Ólíkindatól Ruben Östlund með samstarfsfólki sínu í Hörpu árið 2022.
Ólíkindatól Ruben Östlund með samstarfsfólki sínu í Hörpu árið 2022. — Morgunblaðið/Eggert
Leikararnir Keanu Reeves, Kirsten Dunst og Daniel Brühl fara með helstu hlutverk í næstu kvikmynd sænska leikstjórans Rubens Östlunds, að því er segir í frétt á vef Deadline. Kvikmyndin mun bera titilinn The Entertainment System Is Down, eða…

Leikararnir Keanu Reeves, Kirsten Dunst og Daniel Brühl fara með helstu hlutverk í næstu kvikmynd sænska leikstjórans Rubens Östlunds, að því er segir í frétt á vef Deadline. Kvikmyndin mun bera titilinn The Entertainment System Is Down, eða Afþreyingarkerfið liggur niðri, líkt og Östlund greindi frá á fundi með blaðamönnum í Hörpu í desember árið 2022 þegar hann hlaut Evrópsku kvikmyndaverðlaunin fyrir kvikmynd sína Triangle of Sadness, Sorgarþríhyrninginn.

Segir í frétt Deadline að kvikmyndin verði samfélagsádeila líkt og fyrri myndir Östlunds, með spaugilegum undirtóni. Östlund er sagður hafa keypt afskrifaða þotu af gerðinni Boeing 747 og verður hún notuð við tökur í myndveri. Sögusvið myndarinnar er þotan og lenda farþegar í þeim „hryllingi“ að afþreyingarkerfi vélarinnar liggur niðri. Þurfa þeir að takast á við þá skelfingu að leiðast. Mun Östlund hafa fengið hugmyndina þegar hann heyrði af rannsókn við Virginíuháskóla sem fólst í því að láta fólk vera eitt í herbergi í sex til 15 mínútur án þess að hafa nokkuð að gera. Gat fólk þó gefið sjálfu sér rafstuð og gerðu það flestir.