Peking Pútín og Xi stóðu þétt saman við athöfn þar sem tekið var formlega á móti Rússlandsforseta í Peking.
Peking Pútín og Xi stóðu þétt saman við athöfn þar sem tekið var formlega á móti Rússlandsforseta í Peking. — AFP/Forsetaembætti Rússlands
Xi Jinping Kínaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti sögðu í gær að hið nána samband ríkja þeirra „stuðlaði að friði“ í veröldinni, en Pútín hélt í opinbera heimsókn til Peking í gær

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Xi Jinping Kínaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti sögðu í gær að hið nána samband ríkja þeirra „stuðlaði að friði“ í veröldinni, en Pútín hélt í opinbera heimsókn til Peking í gær. Með Pútín í för voru bæði Andrei Belousov, nýskipaður varnarmálaráðherra Rússlands, og Sergei Shoígú, fyrrverandi varnarmálaráðherra sem nú leiðir þjóðaröryggisráð Rússlands.

Leiðtogarnir funduðu ásamt föruneyti sínu á bak við luktar dyr, en að fundi loknum undirrituðu Pútín og Xi sameiginlega yfirlýsingu um að styrkja enn samvinnu ríkjanna tveggja á alþjóðavettvangi. Þá tóku þeir þátt í sérstakri athöfn til þess að minnast þess að 75 ár væru liðin frá því að Kínverjar og Sovétmenn tóku upp stjórnmálasamband.

Xi sagði við Pútín á fundi þeirra að Kínverjar væru tilbúnir til þess að vinna með Rússum til að tryggja „sanngirni og réttlæti“ í heiminum, og Pútín sagði á móti að gott samband ríkjanna tveggja ýtti undir „stöðugleika í alþjóðamálum“. Sagði Pútín einnig að ríkin tvö stuðluðu að „réttlæti og lýðræðislegri alþjóðaskipan“ sem endurspeglaði „fjölpóla veruleika“ og fylgdi alþjóðalögum.

Pútín og Xi samþykktu í sameiginlegri yfirlýsingu sinni eftir fundinn að ríkin tvö myndu standa saman gegn „frekari stigmögnun“ átakanna í Úkraínu, sem og gegn hverju því sem gæti leitt til þess að draga þau á langinn.

Sérfræðingar í málefnum ríkjanna tveggja sögðu að þessa yfirlýsingu mætti skilja sem gagnrýni á vesturveldin fyrir vopnasendingar sínar til Úkraínumanna, á sama tíma og Kínverjar hafa selt Rússum ýmsa tækni og gögn sem nýtist bæði til borgaralegra og hernaðarlegra nota.

Bandaríkjastjórn gagnrýndi t.d. Kínverja í síðasta mánuði fyrir að hafa aðstoðað Rússa við framleiðslu á eldflaugum, drónum og skriðdrekum, án þess að Kínverjar hafi selt Rússum vopn beint. Þá hafa Bandaríkjamenn gagnrýnt Kínverja fyrir að neita að fordæma innrás Rússa í Úkraínu, en kínversk stjórnvöld segjast vera hlutlaus í ófriðnum.

Pútín og Xi lýstu einnig yfir að þörf væri á „pólitískri lausn“ á Úkraínustríðinu, og sagði Xi eftir fundinn að sú lausn fæli í sér virðingu fyrir „fullveldi og landsvæði allra ríkja“ á sama tíma og öryggissjónarmið þeirra væru tekin til greina.

Orð Xis þóttu minna á friðartillögur sem Kínverjar settu fram í tólf liðum í fyrra, en sem vesturveldin og Úkraínumenn gagnrýndu, þar sem tillögurnar hefðu gert Rússum kleift að halda því landsvæði sem þeir hafa hertekið í styrjöldinni. Xi sagði einnig að Kínverjar hlökkuðu til þess tíma þegar friður og stöðugleiki ríktu aftur í Evrópu og hét því að Kínverjar myndu gegna þar „uppbyggilegu hlutverki“. Þakkaði Pútín Kínverjum fyrir viðleitni þeirra til þess að stilla til friðar.

Saka Rússa um aftökur

Úkraínumenn sögðu í gær að ástandið í Karkív-héraði væri enn mjög erfitt, en að hernum hefði hins vegar tekist að stöðva framrás Rússa þar. Þá sökuðu Úkraínumenn Rússa um að hafa tekið óbreytta borgara af lífi á svæðunum sem þeir hernámu í vikunni. Hafa saksóknarar þegar hafið rannsókn á meintum stríðsglæpum Rússa í Karkív-héraði.

Selenskí Úkraínuforseti fundaði í gær með yfirmönnum hersins í Karkív-borg, sem er um 30 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Úkraínu. Sagði Selenskí að Úkraínuher hefði náð að valda miklu mannfalli hjá Rússum. Hins vegar þyrfti enn að senda liðsauka til héraðsins.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson