Sigurður Hannesson
Sigurður Hannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Talið er að á fyrstu mánuðum þessa árs hafi tapast 14 til 17 milljarða króna útflutningstekjur vegna skerðingar Landsvirkjunar á raforku. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins sem byggð er á mati stjórnenda fyrirtækja í orkusæknum iðnaði. Þeir telja að á bilinu 14 til 17 milljarða útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapast á þessum tíma vegna raforkuskerðinganna en slakur vatnsbúskapur leiddi til þess að Landsvirkjun gat ekki framleitt nægilega raforku, eins og fram hefur komið.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Talið er að á fyrstu mánuðum þessa árs hafi tapast 14 til 17 milljarða króna útflutningstekjur vegna skerðingar Landsvirkjunar á raforku. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins sem byggð er á mati stjórnenda fyrirtækja í orkusæknum iðnaði. Þeir telja að á bilinu 14 til 17 milljarða útflutningstekjur þjóðarbúsins hafi tapast á þessum tíma vegna raforkuskerðinganna en slakur vatnsbúskapur leiddi til þess að Landsvirkjun gat ekki framleitt nægilega raforku, eins og fram hefur komið.

„Áhrif á útflutningstekjur í ár verða enn meiri ef grípa þarf til skerðinga næsta vetur, eins og útlit er fyrir. Tapaðar útflutningstekjur vegna skerðinganna eru 3,7%-4,5% af útflutningstekjum orkusækins iðnaðar á síðasta ári. Ef miðað er við efri mörk matsins er það tæplega 5% af útflutningi sjávarafurða á síðasta ári og tæplega helmingur þess sem loðnuvertíðin skilaði í fyrra. Einnig samsvarar tapið tæplega 3% af tekjum af erlendum ferðamönnum á síðasta ári,“ segir í greiningu SI.

Í ljós kemur að tapið er mest hjá álverunum. Er það metið á bilinu níu til tíu milljarðar króna en það er um 2,8%-3,2% af útflutningstekjum áliðnaðarins á seinasta ári.

Bent er á að skerðingarnar hafa bein áhrif til lækkunar tekna en einnig óbein vegna áhrifa þeirra á viðskiptasamninga. Þessu til viðbótar fylgi skerðingunum aukinn kostnaður, meðal annars vegna þess að skerðingarnar stytta líftíma fjárfestinga í kerjum. Tapaðar útflutningstekjur gagnavera eru metnar á bilinu þrír til fimm milljarðar kr. og tapaðar útflutningstekjur annars orkusækins iðnaðar eru metnar tveir milljarðar kr.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir þessar tölur endurspegla vel hvað orkusækinn iðnaður skilar þjóðarbúinu miklu. Hann segir ekki hægt að skýra þessa stöðu eingöngu með því að vísa til lélegs vatnsbúskapar. Fleira komi til. „Ástæðan fyrir þessu er viðvarandi aðgerðaleysi um árabil í orkumálum. Þarna sjáum við beinan kostnað við það aðgerðaleysi og þar að auki ýmis önnur áhrif eins og t.a.m. á fiskimjölsverksmiðjurnar sem hafa þurft að keyra á olíu og fjarvarmaveitur sem hafa þurft að nota olíu. Ég held að Orkubú Vestfjarða hafi brennt olíu fyrir um hálfan milljarð,“ segir hann.

„Þetta aðgerðaleysi kostar samfélagið býsna mikið. Við erum í þeirri stöðu að þetta verður væntanlega staðan næstu fjögur til fimm árin eða svo þar til ný eða meiri orka kemur inn á kerfið,“ segir hann.

Nú liggur fyrir að tapaðar útflutningstekjur vegna raforkuskerðingar Landsvirkjunar eru mun meiri en áætlað var í vetur. Í janúar sl. gerðu SI sambærilega könnun meðal stjórnenda í orkusæknum iðnaði og var þá talið að þjóðarbúið yrði af átta til tólf milljörðum kr. í útflutningstekjur vegna raforkuskerðinganna. Í nýju greiningu SI segir að ástæða þess að tapið er nú metið hærra sé sú að skerðingarnar hafa staðið í lengri tíma og verið víðtækari en áður. Einnig hafi afurðaverð hækkað.

Raforkuskerðingar Landsvirkjunar hófust undir lok síðasta árs. Greip fyrirtækið þá til skerðinga á afhendingu víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera. „Í janúar var afhending svo skert til fjarvarmaveitna og stórnotenda, þ.e. Elkem, Norðuráls og Rio Tinto. Í febrúar var svo tilkynnt um skerðingar á norður- og austurhluta landsins en þær náðu til álvers Alcoa Fjarðaáls, kísilvers PCC á Bakka og TDK-aflþynnuverksmiðjunnar. Þessum skerðingum lauk nú í byrjun maí fyrir utan að fiskimjölsverksmiðjur, fiskþurrkanir og gagnaver búa áfram við skerðingar á afhendingu orku. Engin umframraforka er tiltæk þrátt fyrir betra ástand, samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar, og því þurfa þessi fyrirtæki enn að bíða eftir raforku,“ segir í umfjöllun SI.