Laugarnesskóli Ekki er vilji til að byggja við þrjá skóla í hverfinu. Ætlunin er að byggja framhaldsskóla þess í stað.
Laugarnesskóli Ekki er vilji til að byggja við þrjá skóla í hverfinu. Ætlunin er að byggja framhaldsskóla þess í stað. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Þessi mikli viðsnúningur í málinu og leyndin sem hefur ríkt um vinnuna að stefnubreytingunni vekur spurningar um hvort það hafi alltaf verið ætlunin að byggja unglingaskóla í Laugardalnum, þrátt fyrir mótmæli íbúa,“ segir Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en hún á jafnframt sæti í skóla- og frístundaráði borgarinnar.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Þessi mikli viðsnúningur í málinu og leyndin sem hefur ríkt um vinnuna að stefnubreytingunni vekur spurningar um hvort það hafi alltaf verið ætlunin að byggja unglingaskóla í Laugardalnum, þrátt fyrir mótmæli íbúa,“ segir Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en hún á jafnframt sæti í skóla- og frístundaráði borgarinnar.

Tilefnið er stefnubreyting meirihlutans í borgarstjórn sem áformar að byggja nýjan unglingaskóla í hverfinu, í stað þess að byggja við skólana þrjá sem fyrir eru, eins og ákveðið hafði verið.

Marta fordæmir þá leyndarhyggju sem meirihlutinn í borgarstjórn hefur ástundað í málinu að hennar mati, en það bar til tíðinda á fundi ráðsins fyrr í vikunni að meirihlutinn lagði fram tillögu um að skoðað yrði að byggja unglingaskóla í Laugardalnum til að mæta fjölgun nemenda í hverfinu.

„Þetta var gert þrátt fyrir að mikil mótmæli væru við þeirri hugmynd fyrir einu og hálfu ári,“ segir Marta.

Hún segir að tillaga um þessa stefnubreytingu hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Höfðu ekki hugmynd um stefnubreytinguna

„Skýrsla um málið lá fyrir í nóvember, en við fulltrúarnir í minnihlutanum höfðum ekki hugmynd um að vinna væri í gangi um stefnubreytinguna sem augljóslega hefur átt sér stað í langan tíma, þar sem skýrslan lá fyrir í nóvember. Þá höfðu skólastjórar og íbúar ekki heldur hugmynd um að verið væri að vinna að því að falla frá fyrri ákvörðun um að byggja við skólana þrjá,“ segir Marta og vísar þar til fyrri ákvörðunar um að byggt yrði við Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla.

„Ákvörðun um það var tekin haustið 2022 eftir mikil mótmæli og undirskriftir íbúanna, um að fallið yrði frá því að byggja unglingaskóla í hverfinu, en þess í stað ákveðið að byggja við skólana þrjá til að mæta nemendafjölgun,“ segir hún.

Í bókun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu lögðu fram á fundinum kemur m.a. fram að bygging nýs unglingaskóla muni hafa mikil áhrif á hverfið, þar með talið á umferðarskipulag þess, þar sem óhjákvæmilega yrði þrengt verulega að umferð fjölskyldubílsins. Í ljósi annmarka á vinnubrögðum meirihlutans sátu Sjálfstæðismenn hjá við afgreiðslu málsins.

Í bókun áheyrnarfulltrúa skólastjóra í ráðinu segir að þeir hafi hvorki vitað af né átt aðild að þeirri vinnu sem leiddi til fyrrgreindrar stefnubreytingar og segja þeir bókun sína gerða til að „vekja athygli á þessu óheppilega vinnulagi“.

Í bókun áheyrnarfulltrúa grunnskólakennara segir að afar mikilvægt sé að haft sé samráð við kennara og starfsfólk viðkomandi skóla við viðamiklar breytingar á skólastarfi í hverfinu.

„Hversu mikið samráð hefur verið haft við hlutaðeigandi skóla við undirbúningsvinnu skýrslunnar, kennara og skólastjórnendur?“ spyrja þeir.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson