Íslenskum ríkisborgararétti á ekki að deila út að lítt athuguðu máli

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur sent forsætisnefnd Alþingis erindi þar sem hann fer fram á að hann og þingheimur allur fái aðgang að umsóknum um ríkisborgararétt sem liggja fyrir Alþingi. Í samtali við Morgunblaðið segir Jón ekki eðlilegt að þingmenn afgreiði slíkar umsóknir í blindni „og án þess að vita neitt um hvaða fólk þar er að ræða og hvað býr að baki, en dæmi eru um að fólk hafi fengið ríkisborgararétt hér á landi sem með réttu hefði ekki átt að hljóta hann“.

Þá segir Jón að hann vilji að þingið breyti vinnulagi sínu. Reglan eigi að vera að fólk fari hefðbundnar leiðir þegar það sækir um að vera veittur ríkisborgararéttur „en þingið komi einungis að slíkum veitingum í algerum undantekningartilfellum“.

Hann bendir á að framkvæmdin hafi verið þannig á þinginu að umsóknir berist þriggja þingmanna nefnd, auk nefndarritara allsherjar- og menntamálanefndar, sem leggi svo fram frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar til ákveðins hóps fólks. Vandinn er sá að stærstur hluti þingmanna hefur ekki nema mjög takmarkaðar upplýsingar um umsækjendurna en Jón telur eðlilegt, og vísar þar í lög um ríkisborgararétt og stjórnarskrá, að allir þingmenn hafi fyllstu upplýsingar tiltækar, líkt og á við um önnur þingmál, enda greiði þeir atkvæði um málið og þessa tilteknu einstaklinga.

Jón Gunnarsson segir einnig að áður hafi umsóknir til Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar verið undantekning en síðustu ár hafi umsóknunum fjölgað mikið og sé fólk farið að nýta þessa leið til að flýta fyrir og fara fram hjá Útlendingastofnun, hinum eðlilega farvegi slíkra umsókna. Þá bendir hann á að fram hafi komið gagnrýni á „möguleg tengsl einstakra þingmanna við umsækjendur, mögulegar yfirsjónir Alþingis við rannsókn á einstaka umsóknum vegna álags og því tel ég að breyta þurfi þessu vinnulagi sem ég hef sagt opinberlega að sé fyrir neðan allar hellur og óásættanlegt fyrir þingheim“.

Þessar aðfinnslur Jóns Gunnarssonar, sem þekkir málið vel eftir að hafa ekki aðeins setið á þingi heldur einnig gegnt embætti dómsmálaráðherra, eiga fullan rétt á sér. Íslendingar hafa ekki gætt nægilega að sér þegar kemur að landamærum og útlendingamálum og hafa þegar lent í miklum kostnaði og óþægindum vegna þess.

Lausatök við afgreiðslu ríkisborgararéttar virðast vera angi af sama meiði en hafa verður í huga að það er ekki sjálfsagður réttur annarra að fá að verða íslenskir ríkisborgarar. Því fylgja mikil réttindi en um leið ábyrgð og skyldur þegar erlendur einstaklingur fær íslenskan ríkisborgararétt. Nauðsynlegt er að hann geri sér grein fyrir því um hvað það snýst og sé reiðubúinn til að takast það á hendur sem því fylgir.