Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst, – honum datt í hug að lauma að mér einni vísu og þarfnast hún ekki skýringar. Villu hreppt en varist neyð velsæld frá mér hrundið. Rambað oft á rangri leið en rétta veginn fundið

Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst, – honum datt í hug að lauma að mér einni vísu og þarfnast hún ekki skýringar.

Villu hreppt en varist neyð

velsæld frá mér hrundið.

Rambað oft á rangri leið

en rétta veginn fundið.

Á Boðnarmiði yrkir Friðrik Steingrímsson um happdrættisbíl frá Ástþóri:

Ef gera vildir góðan díl

þú gætir þurft að bíða,

Ástþór lofar öllum bíl

sem eftir er að smíða.

Magnús Halldórsson yrkir um framboð og eftirspurn:

Ýmsum þætti eflaust fár

og ástand mála loðið,

sem hefði fram í ótal ár

sig árangurslaust boðið.

Davíð Hjálmar Haraldsson ólst upp við að harðmælið norðlenska væri það eina rétta. Nú ræður ríkjum sunnlenska linmælið.

Vedurinn er vodur oft

vida menn til sveida;

þrúdin ský og þoguloft

og þrálád vædubleyda.

Ólafur Stefánsson svarar:

Sunnlenska málfarið síkvikt rennur

svolítið rúnnað oft.

Brýtur ekki í barninu tennur

ber í sér meira en loft.

Helgi Jónasson frá Hlíð á Langanesi orti um vafasaman heimilisvin:

Forðast boðorð forn og ný

fátt til góðs mun vinna

hitar kærleiks amboð í

eldstóm vina sinna.

Rósberg G. Snædal kvað um hugrakkan samferðamann:

Hræðist varla veður stór

vog þó falla taki

sá er alla ævi fór

einn að fjallabaki.

Magnús Halldórsson á reiðtúr um Hvols(fjall):

Fátt er grænt og frost í jörð

fölir eru móar.

Vetri undan visin börð

vella gráir spóar.

Þorgeir Magnússon um vorkomuna:

Þegar mesta dimman dvín

og dagana tekur lengja,

sál mína fer að svengja;

blanda þá kaffi í brennivín,

bergi á þessu að gamni mín

með vinum mínum, vösku safni
drengja.