Hákon Arnar Haraldsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í liði umferðarinnar í frönsku 1. deildinni hjá íþróttablaðinu L’Equipe eftir góða frammistöðu í útisigri Lille á Nantes, 2:1, um síðustu helgi

Hákon Arnar Haraldsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í liði umferðarinnar í frönsku 1. deildinni hjá íþróttablaðinu L’Equipe eftir góða frammistöðu í útisigri Lille á Nantes, 2:1, um síðustu helgi. Lille er í þriðja sæti fyrir lokaumferðina og í baráttu um sæti í Meistaradeildinni.

Sverrir Ingi Ingason og félagar í Midtjylland náðu í gærkvöld undirtökum í baráttunni við FC Köbenhavn og Bröndby um danska meistaratitilinn í knattspyrnu. Midtjylland vann þá Köbenhavn 2:1 á útivelli og er með tveggja stiga forustu á Bröndby og þriggja á Köbenhavn þegar tveir leikir eru eftir. Midtjylland á eftir útileik við Nordsjælland og heimaleik við Silkeborg og verður meistari með því að vinna báða leikina.