Hrannar Daði Þórðarson fæddist á Landspítalanum 1. febrúar 2006. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 2. maí 2024.

Foreldrar Hrannars Daða eru Eyrún María Rúnarsdóttir, f. 29. maí 1972, lektor við Háskóla Íslands, og Þórður Heiðar Þórarinsson, f. 17. ágúst 1976, fjármálastjóri hjá Handpoint ehf.

Systkini Hrannars eru Unnur Sara Eldjárn, f. 13. desember 1992, tónlistarkona búsett í Frakklandi, sambýlismaður hennar er Timothée Rousset, og Heiðar Þórðarson, f. 20. mars 2008, nemi.

Hrannar Daði ólst upp í Reykjavík og Kópavogi en bjó um tveggja ára skeið ásamt fjölskyldu sinni á Englandi. Hann gekk í Lindaskóla og útskrifaðist þaðan 2022, en stundaði síðustu tvö ár nám við Tækniskóla Íslands í Hafnarfirði í grunndeild rafiðna og stefndi á nám í rafeindavirkjun.

Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 17. maí 2024, klukkan 13.

Elsku drengurinn okkar, það er óskiljanlegt að þú hafir þurft að yfirgefa þessa jarðvist aðeins 18 ára á þröskuldi fullorðinsáranna. Fram undan voru bæði draumar og fögur fyrirheit í bland við eðlilegan kvíða fyrir óvissuferðinni sem felst í því að fullorðnast. Sú ferð verður aldrei farin. Við grátum þá framtíð sem þú færð ekki að móta og njóta elsku hjartað okkar og við grátum stundirnar með þér sem koma aldrei aftur.

Aldrei aftur fáum við að njóta hlýja innilega faðmlagsins sem magnaði kærleikann. Aldrei aftur fjögur á ferðalagi, tveir nánir bræður og tveir samrýndir foreldrar. Aldrei aftur á fótboltaleik með pabba eða á trúnó með mömmu. Aldrei aftur muntu gjörsigra okkur í flóknu borðspili. Aldrei aftur vangaveltur um vísindalegar uppgötvanir eða tæknilegar framfarir. Við dáðumst svo að yfirgripsmikilli þekkingu þinni og skilningi sem við skildum ekki alltaf hvaðan kom. Þér voru allir vegir færir á þessum sviðum og þangað stefndir þú með námi í rafeindavirkjun. Aldrei aftur njótum við réttsýni þinnar og hárbeittrar afstöðu með öllum þeim sem lentu undir í samfélaginu eða bjuggu við óréttlæti af einhverju tagi. Aldrei aftur fáum við að sjá þig verða mjúkur eins og smjör nálægt börnum, þau löðuðust að þér og fengu þig svo auðveldlega til að leika við sig. Sjá þig njóta samvistanna og fá glampa í augun. Við fengum ekki að segja þér hvernig þessir eiginleikar gerðu þig að einstakri kærleiksveru. Ekkert færi gafst til að segja þér enn á ný hversu mikils virði þú varst okkur og öllum öðrum. Ekkert færi til að ræða öll litlu atriðin, samverustundirnar og minningarnar sem sköpuðu náin og traust fjölskyldubönd.

Dauðinn tók snögglega völd. Nýlega var hafin sex vikna krabbameinsmeðferð sem allir gerðu ráð fyrir að þú myndir ljúka. Þrátt fyrir ótal rannsóknir framkvæmdar af her sérfræðilækna sá enginn fyrir þá lifrarbilun sem tók þig frá okkur. Atburðarásin ósennilegri en í lygasögu. Eftir sitjum við og getum engan veginn skilið hvernig það gat gerst að hraustur og heilbrigður ungur maður varð snögglega svona mikið veikur. Skiljum ekki hvers vegna það allt gerðist, hvers vegna þú, hvers vegna við, hvers vegna? Eftir sitjum við með svo djúpan söknuð og sársauka og vitum að ekkert getur nokkurn tímann orðið aftur eins og það var.

Takk elsku ljósið okkar fyrir árin átján, hverja klukkustund, hverja mínútu. Við erum þakklát fyrir öll skemmtilegu ferðalögin saman og að hafa forgangsraðað samveru með þér og fjölskyldunni alla tíð. Minningarnar eru auðæfi okkar og ljóstíra í myrkrinu. Við munum elska þig óendanlega mikið að eilífu. Við erum svo stolt af því að hafa fengið að vera foreldrar þínir.

Þín

mamma og pabbi.

Það er þyngra en tárum taki að skrifa minningargrein um barnabarn sitt. Það er svo erfitt að skilja að elsku Hrannar Daði, sonarsonur okkar, sé dáinn.

Við eignuðumst sjö barnabörn á sjö árum og Hrannar var næstelstur í þessum þétta hópi. Börnunum fylgdu þrjú eldri systkini svo oft hefur verið fjör þegar allir koma saman. Við eigum fjölda góðra minninga úr sameiginlegum fjölskylduferðum bæði innan lands og utan og hittingum í Grjótaselinu. Það var alltaf gaman, mikið hlegið, spilað og leikið og Hrannar var ómissandi hluti hópsins. Hann var með mikið keppnisskap sem kom til dæmis fram í fótbolta og spilum. Spurningaspil voru í uppáhaldi og ekki sjaldan sem hann sigraði enda stálminnugur.

Hrannar var eldklár og fljótur að læra það sem hann hafði áhuga á. Hann var farinn að tala fullkomna ensku eftir stutta dvöl í Englandi og var ekki orðinn fjögurra ára þegar hann leiðrétti framburð ömmu sinnar, er við heimsóttum fjölskylduna til Cambourne.

Árið sem Hrannar byrjaði í grunnskóla var amma í Grjótaseli hætt að kenna en fékk að vera á hliðarlínunni. Þá myndaðist samband sem styrktist með árunum. Þegar hann varð eldri rölti hann stundum yfir til okkar. Það var alltaf gott að fá hann í heimsókn. Hann var aðstoðarmaður ömmu og afa í tæknimálum enda afburðaklár á því sviði, setti saman sína eigin tölvu og fylgdist með öllum tækninýjungum.

Hrannar var búinn að finna nám sem hentaði þessu áhugasviði hans, kominn í rafeindavirkjun og vissi hvert hann stefndi. Við vorum afar stolt af því hvað honum gekk vel.

Við hittumst síðast öll 19. apríl þegar fjölskyldan kom saman á afmælisdegi afa. Sama dag hafði Hrannar verið greindur með illkynja krabbamein. Hann vildi samt koma og hitta alla fjölskylduna og spila með frændsystkinum sínum. Allt gerðist svo hratt, það óraði engan fyrir því að innan tveggja vikna væri hann horfinn úr hópnum.

Þessi síðasti hittingur fjölskyldunnar er nú dýrmæt minning sem við eigum saman. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hann með okkur þennan dag en eftir situr söknuðurinn, sársaukinn og sorgin. Það er erfitt að sætta sig við að svona ungur drengur sem átti lífið fram undan sé dáinn. Hrannar átti stóran sess í hjarta okkar og við þökkum fyrir allar yndislegu samverustundirnar með yndislegum dreng. Minningarnar munu ylja okkur um ókomna tíð.

Amma og afi í Grjótaseli,

Anna Kristín Þórðardóttir og Þórarinn Jónsson.

Það var mikil hamingjustund þegar Unnur Sara, sonardóttir okkar, eignaðist lítinn bróður.

Eftir að hafa misst föður sinn níu ára var hún svo heppin að fá dásamlegan fósturföður. Lífið gat haldið áfram og tveir bræður bættust við fjölskylduna með stuttu millibili.

Við minnumst þess oft hvernig hún ljómaði þegar hún fékk að segja nafn Hrannars Daða við skírn hans.

Fyrir okkur urðu bræður Unnar Söru eins og sagt er ská-barnabörn okkar, en þeir kölluðu okkur alltaf ömmu og afa, sem við lítum á sem heiðurstitla.

Systkinin þrjú náðu vel saman þrátt fyrir talsverðan aldursmun og Unnur Sara hlakkaði til að eiga þá að sem jafningja og góða vini á fullorðinsárum.

Hrannar Daði var einstaklega hlýr og yndislegur drengur. Mjög ákveðinn frá upphafi en lét það samt aldrei trufla sig frá því að spila við elstu kynslóðina, þótt á unglingsár væri kominn.

Hann átti auðvelt með að læra og það kom ekkert sérstaklega á óvart þegar hann valdi sér svið innan tæknigeirans í framhaldsskóla.

Engin orð ná yfir það hversu erfitt og sorglegt það er að missa barnið sitt og hvernig hægt er að halda áfram eftir það. Hugleiðingar hvað varða slíkt eru í raun afar lítils megnugar í stóra samhenginu. Rætur þessara tilfinninga liggja svo djúpt í mannssálinni. Það er einfaldlega ekki réttlátt að þeir eldri skuli þurfa að horfa á eftir þeim yngri.

Þeim harmi sem nú er kveðinn að fjölskyldu Hrannars Daða verður því ekki með orðum lýst. Í vanmætti okkar hugsum við til allra ástvina hans í þeirra þungu raun.

Unnur Ólafsdóttir og Þórarinn Eldjárn.

Vorið var á næsta leiti og við farin að hlakka til samverustunda með afkomendum okkar í sumri og sól og að búa til nýjar minningar. Almættið ætlaði þó ekki að hafa það þannig. Í þann mund er við vorum farin að eygja vorið kom vágestur í heimsókn. Þegar Hrannar Daði okkar veiktist vonuðum við að um væri að ræða saklausan sjúkdóm en það reyndist ekki rétt, hann var hinn versti vágestur. Hrannar var greindur með krabbamein um miðjan apríl og við vonuðum að ungur hraustur strákur myndi hafa vinninginn í þeirri baráttu. Það fór þó svo að hann lést 2. maí.

Hann var annað barnabarn okkar á eftir systur hans Unni Söru sem er 13 árum eldri. Ekki fannst okkur síðra að fá dreng í þetta kvennaríki sem hjá okkur var. Hrannar var bjartur og fagur og þroskaðist hratt, enda á tímabili kallaður „Hraði“. Ég á minningu um hann tveggja ára og bróðir hans var nýfæddur að ég tók hann með mér í Kringluna. Vinkona mín var með mér og hún hafði týnt pening einhvers staðar á leiðinni. Þá sagði þessi litli stubbur: „Ég á pening, ég skal gefa þér.“ Þegar hann var þriggja ár flutti fjölskyldan til Englands og þar naut hann sín ágætlega. Hann var í leikskóla þar en fyrstu mánuðina sagði hann ekki orð á ensku, virtist þó skilja flest. Eftir nokkra mánuði tók hann til máls og talaði enskuna með fullkomnum breskum hreim. Hann var nefnilega fullkomnunarsinni. Hann var ákaflega barngóður og umhyggjusamur. Þess nutu frænkur hans í ríkum mæli. Við eigum fallega minningu um þegar þeir bræður voru í heimsókn í Birkigrundinni ásamt frænku sinni Bergþóru. Þá var venjan að fara niður í dal og gefa öndunum brauð, sparka í bolta eða annað sem í boði var þar. Þau frændsystkin voru miklar andstæður í útliti, tveir litlir glókollar þriggja og fimm ára og Bergþóra dökkhærð tveggja ára. Hrannar leiddi hópinn og bar ábyrgð á að allt væri í lagi.

Hrannar var fljótur að læra að lesa og í námi var ekkert sem stóð í vegi fyrir honum. En oft þótti honum samt óþægilegt að vera í skólanum. Allur hávaði fór illa í hann. Hann var mikill snillingur í öllu sem varðaði tölvur og það var þægilegt að leita til hans þegar tölvuþekking afa og ömmu var ekki til staðar. Einnig hafði hann áhuga á fótbolta sem hann stundaði sem barn.

Í febrúar síðastliðnum fórum við öll stórfjölskyldan til Tenerife. Þar spurði eitt barnabarnið hvað væri það versta sem gæti hent mig. Ég sagði að það væri ef eitthvað slæmt kæmi fyrir afkomendur mína. Ekki vissi ég þá að það væri einmitt að fara að raungerast. Því fyrstu merki um veikindi birtust einmitt þar.

Aldrei aftur fáum við hlýtt faðmlag frá glókollinum okkar en geymum minninguna um góðan dreng.

Elsku Eyrún, Þórður, Unnur og Heiðar, við vonum að guð gefi ykkur styrk til að horfast í augu við þennan missi.

Afi og amma í Hveralind,

Snorri Tómasson og
Jóna Björg Jónsdóttir.

Elsku Hrannar Daði, litli frændi minn og góður vinur, er látinn alltof ungur. Allt gerðist svo hratt og maður er enn að átta sig á þessu. Áfallið er gríðarlegt og sorgin mikil. Upp úr standa hins vegar minningar um einstaklega ljúfan og indælan dreng. Hrannar var frábær stóri bróðir og frændi og átti afar náið samband við stærri fjölskylduna. Þótti honum fátt skemmtilegra en að grípa í spil með fjölskyldunni og kappið var oft mikið. Hann var eldklár og þótti ekki leiðinlegt að vinna mann í hinum ýmsu spurningar- og strategískum spilum. Þá hafði hann alltaf þolinmæði til að spila tölvuleiki við stóra frænda sinn þó að getumunurinn hafi verið ansi mikill, honum í vil að sjálfsögðu. Þá var Hrannar ótrúlega flinkur í öllu sem viðkemur tölvum og tækni og fann hann sig vel í rafeindavirkjunarnáminu. Hann var sannarlega á réttri hillu þar og var fyrir löngu búinn að taka við af manni sem aðaltæknihjálpari ömmu sinnar og afa, enda miklu öflugri en fyrirrennarinn.

Elsku frændi, ég minnist allra góðu stundanna í fjölskylduferðunum, sem verða ekki samar án þín, allra spilanna og tölvuleikjanna sem þú rústaðir mér í, fótboltaleikjanna sem við kepptum í og allra heimskulegu pælinganna sem við fjölskyldan gleymdum okkur í. Ég er svo þakklátur fyrir allar samverustundirnar og að hafa náð að sjá þig á afmæli afa þíns í apríl og knúsa þig í síðasta skipti. Það er óendanlega sárt að þurfa að kveðja þig en minningarnar lifa að eilífu og munu hlýja mér það sem eftir er ævinnar.

Kristinn Hrafn
Þórarinsson.

Hrannar Daði frændi er látinn eftir stutta en erfiða baráttu við veikindi. Það er erfitt að meðtaka þessar upplýsingar enda er stórt skarð höggvið í fjölskylduna og frændsystkinahópinn sem hefur verið svo náinn. Eftir sitjum við hin harmi slegin og mörgum spurningum er ósvarað. Hvernig gat þetta gerst svona fljótt?

Hrannar Daði var einstaklega ljúfur og hjálpsamur strákur. Hann var mjög góður vinur krakkanna minna og í fjölskylduhittingum leituðu hann og Kolfinna mín, sú yngsta í frændsystkinahópnum, stundum skjóls saman þegar gauragangurinn í hinum frændunum var orðinn of mikill.

Hann var snemma orðinn vel fær í hvers konar tölvu- og tæknibrasi og hjálpaði til að mynda Kára mínum að setja saman borðtölvu þegar þeir voru frekar ungir, 11 og 14 ára. Mér, tæknihefta manninum, fannst það alltaf merkilegt. Það kom því ekki á óvart að hann skyldi hefja nám í rafeindavirkjun eftir grunnskóla. Hann fann sig vel í náminu og gekk vel í því. Námið gat hann þó ekki stundað síðustu vikur sökum veikinda.

Hrannar Daði var eldklár og mjög minnugur á hvers kyns upplýsingar. Því fengum við fullorðna fólkið að kynnast í spurningaspilum. Hann var enn fremur mikill fótboltaaðdáandi, sérstaklega á yngri árum, og í fjölskylduferðum var alltaf skipulagður fótboltaleikur – krakkar á móti fullorðnum. En hann bjó líka yfir ýmsum sérstökum hæfileikum. Hann var líklega ekki eldri en sjö eða átta ára þegar í ljós kom að hann gat sagt fjölda stafa í orðum sem hann heyrði. Þetta fannst mér merkilegt og lagði fyrir hann ansi mörg orð, mislöng, og rétt svar fékk ég alltaf samstundis.

Elsku Þórður, Eyrún, Unnur Sara og Heiðar. Það er sárt að kveðja kæran frænda allt of snemma. Eftir sitja ljúfar minningar um góðan dreng.

Jón Sigurður Þórarinsson.

Elsku Hrannar Daði er farinn frá okkur, aðeins 18 ára gamall.

Það hafði hallað mjög á karlkynið í okkar fjölskyldu, við erum fjórar systur með mömmu þinni og þegar þú fæddist áttirðu þegar stóra systur og nú loksins var kominn drengur. Lítill, sætur, ljóshærður strákur sem elskaði fótbolta, legó og risaeðlur sem þú kunnir öll latnesku heitin á. Þú varst límheili, mundir allt, þú mundir afmælisdaga allra í kringum þig. Spurður um hvað þú ætlaðir að verða þegar þú yrðir stór sagðistu vilja vera góður pabbi sem lýsir þínum innra manni svo vel.

Ég á góðar minningar frá Cambourne þar sem þið bjugguð um tíma og ég kom stundum að passa ykkur bræður. Við þræddum saman leikvellina, leituðum að froskum, klifruðum í trjám, lékum okkur í fótbolta, fórum í göngutúra í enskri sveit. Þú varst svo lítill en talaðir ensku með ofurkrúttlegum breskum hreim og afar siðmenntuðum orðaforða. Við litum út eins og villifólk úr norðri í þinni nærveru með okkar íslenska hreim.

Þið fjölskyldan fluttuð heim til Íslands og skólagangan hófst. Þú skynjaðir heiminn öðruvísi en flestir og varst svo ótrúlega næmur. Ég vildi óska að þú hefðir alltaf getað nýtt það sem styrkleika þína en því miður var staðan sú að þér leið ekki vel og áttir erfitt uppdráttar í grunnskólanum.

Ég og Arturo eignuðumst okkar tvær dætur og þú varst besti stóri frændi og leyfðir litlum frænkum að hnoðast á þér að vild. Það fannst þeim gaman. Þér þótti svo augljóslega mikið vænt um þær Salome og Perlu, við sáum hvernig þú ljómaðir í kringum þær. Með þér úti að leika vissum við að þær voru í fullkomlega öruggum höndum, þú passaðir svo vel upp á þær. Þær voru svo spenntar þegar þú sýndir og kenndir þeim tölvuleiki sem voru alveg „next level“ (eins og þær orða það). Þú varst rólegur og ljúfur unglingur, fannst gaman að vera í tölvunni, leika þér úti í fótbolta og leystir flókin stærðfræðidæmi í frístundum. Ef okkur vantaði tæknilega aðstoð var gjarnan leitað til þín og þegar við komum í heimsókn gafstu þér alltaf tíma til að vera með okkur.

Það er sorglegt að hugsa til þess að það verða ekki fleiri sumarbústaðarferðir, utanlandsferðir, afmælisveislur né matarboð þar sem þú ert með okkur. Við geymum nú allar þessar stundir sem dýrmætar minningar. Við förum ekki fleiri ferðir í Nexus að finna handa þér gjöf, en munum hugsa til þín þegar við kíkjum þar inn. Það sker hjarta okkar að stelpurnar okkar eigi ekki lengur stóra frænda sinn að leita til í framtíðinni. Það sker hjarta okkar að sjá þig ekki verða að fullorðnum manni.

Veikindi þín og andlát eru okkur áminning um að tími okkar með ástvinum er takmarkaður, það þarf að nýta hverja mínútu og skapa góðar minningar. Maður veit aldrei hvað er næst á dagskrá í þessu lífi. Okkur þótti svo óskaplega mikið vænt um þig elsku Hrannar og því er sorg okkar djúp og missirinn mikill.

Við vonum að alheimurinn taki á móti þér opnum örmum og beini þér á sérstakan stað fyrir fallegar og hjartahreinar sálir.

Gréta, Arturo,
Salome og Perla.

Þegar við Hrannar vorum litlir, fúlir krakkar og skildum ekkert í því af hverju fólkið okkar vildi ekki kaupa öll þau borðspil sem við sáum, þá lofuðum við hvort öðru að þegar við værum orðin stór og flutt út væri hitt fyrsta manneskjan sem kæmi í heimsókn og við myndum sitja fram eftir og spila og enginn gæti sent okkur í rúmið. Við minntumst oft á þetta loforð, og ef mig minnir rétt þá var það rétt eftir að við röðuðum legókubbum niður allan stigann til að gleðja foreldrana sem við lofuðum því. Fyrsta minningin mín úr þessu lífi, og sú fyrsta sem Hrannar sagði mér einhvern tímann að hann myndi eftir, erum við tvö að borða spagettí af litríkum plastdiskum heima hjá ömmu og afa. Ég held stundum að svona helmingur æskuminninga minna hafi byrjað við þetta matarborð. Plott um að ræna litlu frænku og fá fullorðingana til að kaupa fleiri spil, rifrildi um hvort Harry Potter gæti unnið risaeðlu í slag, plön fyrir frændsystkinaáramótaskaupið. Sílaveiðar, fótboltakeppnir, stigarennibrautir, hundrað-þúsund umferðir af borðspilum og örugglega jafnmargar bílferðir með hann mér við hlið.

Hrannar er og verður alltaf litli frændi, nokkuð sem hann fékk aldrei að gleyma með nákvæmlega 342 daga á milli okkar. Hann var hjartahlýjasta manneskja sem ég hef nokkurn tímann kynnst, laumulega frábær slúðrari, snillingur þegar það hentaði honum og einn af mínum bestu vinum. Frændsystkinagengið í G17 verður aldrei eins án hans. Ekkert okkar verður eins án hans. Ég man ekki eftir lífinu án hans, og það er fátt sem hræðir mig jafn mikið og að hugsa um hversu lengi ég mun þurfa að sakna hans. Þetta verður sárt jafn lengi og ég sakna hans, og ég mun sakna hans eins lengi og ég lifi. Ég hugsa um hann jafnvel þegar ég er ekki að hugsa um hann.

Elsku vinur, elsku frændi, þú skuldar mér spilakvöld.

Þorbjörg Þóroddsdóttir.