Kjaraviðræður stéttarfélaga kennara innan Kennarasambands Íslands eru komnar í gang. Leggja kennarar m.a. ríka áherslu á að staðið verði við að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna, sem er hluti samkomulagsins sem gert var …

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kjaraviðræður stéttarfélaga kennara innan Kennarasambands Íslands eru komnar í gang. Leggja kennarar m.a. ríka áherslu á að staðið verði við að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna, sem er hluti samkomulagsins sem gert var 2016 við ríkið, sveitarfélögin og Reykjavíkurborg í tengslum við breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Er þetta forsenda þess að gengið verði frá endurnýjun kjarasamninga á þessu ári.

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir að Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum hafi verið samningslaus frá 1. apríl sl. en 31. maí næstkomandi renna svo út samningar aðildarfélaganna í grunn-, leik- og tónlistarskólum.

„Stjórn KÍ sem er skipuð formönnum allra aðildarfélaga tók þá ákvörðun í janúar að segja sig frá viðræðum við miðlægt borð opinberra launagreiðenda og bandalaga launafólks á opinberum markaði þegar kemur að vinnu við jöfnun launa þar sem við töldum óleysanlegan ágreining vera uppi við það borð og verkefnið ætti því heima á borði kjarasamninga hvers bandalags og/eða aðildarfélaga þeirra,“ segir Magnús í svari til blaðsins um stöðu viðræðna kennara um endurnýjun kjarasamninga.

Spurður hvort jöfnun launa milli markaða sé forsenda kjarasamninga segir hann svo vera.

„Það er að mati stjórnar KÍ forsenda fyrir kjarasamningi við aðildarfélög okkar nú á árinu 2024. Launagreiðendum hefur verið gerð sú afstaða ljós en ég veit ekki hvort það er ástæða fundafæðar eða ekki. Þau verða að segja til um það því við erum auðvitað alltaf reiðubúin að funda um málið,“ segir Magnús.

Enn ríkari áhersla en hjá systursamtökunum

Að sögn hans er áhersla lögð á jöfnun launa. „Ég myndi ganga svo langt að segja hana enn ríkari hjá KÍ en systursamtökum okkar á opinbera markaðnum,“ segir Magnús.

Höf.: Ómar Friðriksson