Ólöf Sigurjónsdóttir fæddist á Laugavegi 43 í Reykjavík 4. febrúar 1931. Hún lést á Hrafnistu í Laugarási 11. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Guðrún Jónsdóttir húsfreyja, f. 1893, d. 1987, frá Seljavöllum í Austur-Eyjafjallasveit, og Sigurjón Jónsson úrsmiður, f. 1897, d. 1969, frá Tjörnum í Vestur-Eyjafjallasveit. Ólöf var tvíburi og voru þau fjögur systkinin. Jón Ragnar, f. 1927, d. 2023, Ágústa Kristín, f. 1929, d. 2023. Tvíburarnir Ása og Ólöf fæddust 4. febrúar 1931 og Ása lést árið 2016.

Ólöf giftist 16.8. 1952 Hákoni Heimi Kristjónssyni lögmanni, f. 20.12. 1928, d. 7.1. 22. Foreldrar hans voru Kristín Margrét Jósefína Björnson frá Gauksmýri í Línakradal V-Húnavatnssýslu, húsfreyja og skáld, f. 1901, d. 1997, og Kristjón Ágúst Þorvarðarson frá Leikskálum í Haukadal í Dalasýslu, f. 1885, d. 1962, síðast starfsmaður hjá Rafveitu Reykjavíkur.

Ólöf og Hákon Heimir eignuðust tvær dætur: 1) Sigrún Erla Hákonardóttir, tónlistarkennari og ljóðskáld, f. 27.5. 1954, maki Guðmundur Elías Pálsson, málarameistari og íþróttakennari, f. 24.3. 1952, d. 13.1. 1998. Þeirra börn eru: a) Páll Liljar verkfræðingur, f. 1973, maki Guðný Þorsteinsdóttir fasteignasali, f. 1973. Börn Páls og Gígju Þórðardóttur, fv. maka hans, eru Sölvi, f. 1996, maki Viktoría Hlín, f. 1998. Lára, f. 2002. Laufey, f. 2004, maki Selma, f. 2003. Börn Guðnýjar eru Rúnar Steinn, f. 1994, maki Jóhanna Svanhvít, f. 1992, börn þeirra eru Aþena Rós, Úlfur Nóel og Birnir Þór. Kolbrún María, f. 2000, maki Einar Már, f. 1991. Þorsteinn, f. 2010. b) Ólafur Heimir viðskiptafræðingur, f. 1976, maki Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði, f. 1974. Þeirra synir eru Elías Rafn, f. 2000, maki Guðný Erla, f. 1996. Gunnar Heimir, f. 2002, maki Georgia, f. 2003. Björgvin Ingi, f. 2004. c) Erla Rún sérfræðingur, f. 1989, maki Auðun Ingi Ásgeirsson flugvirki, f. 1990. Þeirra dætur eru Elísa Hanna, f. 2020, og Ásrún Hekla, f. 2022. 2) Hulda Margrét Hákonardóttir myndlistarkona, f. 4.7. 1956, maki Jón Óskar Hafsteinsson myndlistarmaður, f. 22.10. 1954. Þeirra sonur er Burkni J. Óskarsson, f. 1974, maki Birna María G. Baarregaard, f. 1978. Þeirra synir eru Andrés Uggi, f. 1996, maki Alexandra, f. 1999. Björgúlfur, f. 2003. Baldur Björn, f. 2008.

Ólöf ólst upp í miðbænum. Á unglingsárunum flutti fjölskyldan í Stórholt 32. Hún gekk í Miðbæjarskólann og tók gagnfræðapróf frá Ingimarsskóla. Hún vann alltaf skrifstofustörf og var í áratugi hjá Lífeyrissjóði húsasmiða síðar Lífeyrissjóði byggingamanna þar til hún hætti störfum fyrir aldurs sakir.

Ólöf var mjög hæfileikarík og hún aflaði sér þekkingar í handverki á hinum ýmsu námskeiðum. Allt lék í höndunum á henni, hvort sem var hinar ýmsu handavinnuaðferðir, flísalögn, smíðar, dúklagning eða bólstrun svo eitthvað sé nefnt. Kort með myndum af útsaumsverkum hennar hafa náð þó nokkurri dreifingu víða um lönd og listaverk af ýmsu tagi prýða heimili afkomendanna.

Ólöf verður jarðsungin frá Hjallakirkju í dag, 17. maí 2024, klukkan 13.

Elsku Ólamma.

Á þessari kveðjustund er þakklæti mér efst í huga. Takk fyrir samveruna, hlýjuna, skilninginn og stuðninginn, fyrir öll handverkin og fyrir að taka svona vel í hugmyndirnar mínar. Takk fyrir að vera mín helsta fyrirmynd í lífinu, með dugnaði, æðruleysi, rólyndi og kærleika.

Ég á svo ótalmargar minningar úr æsku af samveru með ykkur afa. Ég man sérstaklega eftir því hvað mér leið vel í ykkar umsjá og félagsskap. Ég fékk að leika, dunda, föndra og umfram allt fékk ég athygli og stuðning við að framkvæma hugmyndirnar sem við fengum. Ég man eftir ljúfum morgnum á Hverfisgötunni, þegar ég fékk að skottast niður bakdyramegin á Gráa köttinn og panta mér beyglu eða pönnukökur í morgunmat. Ég man eftir ótalmörgum föndurverkefnum í Mosgerði, til dæmis þegar við söguðum, límdum, negldum og máluðum fugl á nýja gestahúsið hans afa. Ég man hvað var gaman að fá að spila kanöstu við ykkur langt fram á kvöld, hvar sem við vorum.

Síðar, þegar ég varð stærri og flutti til útlanda til að sækja mér háskólamenntun, var tæknitröllið amma mín alltaf dugleg að hafa samband á netinu til að fá fréttir og segja mér frá því hvað þau afi voru að bralla. Stundum voru skilaboðin knöpp og skýr: „Erum í Mosgerði, rok og rigning. Kv. Ólamma“ og stundum langar sögur af ótrúlegustu ævintýrum ykkar afa, oft með hlægilegu ívafi þar sem þú gerðir góðlátlegt grín að ykkur sjálfum. Svo flutti ég aftur heim, kynntist Auðuni og eignaðist litlu stelpurnar mínar. Þið afi tókuð Auðuni opnum örmum og minntust reglulega á það við mig hvað hann væri frábær, sem hann sannarlega er. Stelpurnar báru gæfu til að kynnast þér og þær nutu þess að heimsækja þig á Hrafnistu. Þú sást líka til þess að þar væri fallegt dót fyrir þær að leika með, tókst þig til og lagfærðir dúkkur og heklaðir og prjónaðir dúkkuföt. Ég veit að þér þótti óskaplega vænt um þær. Ég held að þær hafi minnt þig á stelpurnar þínar, mömmu og Huldu.

Síðasta hálfa árið sáum við ekki mjög mikið hvor af annarri. Ég var orðin upptekin tveggja barna móðir í fullu starfi og þú sýndir því þinn æðrulausa skilning og fékkst fréttir og myndir frá mömmu og bræðrum mínum og við hringdumst á og reyndum að skilja hvor aðra í gegnum síma. Reglulega komu sendingar af nýjum handavinnuverkefnum til mín og okkar: þvottapokar, húfur, dúkkuföt, ofnar myndir, heklaðar dúllur á steinum sem munu skreyta borðin í brúðkaupsveislunni okkar Auðuns, og auðvitað fallegu vestin sem þú gerðir fyrir dætur mínar.

Hvíl í friði, elsku amma.

Erla Rún Guðmundsdóttir.

Flatmaga í fjöruborðinu, hafið umlykur sjónsviðið sem nemur fíngerðar lágreistar bárurnar. Undir rólegu yfirborðinu leynast öfl sem skapa kröftug litbrigði sjávar er umlykja eyjuna okkar eins og fallegt hreiður. Þannig var Ólöf mín, fasið eins og lygn sjór, atorkan í takt við krafta hafsins og traustur faðmurinn umvafði ættarfræin. Lífsspekin var falleg, ekki flókin en klók. Æðruleysið og lífsgleðin, góður kokteill, kryddaður fróðleiksþorsta og einbeittri eftirfylgni. Skapandi hugur og færni án landamæra, skýr eru sporin hennar sem liggja allt um kring. Sporin sem milda þá eigingjörnu ósk mína að hafa Ólöfu aðeins lengur hjá okkur. Með ljúfsárum söknuði kveð ég kæra vinkonu og ættmóður strákanna minna.

Samúðarkveðjur til allra vina og ættingja gullmolans okkar.

Birna María G.
Baarregaard.

Með fæðingu verður til nýtt líf. Dánardagur merkir lok lífs. Þessir atburðir marka tímabil og það sem skiptir öllu er hvernig lífi maður lifir milli þessara tímapunkta. Þegar maður hugleiðir líf einstaklings sem maður þekkir vel og var góður vinur er það eina sem í raun skiptir máli, hvernig persóna þessi einstaklingur var og hvernig minningar lifa hjá manni við leiðarlok og hvernig lífi viðkomandi lifði.

Ólöf var sterkur persónuleiki, mild, hlý og jákvæð. Hún var opin fyrir öllu sem lífið bauð upp á og ætíð lausnamiðuð. Hennar gæfa var að Hákon Heimir varð hennar lífsförunautur. Þau höfðu líka lífssýn, þó þau væru um margt ólík. Þau voru samstiga um að hvort um sig fengi að njóta sín og lifa eins og genin sköpuðu þau. Hjá Ólöfu var aldrei hávaði, alltaf milda brosið og lágstemmda röddin, aldrei vandamál. Eftir að aldur færðist yfir var setið við hannyrðir, að prjóna eða hekla á barnabörnin eða við listsköpun ýmiskonar. Aldrei vottaði fyrir leiða heldur aðeins þakklæti fyrir það sem hún átti og það sem lífið hafði gefið henni. Frá Ólöfu og Hákoni Heimi hefur komið mjög samhent og vel gerð fjölskylda. Dæturnar bera gott vitni einstökum foreldrum og þegar litið er til afkomenda þeirra eru hin sterku einkenni afa og ömmu ríkjandi.

Við dánardægur er hægt að segja að hún hafi átt yndislegt líf. Það þarf að hafa fyrir því að allt gangi upp, ekkert er sjálfgefið, en allt lék í höndum Ólafar, hvort heldur var að skapa fjölskyldu eða falleg listaverk.

Við vottum fjölskyldu Ólafar samúð okkar og þökkum samveru og vináttu í rúm 50 ár.

Sólveig og Sveinn.