— Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Alþingi tókst ekki að koma sér saman um nýtt útlendingafrumvarp í gærkvöldi og var atkvæðagreiðslu um það frestað um kl. 22. Þingmenn ræddu lengi um nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar þar sem kveðið er á um undantekningar frá strangari reglum um dvalarleyfi og fjölskyldusameiningar

Alþingi tókst ekki að koma sér saman um nýtt útlendingafrumvarp í gærkvöldi og var atkvæðagreiðslu um það frestað um kl. 22. Þingmenn ræddu lengi um nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar þar sem kveðið er á um undantekningar frá strangari reglum um dvalarleyfi og fjölskyldusameiningar.

Frumvarpið kveður á um styttingu gildistíma dvalarleyfa úr 4 árum niður í 2 ár. Þeir sem fengið hafa viðbótarvernd á Íslandi gætu ekki sótt um fjölskyldusameiningu fyrr en búið væri að endurnýja dvalarleyfið, en þeir sem væru með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þyrftu að hafa endurnýjað það tvisvar.

Krafa um tungumálakunnáttu

Allsherjar- og menntamálanefnd leggur aftur á móti til að veita undanþágur frá þessu með nokkrum skilyrðum. Ef útlendingurinn hefur haft dvalarleyfi í eitt ár, verið virkur á atvinnumarkaði í átta mánuði, getur framfleytt sér á tryggan hátt í samræmi við lög um grunnskilyrði dvalarleyfis og uppfyllir skilyrði um íslenskukunnáttu, gæti hann fengið samþykkta fjölskyldusameiningu fyrr.

Meirihluta nefndarinnar þótti eðlilegt gera kröfu um kunnáttu á færniþrepi A2 í Evrópska tungumálarammanum, en aðeins í þremur færniþáttum af fimm, svo hægt væri að taka tillit til þeirra sem ekki hafa grunnþekkingu á latneska stafrófinu við komu til landsins.

Stjórnarandstaðan tók misvel í þessar tillögur en svo virðist þó sem flokkarnir á þingi styðji helstu markmið frumvarpsins og margir sem tóku til máls vilja meiri skilvirkni í málaflokknum. Þingmenn Pírata hafa mótmælt frumvarpinu hvað helst. Miðflokkurinn vill líta til Danmerkur en Samfylkingin vill fara „norsku leiðina“.

Dagbjört Hákonardóttir, fulltrúi Samfylkingingarinnar í allsherjar- og menntamálanefnd, skilaði inn áliti annars minnihluta nefndarinnar. Í álitinu er lagst gegn 2 ára biðtíma fyrir fjölskyldusameiningar, þess í stað er lagt til að gera skilyrði um trygga framfærslu.

„Norska leiðin“ á að taka á jaðartilvikum, sem fæli í sér ákveðna breytingu á 36. gr. útlendingalaga. Þar sé kveðið á um að aðeins sérstök tengsl, en ekki sérstakar ástæður, geti orðið tilefni efnismeðferðar, þó ekki í þeim tilvikum þar sem umsækjendur hafa þegar fengið vernd í öðru ríki.

„Með því að fara norsku leiðina yrði horfið frá beitingu matskenndrar reglu um sérstakar ástæður og leitast við að tryggja […] að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði ekki slitnir frá aðstandendum sínum,“ segir í áliti annars minnihluta.

Þing kemur saman kl. 10.30 í dag og er það síðasti þingfundur áður en hlé verður gert á störfum þingsins í aðdraganda forsetakosninga 1. júní. Umræða um frumvarpið er 3. mál á dagskrá að því er fram kemur á vef Alþingis.

Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagði í vikunni að hún væri bjartsýn á að Alþingi myndi ná að greiða atkvæði um frumvarpið fyrir hlé.