Ólafur Helgi Ólafsson
Ólafur Helgi Ólafsson
Sjálfsákvörðunarrétturinn er smátt og smátt, í örlitlum skrefum, tekinn frá þjóðinni, án þess að þorri alþingismanna virðist veita því athygli.

Ólafur Helgi Ólafsson

Hvernig forseta þurfum við Íslendingar nú – á þessum tímum alþjóðavæðingar?

Frá því er sagt í Heimskringlu að Íslendingar hafi ort níð um Harald Gormsson Danakonung og var hann þeim reiður og vildi senda þangað flota og hefna níðsins. Skipaði hann galdramanni nokkrum að fara og kanna aðstæður. Sá brá sér í hvalslíki og synti umhverfis landið. Leist honum ekki á blikuna enda mættu honum landvættir, ein í hverjum landsfjórðungi, og varð hann frá að hverfa. Haraldur konungur hætti því við áform sín. Landvættir þessar prýða skjaldarmerki Íslands, standa þar umhverfis íslenska fánann honum til varnar.

Ísland hefur aldrei verið unnið með vopnum. Við sömdum sjálfstæðið frá okkur 1262/64 með Gamla sáttmála. Svo bætti um betur á Kópavogsfundinum 1662, þegar landsmenn, undir forystu Brynjólfs Sveinssonar biskups og Árna Oddssonar lögmanns, viðurkenndu erfðaeinveldi Danakónga, og fól í sér að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa gildi hér á landi, án sérstakrar aðkomu Alþingis Íslendinga. Já, og nú stendur svo á að Alþingi hefur til umfjöllunar tillögu um að erlent lagasetningarvald verði æðra því íslenska.

Eins er hollt öllum að lesa í Heimskringlu (eða á netinu) ræðu Einars Þveræings er hann reis til varnar gegn ásælni Ólafs konungs Haraldssonar hins digra, sem falaðist eftir að kaupa Grímsey. Má hafa hana í huga þegar rætt er um ásælni útlendinga í íslenskar auðlindir og landareignir.

Fullveldið er fjöregg okkar, þess skal gætt umfram allt annað. Vissulega er það hlutverk Alþingis að skipa málum á Íslandi og gæta fullveldisins. Gera verður ráð fyrir að alþingismenn séu heilir og sannir í því verki. En svo getur farið, eins og kannski er raunin nú, að sjálfsákvörðunarrétturinn er smátt og smátt, í örlitlum skrefum, tekinn frá þjóðinni, án þess alþingismenn veiti því sérstaka athygli, kannski vegna óskýrleika eða vegna hjarðhegðunar – nú eða sofandaháttar. Sum mál eru lagatæknilegs eðlis og e.t.v. ekki á færi almennings að sjá í gegnum þau. Þess vegna er nauðsynlegt að forseti hafi yfirsýn og lögfræðilega þekkingu og reynslu til að vaka yfir allri lagasetningu og veita þinginu aðhald. Forsetinn er ekki bara einhver sem stimplar lög – og heilsar börnum á hátíðum. Hann er í reglulegum samskiptum við ráðherra og getur með því haft áhrif, krafist skýringa, óskað frekari umræðu og skoðunar. Ekki má heldur gleyma því að forsetinn situr í stærsta ræðustól landsins og hefur þaðan mikil áhrif.

Þetta ber að hafa í huga þegar forseti lýðveldisins er valinn. Sérstaklega nú á tímum alþjóðavæðingar. Við þurfum forseta sem er varðmaður fullveldis, sjálfstæðis og auðlinda Íslands. Ekki forseta sem gengst upp í því að sitja veislur í útlöndum. Ekki forseta sem man ekki afstöðu sína í mikilvægum málum. Ekki forseta sem talar í óskýru máli um háleit gildi sem allir eru sammála um, og brennur fyrir almannaheill (??). Það er aukaatriði að forseti sé myndvænn og sjarmerandi, þótt það sé kostur. Við þurfum forseta sem hefur stefnufestu. Forseta sem þekkir sögu okkar, forseta sem vitnar jöfnum höndum í Sókrates, Markús Árelíus, John Locke, Snorra Sturluson, Jón Sigurðsson og Nýja testamentið. Forseta sem ann frelsi einstaklingsins og lýðræði. Vel menntaðan, víðsýnan, réttsýnan og umfram allt stefnufastan hugsjónamann sem leggur áherslu á sjálfstæði okkar og fullveldi, hugar að velferð okkar sem þjóðar og er ekki hallur undir erlend áhrif.

Vissulega hafa þeir sem þjóðþekktir eru forskot þegar kemur að kosningabaráttu. En kjósendum í þetta mikilvæga embætti ber að kynna sér, og það er beinlínis skylda þeirra, stefnumál og mannkosti hvers frambjóðanda um sig. Ekki láta stutta kynningu nægja.

Með ofangreint í huga er val mitt einfalt og skýrt. Arnar Þór Jónsson er sá sem ég treysti best til að gegna embætti forseta Íslands. Er það ekki síst eftir lestur bóka hans, svo og greina í dagblöðum og tímaritum undanfarin ár og einnig bloggsíðu hans.

Ég minnti lesendur á landvættirnar í upphafi greinar minnar. Þær voru og eru til varnar erlendu hervaldi. Nú er ásælni erlends valds með öðrum hætti og ísmeygilegri. Því er nú, sem aldrei fyrr, þörf fyrir öflugan varðmann fullveldis Íslands í embætti forseta landsins. Gæslumann sjálfstæðis okkar sem þjóðar.

Ég sé Arnar Þór Jónsson í því hlutverki.

Höfundur er fyrrverandi forstjóri.