Halldóra Salóme fæddist í Reykjavík 2. desember 1940. Hún lést á heimili sínu 4. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Guðni Jón Guðbjartsson vélstjóri frá Ingjaldsandi, f. 29.6. 1916, d. 20.10. 2004, og Ragnheiður Guðmundsdóttir frá Næfranesi í Dýrafirði, f. 10.6. 1913, d. 13.9. 1995.

Halldóra Salóme var elst í hópi sex systkina. Þau lifa hana: Íris Bryndís, f. 1942, maki Jón Birgir Jónsson, f. 1943, Kristjana, f. 1944, maki Baltasar Samper, f. 1938, Ásgeir, f. 1947, maki Bryndís Símonardóttir, f. 1956, Þórhildur, f. 1950, maki Árni Mogens Björnsson, f. 1946, d. 2022, og Ragnheiður, f. 1951, maki Ove Gaihede, f. 1950.

Halldóra Salóme giftist í Þingvallakirkju á páskadag 22.4. 1962 Sigurði Inga Sveinssyni húsasmíðameistara, f. 15.10. 1936, d. 19.7. 2016. Foreldrar hans voru Katrín Bergrós Sigurgeirsdóttir verslunarkona, f. 31.8. 1911, d. 24.6. 1984, og Sveinn Sigurðsson málarameistari, f. 28.4. 1913, d. 19.11. 1989.

Halldóra Salóme og Sigurður Ingi, kallaður Ingi, hófu búskap að Laufásvegi og fluttu 1971 að Tjarnaflöt 6 í Garðabæ og bjuggu þar þegar Ingi lést 2016. Árið 2017 fluttist Halldóra Salóme í Kirkjulund 8.

Börn: 1) Ragnheiður Katrín, f. 26.10. 1962, maki Guðmundur Torfi Gíslason, f. 14.4. 1960, sonur: Jökull, f. 1991, maki Guðmundur David Terrazas, f. 1982. 2) Sveinn Ingi, f. 2.5. 1964, d. 13.3. 2022, maki Hólmfríður Inga Guðmundsdóttir, f. 2.10. 1954, d. 12.10. 2021, börn hennar: María Ósk, f. 1975, börn: Gabriel Christian, f. 2001, Ísak Snorri, f. 2003, Esja Ósk, f. 2010. Arnar Ingi, f. 1976, börn: Bríet Klara, f. 2006, Malín Salóme, f. 2012, Íris Kristjana, f. 2015. Rakel Rut, f. 1980, börn: Alexia Rós, f. 2003, Aþena Inga, f. 2007, Theodór Týr, f. 2011, Gunnar Máni, f. 2017. 3) Þórunn Inga, f. 30.6. 1965, maki Borgar Jónsteinsson, f. 19.5. 1960, dóttir: Rebekka Rut, f. 1983, hennar sonur: Ernir Snær, f. 2005.

Halldóra Salóme gekk í gagnfræðaskóla á Skógum árin 1953-56. Að loknu gagnfræðaprófi fluttist hún í Skerjafjörðinn, hóf störf hjá Rafmagnsveitunum og starfaði þar uns þau hjón hófu búskap á Laufásveginum og von var á frumburðinum. Meðan börnin uxu úr grasi var hún heimavinnandi húsmóðir og tók að sér útsaum til strekkingar og uppsetningar, síðar tilfallandi vörukynningar. Árið 1977 hóf hún störf sem gangavörður í Garðaskóla og frá 1983 var hún móttökuritari í Læknahúsinu til starfsloka árið 2010.

Halldóra Salóme tók mjög virkan þátt í Kvenfélagi Garðabæjar, m.a. viðburðum í fjáröflunarskyni og umsjón með fermingarkirtlunum, þvotti, straujun og mátun á fermingarbörnin, varð heiðursfélagi 2019. Hún tók þátt í safnaðarstafi Garðakirkju, í stjórn sóknarnefndar sem meðstjórnandi og ritari. Hún starfaði í stjórn unglingadeildar Lúðrasveitarinnar Svans.

Þau hjón voru virk í skátastarfinu og eignuðust þar vini og ferðafélaga til lífstíðar, ferðuðust sem trússabílstjórar með fjölskylduvinum í hestaferðum og undu sér í seinni tíð við samveru- og fjölskylduberjatínsluferðirnar í Melbæ í Reykhólasveit.

Halldóra Salóme verður jarðsungin frá Garðakirkju í Görðum, Álftanesi, í dag, 17. maí 2024, klukkan 16. Streymt verður frá athöfninni:
https://streyma.is/streymi/

Elsku amma og langamma.

Orð eru fátæk þegar maður reynir að senda hinstu kveðju, en elsku amma, þín verður saknað og minnst innilega í okkar hjörtum alltaf, ávallt ástrík, hjálpsöm og svo innileg.

Ég veit ekki hversu mörg jólaboð, páskaboð og önnur boð við höfum haft ánægjuna af að vera hjá ykkur í Tjarnarflöt i gegnum árin, en nákvæmlega í þessum aðstæðum skein í gegn hversu mikið þú naust þess alltaf að vera umkringd þínum nánustu.

Ávallt á fullu í eldhúsinu og í kringum fólk að sjá til að allir hefðu nú örugglega nóg af öllu, mikið hlegið og þetta var alltaf tilhlökkunarefni þar sem Tjarnarflötin var alltaf mikill miðpunktur öll árin sem við bjuggum á Íslandi, þar sem svo stór hluti af fjölskyldunni safnaðist saman hjá ykkur.

Þín verður saknað innilega og nú er komið að því að þú og Ingi afi og Forte séuð saman á ný.

Ástar- og saknaðarkveðjur,

Arnar Ingi, Benedikta (Benna), Bríet Klara, Malín Salóme og Íris Kristjana.

Hædý er horfin okkur systkinum. Hædý var elst okkar systkinanna sex, barna hjónanna Ragnheiðar Guðmundsdóttur og Guðna Jóns Guðbjartssonar frá Ljósafossi við Sog.

Við Sog var yndislegt að alast upp við friðsæld og náttúrudýrð. Hædý var fyrst okkar til að flytja að heiman og fór hún á Héraðsskólann á Skógum og síðan til starfa hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Einnig vann hún í fjölda ára sem móttökuritari og bókhaldari fyrir Læknahúsið.

Þegar við svo eitt af öðru tíndumst til Reykjavíkur var heimili Hædýjar og Inga ætíð okkar annað heimili og hún okkar systkinanna litla mamma. Þegar foreldrar okkar áttu leið til Reykjavíkur var heimili Hædýjar og Inga alltaf þeirra áningarstaður. Hædý var umhugað um að velferð okkar væri sem mest og best og lét einskis ófreistað til að svo mætti vera.

Á bernskuheimili okkar var gestkvæmt auk heimilisfólks, sem var við sex systkinin, foreldrar okkar, afi í föðurætt og amma í móðurætt auk barna ættingja sem voru í sveitinni í lengri eða skemmri tíma og annarra ættingja og vina sem komu í heimsókn um helgar. Hædý taldi ekki eftir sér að koma heim í sveitina um helgar eftir að hún var farin að vinna í Reykjavík til að hjálpa mömmu með þrif og veitingar fyrir gesti og heimilisfólk. Man ég eftir mynd sem einn ættingi okkar sem dvaldi hjá okkur um tíma teiknaði; mynd af ungri konu með skrúbb og vatnsfötu og undir henni stóð „Hædý komin heim“.

Hædý gekk í hjónaband með Sigurði Inga Sigurðssyni og voru þau gefin saman af séra Eiríki J. Eiríkssyni sóknarpresti á Þingvöllum. Við þá athöfn bar séra Eiríkur nafn hennar fram með sérstökum hætti þar sem hann var með ll-in rödduð í nafni hennar (Halldóra Salóme) og fannst henni eftir það nafn sitt fá allt annan og fegurri hljóm. Halldóra Salóme Guðnadóttir var skírð eftir föðurömmu sinni Halldóru Salóme Sigmundsdóttur frá Hrauni á Ingjaldssandi við (Dýrafjörð) Önundarfjörð.

Hædý og Ingi bjuggu við Laufásveg í Reykjavík í nokkur ár á meðan þau byggðu sér hús í Garðabæ og þar bjuggu þau í lengstan tíma og ólu upp sín þrjú börn. Hædý var heimavinnandi meðan börnin voru ung en fór að vinna í grunnskóla Garðabæjar þegar börnin voru kominn vel á ról, þar var hún vel látin bæði af starfsfólki skólans og nemendum.

Ég átti fyrir nokkrum árum fund með fyrrverandi bæjarstjóra Garðabæjar vegna aðbúnaðar aldraðra þar í bæ. Það barst í tal að hann og Hædý hefðu starfað saman í grunnskólanum og sagðist hann aldrei á ævi sinni hafa unnið með né kynnst skapprúðari manneskju en Hædý.

Hædý lét sig félagsmál í Garðabæ varða, hún var virk í Kvenfélagi Garðabæjar og einnig kirkjustarfinu.

Hædý var bókelsk og hafði yndi af listum hverju nafni sem þær nefndust, var dugleg að sækja leikhús og hljómleika. Það var henni mikill missir er sjón og heyrn hennar tók að dvína á efri árum. Undir það síðasta gat hún ekki lesið af bók sökum sjóndepurðar og heyrnin var orðin mjög léleg. Dætur hennar tvær hugsuðu mjög vel um mömmu sína þar til yfir lauk.

Megir þú, elsku systir, hvíla í friði.

Ásgeir Guðnason.

Mín kæra systir, kletturinn í lífi okkar systkina á yngri árum, hefur kvatt tilbúin og sátt.

Við systurnar ásamt mökum okkar og börnum höfum átt óteljandi dýrmætar samverustundir.

Þegar ég flutti ung til Reykjavíkur bauð Hædý systir mér að búa hjá sér og Inga á Laufásveginum en þau voru þá nýgift og áttu von á sínu fyrsta barni. Ég þáði boðið og var þetta upphafið að okkar nána sambandi sem átti eftir að endast út lifið. Samband okkar einkenndist af einlægni og trúnaði og bar þar aldrei skugga á.

Við systurnar fylgdumst að í mörgum verkum lífsins. Snemma byrjuðum við að baka laufabrauð saman, vöktum við þá tvær einar yfir bakstrinum fram á nótt meðan börnin okkar sváfu, sem vatt fram á þann veg að þegar börnunum okkar óx ásmegin tóku þau þátt og síðan makar þeirra og börn. Þessi árlegi viðburður þróaðist þannig, frá því að við tvær stóðum saman í eldhúsinu við baksturinn yfir í að í lokin var þessi gjörningur orðinn að stórkostlegum aðventuveislum sem vörðu í áratugi.

Árum saman fylgdu þau systir mín og mágur okkur sem trússar á hestaferðum, sem ekki var auðvelt því ferðir okkar lágu að miklu leyti um hálendið og oft um mjög torfærar slóðir, en þau voru jú fjallageitur eins og við. Þau voru ævinlega búin að finna besta staðinn til að tjalda á og slá upp girðingu fyrir reksturinn, þar sem hestana skorti ekkert. Við komu okkar í næturstað rann því stóðið inn í girðinguna eins og í draumi. Þessar sameiginlegu ævintýraferðir vörðu á meðan heilsa og kraftar leyfðu og voru okkur einkar dýrmætar samverustundir um margra ára bil.

Ég votta dætrum hennar, tengdasonum og barnabörnum mína innilegustu hluttekningu. Megi minning hennar lifa um ókomin ár.

Kristjana Samper.

Árið 1983 stofnuðum við nokkrir skurðlæknar, svæfingalæknar og einn rannsóknalæknir Læknahúsið og keyptum hálfa hæð í Síðumúla 29 í Reykjavík undir starfsemina. Þar voru útbúnar tvær skurðstofur og móttökuherbergi o.fl. Ráða þurfti nokkra starfsmenn og m.a. móttökuritara. Hannes Finnbogason skurðlæknir sagðist vita um konu eina sem hann gæti mælt með, Halldóru Guðnadóttur. Hún var ráðin og það átti eftir að vera mikið gæfuspor.

Halldóra var frábær í móttökunni og kunni gott lag á sjúklingum sem og læknum. Það var ekki mikið pláss í móttökunni og aðstaða fyrir hana og sjúklingana ekki sem best í byrjun. Undirritaður man eftir einum föstudegi að eiga erindi þangað og setið var í stiganum niður á næstu hæð.

Halldóra tók fljótlega við ávísanaheftinu og sá um greiðslur, laun og bókhald í góðri samvinnu við endurskoðanda.

Þessi starfsemi gekk ótrúlega vel með góðu starfsfólki og átti Halldóra þar stóran hlut að máli. Á tímabili var hún eins og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Halldóra var alltaf kát og hafði góða nærveru.

Um aldamótin flutti Læknahúsið í Domus Medica. Halldóra fylgdi með okkur þangað og starfaði með okkur þar í mörg ár. Hún starfaði með okkur um þrjátíu ára skeið. Hún hélt alltaf góðu sambandi eftir að hún hætti störfum.

Segja má um Halldóru að hún var mjög félagslynd, alltaf glöð, óhrædd að segja sína skoðun, hreinskiptin en hlý. Hún benti oft á það sem betur mátti fara.

Við leiðarlok þakka ég Halldóru góð kynni og sendi ástvinum hennar samúðarkveðjur.

Guðmundur Vikar
Einarsson.