Ólsarinn Gunnar Gunnarsson fæddist 21. apríl 1940. Hann lést 6. maí 2024.

Foreldrar Gunnars voru Jóna Skaftadóttir og Gunnar Valgeirsson.

Gunnar ólst upp í Reykjavík og fluttist til Ólafsvíkur um tvítugt. Á leiðinni þangað kynntist hann Ester Gunnarsdóttur, tveimur árum síðar voru þau gift og bjuggu upp frá því í Ólafsvík.

Gunnar var annar í röðinni af sex systkinum. Hin eru alsystkinin Ólafur Gunnarsson, f. 1938, og Anna Gunnarsdóttir, f. 1942. Hálfsystkinin voru Jóna Gunnarsdóttir, f. 1950, og Halldóra Gunnarsdóttir, f. 1952, og uppeldisbróðir hans var Þórður Bergmann Þórðarson, f. 1941.

Börn Gunnars og Esterar eru þrjú. 1) Jónas Gunnarsson, f. 1962, framkvæmdastjóri, var giftur Ellen Klöru Eyjólfsdóttur, saman eiga þau tvo syni. 2) Þorsteinn Gunnar Gunnarsson, f. 1980, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, giftur Ástu Björk Birgisdóttur. Saman eiga þau tvö börn. 3) Karl Lárus Gunnarsson, f. 1983, byggingaverktaki, sambýliskona hans er Jónína Íris Valgeirsdóttir, saman eiga þau tvö börn, áður átti Karl eina dóttur og á nú líka eina uppeldisdóttur. 4) Gunnar átti áður Garðar Gunnarsson, f. 1960, eiganda Toppmúrs ehf., eiginkona hans er Bertha Eronsdóttir og saman eiga þau einn son. Áður átti Garðar eina dóttur og uppeldisbörnin eru tvö. Barnabörn Gunnars eru 12 og barnabarnabörn fimm.

Gunnar útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum og stundaði sjómennsku í 38 ár aðallega sem stýrimaður og skipstjóri ásamt því að vera útgerðarmaður um tíma. Gunnar var stjórnarmaður Öldunnar, félags skipstjóra og stýrimanna, í mörg ár og hafði forystu um að stofna útibú Stýrimannaskólans í Ólafsvík. Rúmlega fimmtugur gerðist Gunnar umboðsmaður Olís í Ólafsvík og var það þangað til hann var 73 ára gamall.

Gunnar var mikill félagsmálamaður og tók virkan þátt í félagslífi Ólafsvíkur allt til dauðadags. Hann stofnaði eða tók þátt í að stofna knattspyrnudeild Víkings Ólafsvík, Lionsklúbb Ólafsvíkur, Golfklúbbinn Jökul og Samkór Ólafsvíkur. Sannur Víkingur, Framari og Arsenalmaður no. 1.

Alls staðar var Gunnar virkur félagsmaður og fór í allt með kraft og jákvæðni að leiðarljósi.

Útför hans verður frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 17. maí 2024, klukkan 14.

Kær vinur okkar Gunnar Gunnarsson er látinn. Tíminn líður, það eru liðin rúm 60 ár síðan Gunnar kom til Ólafsvíkur, ungur fallegur, glaðvær og kraftmikill maður. Hann kom fyrst til Ólafsvíkur til að vera á vertíð eins og títt var á þeim árum, ætlaði að vera eina, en vertíðirnar urðu fleiri. Gunnar fór í Stýrimannaskólann og kom heim aftur og varð stýrimaður og skipstjóri á bátum í Ólafsvík í mörg ár. En það sem varð til þess að hann ílengdist í samfélaginu okkar var að hann kynntist dásamlegri stúlku, vinkonu minni Ester Gunnarsdóttur, sem varð konan hans og hefur verið hans trausti félagi og vinur síðan.

Við Jónas höfum verið svo lánsöm að eiga þau að vinum frá unga aldri, við höfum gengið lífsveginn í takt. Við unga fólkið hófum lífið á því að fara til prestsins á staðnum og gifta okkur ekki með mikilli viðhöfn, en hjónaböndin hafa enst í 62 ár. Við höfum farið saman í ferðalög og siglingar erlendis og innanlands í leikhúsferðir og á tónleika. Samvera á heimili þeirra hefur alltaf verið einstök, allir fundið sig velkomna, þau fullkomnir gestgjafar. Gunnar og þau bæði eru einstaklega vinamörg og alltaf opið hús. M.a. hefur á öllum heimaleikjum Víkings verið föst venja að flestir hafa gengið að því vísu að komast í kaffi og veitingar í Engihlíðinni.

Gunnar var alltaf mikill áhugamaður um fótbolta hann og nokkrir ungir menn voru þeir sem vöktu áhuga ungu krakkanna hér í Ólafsvík á íþróttinni, sem nú á stóran þátt í uppeldi þeirra. Sama er um skákina, hann ásamt fleiri góðum mönnum hélt áfram starfi starfi Ottós heitins Árnasonar sem var frumkvöðull í skáklífi hér í bæ og kenndi mörgum. Gunnar átti stærsta þáttinn í stóra flotta skákmótinu sem haldið var hér á síðasta ári, hann var þá orðinn fárveikur. Gunnar átti sannarlega eftir að setja svip sinn á samfélag okkar, hann var einstaklega félagslyndur, átti gott með að vinna með öðrum og vildi gera eitthvað sem skipti máli, jákvæður og drífandi.

Já, tíminn líður, komið er að kveðjustund, við hittumst aftur. Megi góður Guð veita Ester þinni og allri fjölskyldunni styrk. Með þakklæti og kærleika minnumst við góðs manns.

Jenný og Jónas.

„Hvernig fór?“

Þetta voru síðustu samskiptin okkar í lok apríl.

Elsku afi, þótt augnablikin á spítalanum hafi verið ansi þung þá lýsa þessi orð þér svo vel. Ég sá líka sigurreift augnaráðið þegar ég sagði þér að Arsenal væri á toppnum. Þótt við værum komnir undir lok þessa leiks sem lífið er þá var gamli keppnismaðurinn enn til staðar, samur við sig.

Ég mun að fara þína leið í þessari grein. Fara hratt yfir sögu, njóta og hafa gleðina að vopni.

Ég kynntist ekki skipstjóranum Gunna Gunn en ég þekkti umboðsmanninn sem átti sjoppuna og bensínstöðina, mér fannst þið amma eiga bæinn. Það sem sameinar þetta tvennt er að þú varst leiðtogi og tókst af skarið í leik og starfi. Amma fer hægar og sér meira. Hún fullkomnaði þig og þú hana sem gerði ykkur að stórkostlegum lífsförunautum, afa og ömmu í Ólafsvík.

Spánn, ég man eftir okkur labba tröppurnar niður á strönd að fá okkur franskar, okkar fyrsta sameiginlega minning. Kveikja á nýju ári saman, ferðirnar á Arsenal-leiki, ég að elta dómarann á héraðsmótum og þú hlæjandi. Stelast út fyrir Ólafsvík og kenna mér á bíl svo ég yrði klár þegar að því kæmi.

Ég vann hjá ykkur eitt sumarið og þótt ég hafi alls ekki verið hæfileikaríkasti starfsmaður Olís frá upphafi þá varstu alltaf svo ánægður með hvert dagsverk hjá okkur. Þú sagðir okkur sögur af markmanninum og þau voru nokkur kvöldin sem þú settir á þig hanskana og við skutum á meðan sólin settist á bak við Enni. Ástríða þín nefnilega fyrir þessum bolta var svo mikil að ég fann þriggja ára gamalt myndband af þér með Karítas, í grenjandi rigningu að spila fótbolta á Ólafsvíkurvelli, yndislegt.

Ég gæti haldið áfram en ætla að færa mig nær. Brúðkaupið okkar Dagbjartar, ég vissi að heilsan var erfið en engan bilbug að finna. Ný jakkaföt og upp í pontu þar sem þið amma fluttuð ræðu í ykkar anda. Heilsan var líka erfið þegar þú dreifst þig með pabba til að sjá mig þjálfa landsliðið og við tryggðum okkar áfram. Það var góð stund eftir leik þar sem þú, gríðarlega stoltur afi, sonur þinn og barnabarn féllust í faðma. Mér þykir afar vænt um þá minningu.

Ég er þakklátur fyrir að Dagbjört, Karítas og Björgvin hafi náð að kynnast Ólafsvík eins og ég, Jói og við öll þekktum hana. Samverustundirnar, friðurinn og það fallega við hversdagsleikann sem þið amma, Þorsteinn og Kalli sköpuðuð í Engihlíð 6.

Ég sagði það við þig þegar við sátum saman tveir undir það síðasta á spítalanum. Þú ert fyrirmynd þegar kemur að lífsgleði, dugnaði, þrautseigju og hvað það er að vera góður maður sem stendur með sínu fólki. Sannur skipstjóri og leiðtogi.

Afi í Ólafsvík, dómarinn er búinn að flauta af og ég ætla ekki að elta hann núna, heldur hlaupa til þín og faðma minningarnar.

Takk fyrir okkur, þetta var yndislegur tími sem við erum þakklát fyrir að hafa átt með þér.

Við amma höldum ótrauð áfram að búa til minningar, passa hvort annað og hafa gaman af lífinu saman.

Njóttu á nýjum stað. Við vitum að þú verður alltaf með okkur.

Elskum þig.

Davíð Snorri, Dagbjört, Karítas Ellen og
Björgvin Steinar.

Ég ætla að reyna af veikum mætti að minnast frænda míns Gunnars Gunnarssonar (Gunna Gunn). Hann var gegnheilt ljúfmenni, auk þess hlaðinn því besta sem hægt var að koma fyrir í einum manni og kostirnir eftir því. Hann kom ungur til Ólafsvíkur og stundaði sjómennsku. Áföllin byrjuðu snemma því hann hafði misst móður sína. Fljótlega kynntist hann Ester Gunnarsdóttur sem talaði ekki öðruvísi en brosandi. Þau hófu búskap og giftu sig. Þrátt fyrir mótlæti í lífsins ólgusjó, þá réðust þau í það þrekvirki og sterka samstöðu að byggja einbýlishús. Það innihélt heimili hlýju og öryggis. Síðan réðust þau í engan smá pakka, að taka að sér umboðsstörf fyrir Olís. Það var nánast stanslaus vinna og enginn smá pakki. Þar kom að heilsu Gunna hrakaði og urðu þau að flytja á Akranes. Við hjónin heimsóttum þau upp á Skaga skömmu fyrir andlátið og var þá greinilegt að batteríið var að klárast. Við hjónin vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Valdimar Elíasson.

Minningarnar hefjast í Laugarnesinu sem var þá í útjaðri borgarinnar. Ég gleymi aldrei þeim fallegum móttökum sem ég og móðir mín fengum þegar við fluttum inn á Hrísateig 24 og urðum hluti af fjölskyldunni. Þá var ég fimm ára og Gunni bróðir 6 ára. Það voru fá hús þarna á þessum tíma í átt að Laugalæk og leikvangurinn okkar var Gvendartún. Þar var gamall maður með nokkrar kindur.

Á túninu söfnuðum við krakkarnir í brennu og kveiktum í á gamlárskvöld. Þetta var svakalega spennandi fyrir stráka eins og okkur. Litlar styrjaldir áttu sér stað á milli teiganna fyrir ofan og neðan Sundlaugaveg. Við bjuggum til vopnin sjálfir úr timbri og tré og mikill hiti var í mönnum. Við systkinin gengum öll í Laugarnesskóla og eigum góðan minningar þaðan.

Árið 1954 lá leið okkar Gunna og Guðna frænda okkar í Reykjaskóla. Þar var skólastjóri séra Þorgrímur Sigurðsson á Staðastað. Þangað komu m.a. baldnir unglingar, aðeins eldri en við, að læra hjá honum sem urðu þar að manni. Árið 1956 var Gunni háseti á togaranum Hvalfelli sem kom til Reykjavíkur í söluferð á leið til Grimsby. Hann hvatti mig til að koma með og ég var skráður sem háseti. Í þessari ferð kynntumst við Quality Street-molunum og Tommy Steel tónlistarmanni og við létum báðir húðflúra á okkur framhandleggina.

Svo lágu leiðir okkar hvors í sína áttina. Gunni kynntist Ester sinni í Ólafsvík og þau stofnuðu þar fjölskyldu. Ég hef alla tíð verið í miklu sambandi við þau hjón og mjög kært á milli okkar bræðra. Á ferðalögum fjölskyldna okkar um Ísland hittumst við oft og komum alltaf við í Ólafsvík á hringferð okkar. Þar vorum við ætíð aufúsugestir og dvöldum í Engihlíð 6 í góðu yfirlæti og mættum mikilli gestrisni.

Við fjölskyldan minnumst yndislegs bróður og frænda með þakklæti og sendum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórður bróðir, Olga Björt, Kristján Ingi, Imba og börn.

Fallinn er frá góður æskufélagi þeirra ára er við ólumst upp á Hrísateignum og undum glaðir við þær aðstæður sem í boði voru á þeim tíma. Af nægu var að taka í nánasta umhverfi, sem náði frá heimilum okkar til sjávar við Kirkjusand; kolaveiðar í fjörunni, veiddur smáufsi þar hjá af bryggju sem notuð hafði verið af hermönnum er hér dvöldu á stríðstímum seinni heimsstyrjaldar. Oft var þá lent í sjónum enda engin aðstaða til veiða, hvað þá heldur að komast þar upp aftur, buslað og synt þar til í fjöruna var komið rennblautir og kaldir, skammaðir þá heim kom en svo hófst leikurinn á ný.

Fiskverkun Tryggva Ófeigssonar á Kirkjusandi hafði mikið aðdráttarafl fyrir okkur krakkana. Þar voru skreiðarhjallar til að þurrka fisk, reitir til að sólþurrka saltfisk og margt það er þurfti til útgerðar og veiða geymt úti við, auk þess hinn mikli húsakostur fiskvinnslunnar. Þarna var nóg við að vera; ekki langt frá verkun sjávarfangs fangelsi sem reist var af Bretum og margur Íslendingurinn þar í varðveislu við afarkosti. Við félagarnir vissum ekki af því, en ótti stóð af.

Við stofnuðum fótboltafélag og mörg leynifélög sem einhverra hluta vegna flosnuðu upp, kveiktum eld og steiktum pulsur og kjöt á teini, þannig liðu æskuárin við gleðibrag.

Ég minnist þess hve við litum upp til Gunnars, þá 14 ára, ráðinn messagutti á ms. Eldborg sem sigldi á milli Akraness, Borgarness og Reykjavíkur, við hinir æskufélagarnir litum nú staðfastir til sömu áttar.

Gunnar hóf störf á togurum og var þar til 1960, þá á vertíð til Ólafsvíkur, lauk Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1962. Ólafsvík var besti staður sem Gunnar hafði komið á, þar fann hann sinn lífsförunaut, Ester Gunnarsdóttur, þau eignuðust börn og stofnuðu sitt heimili, hann stundaði þaðan sjómennsku sem háseti, stýrimaður og skipstjóri. Jafnhliða sjómennskunni tók hann mikinn þátt í félagsstarfinu í landi. Hann hóf störf í landi hjá Olís og lauk þar starfsævi sinni. Sjómennska Gunnars Gunnarssonar hófst með reglubundnum siglingum til Akraness og þar kvaddi hann þennan heim 6. maí sl.

Um leið og ég kveð góðan æskufélaga og vin sendum við Ester, sonum, tengdadætrum og barnabörnum samúðarkveðjur.

María Óladóttir og
Guðmundur Hallvarðsson.