Sókn Keflvíkingurinn Daniela Wallen reynir að brjóta sér leið að körfu Njarðvíkinga en þar er Isabella Ósk Sigurðardóttir til varnar.
Sókn Keflvíkingurinn Daniela Wallen reynir að brjóta sér leið að körfu Njarðvíkinga en þar er Isabella Ósk Sigurðardóttir til varnar. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
Úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitil kvenna hófst í gærkvöld með sannkölluðum spennutrylli í Keflavík þegar heimakonur náðu að knýja fram sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík, 94:91, eftir tvær framlengingar í fyrsta úrslitaleik liðanna

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitil kvenna hófst í gærkvöld með sannkölluðum spennutrylli í Keflavík þegar heimakonur náðu að knýja fram sigur á nágrönnum sínum úr Njarðvík, 94:91, eftir tvær framlengingar í fyrsta úrslitaleik liðanna.

Staðan er því 1:0, Keflvíkingum í hag, og annar leikur liðanna fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík á sunnudagskvöldið en leikið er á þriggja daga fresti þar til annað liðanna hefur unnið þrjá leiki.

Einvíginu gæti því lokið miðvikudagskvöldið 22. maí, vinni Keflavíkurkonur þrjá leiki, en það gæti staðið allt til þriðjudagskvöldsins 28. maí ef oddaleik þarf til að knýja fram úrslit.

Njarðvík var yfir eftir jafnan fyrri hálfleik, 36:32, og jók forskotið í þriðja leikhluta þegar mest munaði tíu stigum á liðunum. Njarðvík hélt forystunni allt þar til tvær mínútur voru eftir. Keflavík komst í 71:69 en Selena Lott jafnaði, 71:71, og þar með þurfti að framlengja.

Keflavík komst fimm stigum yfir í framlengingu, 78:73, en Njarðvík jafnaði þar sem Ena Viso skoraði, 78:78, og þar með þurfti að framlengja aftur.

Þá náðu Keflavíkurkonur undirtökunum og komust í 91:82. Njarðvík hafði minnkað muninn í 91:89 þegar enn var hálf mínúta eftir en Elisa Pinzan og Sara Rún Hinriksdóttir skoruðu þá fyrir Keflavík, 94:89, og sigurinn var í höfn.

Thelma 29 og Selena 39

Thelma Ágústsdóttir skoraði 29 stig fyrir Keflavík, Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 20 stig og tók 8 fráköst, Daniela Wallen var með 19 stig og 17 fráköst og fyrirliðinn Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 13 stig. Elisa Pinzan átti 9 stoðsendingar fyrir Keflavík.

Selena Lott var allt í öllu hjá Njarðvík, skoraði 39 stig og tók 14 fráköst, en vítaskot sem geiguðu hjá henni undir lok annarrar framlengingar voru liðinu dýr.

Emilie Hesseldal skoraði 15 stig, tók 20 fráköst og átti 7 stoðsendingar, Ena Viso var með 14 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar og Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði 10 stig og tók 9 fráköst.

Munar um Birnu

Keflavíkurliðið varð fyrir miklu áfalli í lokaleik undanúrslitanna þegar Birna Valgerður Benónýsdóttir sleit krossband í hné og er úr leik langt fram eftir næsta tímabili. Það getur vissulega haft áhrif á möguleika liðsins en þessi fyrsti úrslitaleikur liðanna lofar svo sannarlega góðu um jafnt og spennandi úrslitaeinvígi nágrannanna.

Ljóst er þó að sálfræðilegu undirtökin eru Keflvíkinganna sem hafa unnið allar sex viðureignir liðanna á tímabilinu.

Höf.: Víðir Sigurðsson