Eurovision Hera flutti lagið „Scared of Heights”.
Eurovision Hera flutti lagið „Scared of Heights”. — Ljósmynd/Eurovision tv
Eflaust eru allir komnir með upp í kok af Eurovision þetta árið en hér verður komið inn á eitt atriði sem ekkert hefur verið til umræðu. Við erum að tala um lofthræðslu. Ljósvaki glímir við lofthræðslu og fer t.d

Björn Jóhann Björnsson

Eflaust eru allir komnir með upp í kok af Eurovision þetta árið en hér verður komið inn á eitt atriði sem ekkert hefur verið til umræðu. Við erum að tala um lofthræðslu. Ljósvaki glímir við lofthræðslu og fer t.d. ekki upp í nema þriðju tröppu ef stiginn hefur sex slíkar, kaupir aldrei miða á efstu svölum í Eldborg og fer ekki lengra upp en í mesta lagi hálfan Eiffelturninn.

Sá sem þýddi textann við lag Heru Bjarkar yfir á ensku gerði mikil mistök með að breyta „Við förum hærra“ í „Scared of heights“. Enda varð útkoman sú meðal dómnefnda og Evrópubúa að nær engir keyptu lofthræðsluna, horfandi á Heru uppi á nokkurra metra stalli þar sem hún gat sig lítið hreyft. Ísland endaði neðst með aðeins þrjú stig.

Rannsóknir hafa sýnt að einn af hverjum fimm einstaklingum er lofthræddur. Þetta jafngildir því að um 150 milljónir Evrópubúa glími við þessa hvimleiðu fælni og um 77 þúsund Íslendingar. Þetta eru himinháar tölur.

Hera er frábær söngkona en því miður var lagið ekki nógu sterkt, að viðbættri lofthræðslunni í þessum ástaróði. Ljósvaki er þess fullviss að Hera er lent heilu og höldnu eftir keppnina, en hins vegar þarf RÚV að gyrða sig í brók þegar kemur að Eurovision.