Hjálparstarf Bæta samfélagið og aðstoða þá sem á því þurfa að halda, segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir um störf og áherslur Rauða krossins fyrr og nú.
Hjálparstarf Bæta samfélagið og aðstoða þá sem á því þurfa að halda, segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir um störf og áherslur Rauða krossins fyrr og nú. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessi mannúðarhreyfing á sér langa sögu og merkilega og sinnir mikilvægum verkefnum. Starfið hefur í heila öld miðast við að bæta samfélagið og aðstoða þá sem á því þurfa að halda. Þannig hefur þetta verið frá upphafi og hugsjónin er einstök,“ segir Kristín S

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þessi mannúðarhreyfing á sér langa sögu og merkilega og sinnir mikilvægum verkefnum. Starfið hefur í heila öld miðast við að bæta samfélagið og aðstoða þá sem á því þurfa að halda. Þannig hefur þetta verið frá upphafi og hugsjónin er einstök,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Seint á þessu ári er Rauði krossinn á Íslandi 100 ára. Þeirra tímamóta verður minnst með ýmsu móti allt árið og í nóvember næstkomandi kemur út aldarsaga félagsins, bók skrifuð af Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi. Þar verður farið yfir sögu aldarinnar, segir Kristín, en síðast var saga þessi sögð í riti sem kom út fyrir aldarfjórðungi.

„Fjölmargir hafa þegar skráð sig fyrir bók og tökum við enn við styrktarlínum, tabúla rasa, þeirra sem vilja leggja félaginu lið af þessu tilefni. Við verðum líka með glæsilegan afmælisviðburð í Hörpu á afmælisdaginn okkar, 10. desember, og hver veit nema við tökum upp á einhverju fleira skemmtilegu. Á árinu höfum við svo reynt að leggja okkur fram um að kynna fyrir þjóðinni hversu víðtækt starf félagsins er. Rauði krossinn tilheyrir þjóðinni og án stuðnings hennar erum við lítils megnug.“

Þúsundir sjálfboðaliða

Tímarnir breytast og mennirnir með, segir máltækið. Kristín segir að vissulega sé krefjandi að halda félagi og hugsjónastarfi lifandi í samfélagi þar sem viðhorf og öll mál þróast hratt.

„Að sjálfsögðu þarf að leggja mikla vinnu í að halda félagi sem þessu gjaldgengu og mikilvægu á tímum mikilla breytinga. En við erum svo heppin að að starfsemin er byggð á mikilvægum gildum og mannúð sem er alltaf þörf fyrir að hafa í heiðri og breytast ekki í tímans rás. Þess vegna náum við að sinna því víðtæka starfi sem við sinnum og njótum áfram liðsinnis þúsunda sjálfboðaliða, sem eru algjör forsenda þess að við getum gert það sem við gerum,“ segir Kristín og heldur áfram:

„Auðvitað breytist Rauði krossinn eftir því sem tímar líða fram. Mörg verkefni sem við höfum unnið að í gegnum áratugina eru komin á annarra hendur en hugsjónirnar hafa ekki breyst. Við förum inn þar sem enginn er fyrir, þar sem aðstoðar er þörf og ryðjum brautina, svo taka aðrir við þegar verkefni eru komin vel á veg. Má þar nefna ýmis virkniúrræði, blóðbankann, hjúkrunarmenntun, söfnun fyrir kaupum á sjúkrabílum og rekstur þeirra i tæpa öld og fleira og fleira.“

Vakandi fyrir tíðarandanum

Þegar Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður, þá undir forystu Sveins Björnssonar síðar fyrsta forseta íslenska lýðveldisins, var, segir Kristín, velferðarnetið á Íslandi gisið og víða þörf á aðstoð sjálfboðaliða. Þetta hafi breyst í áranna rás, en samt sé enn rík þörf fyrir hugsjónafélag mannúðarstarfs.

„Við stofnuðum Konukot, athvarf fyrir útigangskonur, sem við létum í hendur Rótarinnar með stuðningi Reykjavíkurborgar í fyllingu tímans. Rauði krossinn ruddi brautina í dagþjónustu við geðfatlaða og sömuleiðis í að veita skaðaminnkandi þjónustu fyrir fólk sem notar vímuefni í æð. Við finnum okkur alltaf verkefni; þrátt fyrir alla velmegun og framfarir er alltaf fólk sem þarf á aðstoð að halda. Rauði krossinn er lifandi félag sem er alltaf vakandi fyrir tíðarandanum. Við gerum þarfagreiningar í nærsamfélögum okkar hringinn i kringum landið, tengjumst félagsþjónustu sveitarfélaganna náið og finnum verkefni þar sem okkar er þörf.“

Mikilvæg verkefni í almannavörnum

Rauði krossinn hefur víða með höndum mikilvæg verkefni, svo sem í almannavörnum til dæmis í tengslum við Grindavík að undanförnu. Þá veita viðbragðshópar félagsins mörgum sálrænan stuðning eftir hvers kyns áföll og erfiðleika. Heilbrigðisverkefnin snúa að skaðaminnkun í gegnum Frú Ragnheiði og Ylju, sem verður opnuð aftur nú á næstu vikum. Einnig má nefna Hjálparsímann 1717 og netspjallið 1717.is. Tiltaka má sömuleiðis fatasöfnun og vinaverkefnin sem snúast um að rjúfa félagslega einangrun á ýmsa vegu. Þá stendur félagið fyrir skyndihjálparkennslu og aðstoð eftir afplánun í fangelsum sem ætlað er að hjálpa þeim sem eru að ljúka refsivist að fóta sig í samfélaginu. Þjónusta við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd er sömuleiðis stór þáttur í starfinu.

„Síðast en ekki síst tökum við þátt í víðtæku alþjóðlegu hjálparstarfi í samstarfi við erlend landsfélög,“ segir Kristín. Nefnir þar verkefni í Síerra Leóne, Malaví, Sómalíu og við björgun bátaflóttafólks sem lendir í sjávarháska á Miðjarðarhafi.

Sérstaða í krafti hlutleysis

„Mat alþjóða Rauða krossins í Genf er að virðing fyrir alþjóðalögum fari dvínandi og þá skiptir hlutleysi hreyfingarinnar, óhlutdrægni og skuldbinding um að létta á þjáningum fólks höfuðmáli. Mikilvægt er, að merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans séu virt og þau veiti hjálparstarfsfólki vernd á meðan það freistar þess að starfa í umhverfi sem er hættulegt,“ segir Kristín og að síðustu:

„Við höfum séð skýrt í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs að starf sjálfboðaliða og starfsfólks Rauða krossins og annarra hjálparsamtaka verður sífellt hættulegra og því miður hefur margt af okkar fólki týnt lífi í þeim átökum. Þetta er sorgleg þróun. Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn njóta algerrar sérstöðu í heiminum á grundvelli hlutleysisstefnu sinnar sem gerir hreyfingunni kleift að sinna hjálparstarfi á átakasvæðum og koma hjálpargögnum á staði þar sem enginn annar kemst. Þessari stöðu má ekki tefla í tvísýnu.“