Jökulsárlón Aðalbílastæðið á svæðinu var lagfært í síðasta mánuði eftir að bráðaúthlutun fékkst frá stjórnvöldum.
Jökulsárlón Aðalbílastæðið á svæðinu var lagfært í síðasta mánuði eftir að bráðaúthlutun fékkst frá stjórnvöldum. — Ljósmynd/Sigurjón Andrésson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það er mikil uppsöfnuð þörf á innviðauppbyggingu við Jökulsárlón. Aðstaðan er ekki boðleg fyrir þann fjölda ferðamanna sem þangað kemur,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri í Hornafirði.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er mikil uppsöfnuð þörf á innviðauppbyggingu við Jökulsárlón. Aðstaðan er ekki boðleg fyrir þann fjölda ferðamanna sem þangað kemur,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri í Hornafirði.

Alls komu 968 þúsund gestir að Jökulsárlóni í fyrra. Mestur straumur ferðamanna er á sumrin en síðustu tvö árin hefur þeim fjölgað mikið utan háannatímans. Þannig komu 268 þúsund ferðamenn þangað fyrstu fjóra mánuði ársins. Segir Sigurjón að þótt farið sé að hægja á vextinum tali tölurnar sínu máli; um 80% fleiri ferðamenn komu fyrstu mánuði ársins í ár en á sama tíma árið 2022. Aðstaðan á svæðinu sé ekki boðleg fyrir þennan fjölda.

„Fyrir liggur að það á að fara í öfluga framtíðaruppbyggingu. Á síðasta ári var svokallað markaðssamtal við aðila sem hefðu áhuga á slíkri uppbyggingu á vegum umhverfisráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Deloitte sá um þá vinnu og skilaði heljarinnar skýrslu. Boltinn er nú hjá Vatnajökulsþjóðgarði og ráðuneytunum. Þangað til af því verður hefur verið unnið hörðum höndum í þjóðgarðinum að því að gera það sem hægt er til að sómi sé að þessari náttúruperlu.“

Eitt af því sem kvartað hefur verið undan á svæðinu er að salernisaðstaða sé ekki boðleg. Til stendur að bæta úr því með tímabundinni lausn. Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir bauð nýverið út svokallað „salernishús“ sem er í raun gámasamstæða sem afhenda skal uppsett og tilbúið til notkunar við lónið og þjónustu við það til næstu tveggja ára. Vonast er til að gámarnir komist í notkun síðsumars eða í haust. Segir Sigurjón að áfram verði þó unnið að framtíðarlausnum í salernismálum á svæðinu með Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum.

Hann segir jafnframt að til standi að fara í lokafrágang á innkomutorginu austast á Breiðamerkursandi. „Það klárast vonandi í sumar líka en það veltur á verktökum og hvenær þeir eru lausir. Mikið álag er á verktaka í Hornafirði vegna gríðarlegrar uppbyggingar,“ segir Sigurjón.

Ýmislegt hefur verið gert undanfarið að sögn bæjarstjórans, til að mynda við endurbætur og afmörkun gönguleiða. Þannig megi stýra gestum betur og verja viðkvæman gróður fyrir óþarfa traðki. „Aðalbílastæðið var lagfært núna í apríl en við gátum farið í það vegna bráðaúthlutunar úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Í framhaldinu var afmörkuð gönguleið meðfram rútustæðinu og niður í fjöru, sem rekstraraðilar kajakferða eru mjög ánægðir með enda stórbætir þetta öryggi gangandi vegfarenda á svæðinu. Við munum svo halda áfram að afmarka gönguleiðir um svæðið á næstu vikum.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon