Spár hagfræðideildar Landsbankans gera ráð fyrir að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,38% á milli apríl og maí og ársverðbólga haldist nær óbreytt í 6% út sumarið. Húsnæðiskostnaður og flugfargjöld til útlanda höfðu mest áhrif á vísitöluna, en hvort í sína áttina

Spár hagfræðideildar Landsbankans gera ráð fyrir að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,38% á milli apríl og maí og ársverðbólga haldist nær óbreytt í 6% út sumarið.

Húsnæðiskostnaður og flugfargjöld til útlanda höfðu mest áhrif á vísitöluna, en hvort í sína áttina. Með öðrum orðum, húsnæði hækkar en flugfargjöld lækka.

Þessir tveir liðir sem höfðu langmestu áhrifin í aprílmánuði, þ.e. reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda, skýrðu 95% af hækkuninni á milli mánaða að mati Landsbankans.

Þá reiknar bankinn með að markaðsverð húsnæðis muni hækka um 0,6%. Árstíðartengd breyting á flugfargjöldum til útlanda valdi 5,6% lækkun milli apríl og maí. Gangi spár eftir verða flugfargjöld 10% ódýrari í maí en á sama tíma í fyrra.

Verð á flestum mat- og drykkjarvörum var óbreytt á milli mánaða skv. verðkönnun bankans.

Það vakti athygli bankans að verð á ávöxtum og grænmeti virðist hafa lækkað milli mánaða en verð á sælgæti, þá sérstaklega súkkulaði, virðist hafa hækkað, sem mögulega má rekja til lélegrar uppskeru í vor.