Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Forsætisnefnd Alþingis verður falið að útbúa vinnureglur um málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem Alþingi veitir og skulu reglurnar tilgreina þau atriði sem höfð verði til hliðsjónar þegar Alþingi fjallar um slíkar umsóknir. Svo segir í þingsályktunartillögu sem Birgir Þórarinsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins undirbýr að leggja fram á þingi.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Forsætisnefnd Alþingis verður falið að útbúa vinnureglur um málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem Alþingi veitir og skulu reglurnar tilgreina þau atriði sem höfð verði til hliðsjónar þegar Alþingi fjallar um slíkar umsóknir. Svo segir í þingsályktunartillögu sem Birgir Þórarinsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins undirbýr að leggja fram á þingi.

Þriggja manna undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar hefur það verkefni að fara yfir umsóknir um ríkisborgararétt og fylgigögn þeirra sem beint er til Alþingis, en aðrir þingmenn hafa ekki aðgang að þeim upplýsingum. Jón Gunnarsson alþingismaður hefur gagnrýnt þetta fyrirkomulag og vill að þessar upplýsingar verði aðgengilegar öllum þingmönnum, eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær.

„Nefndin starfar samkvæmt óskráðum reglum og það getur valdið tortryggni, ég vil sjá breytingu á því og tel að störf nefndarinnar eigi að byggjast á gagnsæjum og skráðum reglum,“ segir Birgir í samtali við Morgunblaðið, en hann gegndi formennsku í þriggja manna nefndinni í tæp þrjú ár.

Í boðaðri þingsályktunartillögu er lagt til að nefndin starfi eftir skýrum skráðum reglum. Þær kveði m.a. á um að umsóknir um ríkisborgararétt til Alþingis verði ekki teknar til greina ef umsækjandi hefur umsókn um alþjóðlega vernd til umfjöllunar hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála eða fyrir dómstólum. Umsókn verði heldur ekki metin tæk, hafi umsækjandi fengið synjun um alþjóðlega vernd hjá fyrrgreindum stofnunum og umsókn verði heldur ekki tekin til greina sé umsækjandi í brottvísunarferli hjá Útlendingastofnun.

Hvað fylgigögn með umsókn um ríkisborgararétt varðar, þá mælir tillagan fyrir um að undirnefndin skuli fylgja sömu reglum og Útlendingastofnun um framvísun sakavottorðs, þ.m.t. um undanþágu frá framvísun slíks vottorðs. Fram er tekið að veitingu ríkisborgararéttar með lögum skuli stillt í hóf.

Birgir segir að fjöldi umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis hafi aukist mjög síðustu misseri og álag á nefndina sé mikið. Fjölmargar umsóknir berist frá hælisleitendum sem hafa tímabundið eða ótímabundið dvalarleyfi, eru með sín mál í vinnslu á stjórnsýslustigi eða bíða jafnvel brottvísunar. Alþingi eigi ekki að grípa inn í slík mál með veitingu ríkisborgararéttar.

„Ég veit mörg dæmi þess að lögmannsstofur sem vinna fyrir hælisleitendur eru farnar að vísa málum til Alþingis um beiðni um ríkisborgararétt fyrir sína umbjóðendur. Lögin um veitingu ríkisborgararéttar eru frá árinu 1952 og menn sáu þetta ekki fyrir á þeim tíma,“ segir Birgir Þórarinsson.