Merkjavara Bill Barton, stofnandi gleraugnafyrirtækisins Barton Perreira, kveðst bjartsýnn á framtíð fyrirtækisins.
Merkjavara Bill Barton, stofnandi gleraugnafyrirtækisins Barton Perreira, kveðst bjartsýnn á framtíð fyrirtækisins. — Morgunblaðið/Eggert
Bill Barton, sem var forstjóri gleraugnafyrirtækisins Oliver Peoples (sem síðar var selt til Oakley) og stofnandi gleraugnafyrirtækisins Barton Perreira, var staddur hér á landi á dögunum. Barton og teymi hans heimsóttu meðal annars…

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Bill Barton, sem var forstjóri gleraugnafyrirtækisins Oliver Peoples (sem síðar var selt til Oakley) og stofnandi gleraugnafyrirtækisins Barton Perreira, var staddur hér á landi á dögunum. Barton og teymi hans heimsóttu meðal annars gleraugnaverslunina Augað í Kringlunni og sýndu það nýjasta úr 2024-línunni, við góðar undirtektir. Hann hefur lengi starfað með Gunnari Gunnarssyni, gleraugnahönnuði og einum eigenda Augans, en Gunnar hefur hannað gleraugu fyrir Barton.

Tískuvörurisinn LVMH, sem er með vörumerkin Louis Vuitton, Moet&Chandon, Dior, Hennessy, Marc Jabobs og fleiri, keypti í lok árs 2023 sólgleraugnaframleiðandann Barton Perreira.

Barton segir í samtali við Morgunblaðið að LVMH hafi heillast af vörumerkinu og markaðssetningu þess og því keypt fyrirtækið. Hann segir að það hafi tekið langan tíma að byggja upp samband við LVMH.

„Við erum mjög stöðug í því sem við gerum og ég tel að það hafi heillað þá hjá LVMH.“

Barton ólst upp í miðvesturríkjum Bandaríkjanna, nánar tiltekið í Kansas-borg í Missouri. Hann hóf að starfa sem sjóntækjafræðingur árið 1984 hjá fyrirtækinu Apple Shop of Aspen. Hann fór í framhaldinu að starfa við hönnun og heildsölu árið 1988.

„Fyrsta merkjalínan sem ég hannaði hét Matsuda. Árið 2001 kom stofnandi Olivers People til mín og bauð mér að verða forstjóri fyrirtækisins. Árið 2007 stofnaði ég svo ásamt Patty Perreira nýtt sólgleraugnamerki,“ segir Barton.

Samstarf við framleiðendur James Bond-myndanna

Barton segir að sérstaða merkisins sé að sérhver umgjörð sé einstök.

„Ég tel að eiginleikar vörunnar standi fyrir sínu. Þegar ég og Patty Perreira stofnuðum merkið árið 2007 höfðum við það að markmiði að sérhver sólgleraugu væru einstök. Við ákváðum að stytta okkur ekki leið heldur vanda vel til verka,“ segir hann.

Þess má geta að gleraugun eru öll framleidd í Japan og það tekur um 100-120 klukkustundir að framleiða Barton Perreira-umgjörð. Margar Hollywood-stjörnur hafa skartað sólgleraugum Barton Perreira, meðal annars Sandra Bullock, Demi Lovato og Ryan Gosling.

Barton segir að fyrir útgáfu síðustu James Bond-myndar hafi framleiðendur myndarinnar komið að máli við hann.

„Þeir sögðust vera virkilega hrifnir af gleraugnalínunni okkar þannig að við sendum þeim nokkrar umgjarðir. Þeir völdu fjórar sem voru notaðar í myndinni. Þeir dýrkuðu umgjarðirnar og sögðu að þeir vildu að við hönnuðum línu í anda fyrri Bond-mynda. Við ákváðum að slá til og gáfum út línuna og komum með 2-3 nýjar umgjarðir á ári í tengslum við það samstarf.“

Barton kveðst vera bjartsýnn á framtíð fyrirtækisins.

„Sölutölurnar hafa verið frábærar og þetta hefur gengið virkilega vel. LVMH er afkastamikið í smásölu á alþjóðavísu svo ég tel að þetta sé frábært fyrir vörumerkið okkar,“ segir Barton.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir