sérstaklega ef mér líður illa, þá er ég alltaf að skrifa niður bara til að koma tilfinningunum og hugsununum út. Ég starfa við að segja raunverulegar sögur, fréttir og taka viðtöl þannig að það er í rauninni svolítið mikið þannig að mitt skrifferli er líka á þann veginn. En innblásturinn í þessu ferli hefur verið allt öðruvísi en það sem ég hef áður upplifað því hann er þessi veruleiki fólks á mínum aldri, okkar sem erum mörg hver skilnaðarbörn og höfum upplifað alls konar samskipti við ólíka foreldra eða stjúpforeldra sem hætta í sumum tilvikum að vera foreldrar okkar. Við verðum stundum þátttakendur í samböndum foreldra okkar og sambandsslitunum líka. Það getur verið ótrúlega erfitt. Þannig að innblásturinn er raunverulegri heldur en hann hefur oft verið hjá mér áður.“

Vera Knútsdóttir ritstjóri hefur verið Ragnhildi innan handar með útgáfu bókarinnar og segir Ragnhildur það ferli hafa verið mjög lærdómsríkt. „Hún tók mjög fallega utan um þetta. Hún gagnrýndi og hrósaði á sama tíma og passaði þannig alveg að ég myndi ekki fara í kleinu,“ segir hún og hlær. „Vera gaf mér mjög nákvæma endurgjöf. Þessi bók varð til á mjög skömmum tíma og ég bjóst engan veginn við því að hún yrði allt í einu gefin út en hún er svolítið hrá en á sama tíma líka kannski svolítið fersk. En yfirlegan með Veru hjálpaði mjög mikið til við að slípa hana til.“