Yfirtaka Útlit er fyrir að yfirtaka á Marel klárist á næstu mánuðum.
Yfirtaka Útlit er fyrir að yfirtaka á Marel klárist á næstu mánuðum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hluthafar í Marel fá 538 kr. á hvern hlut kjósi þeir að ganga að yfirtöku­tilboði bandaríska matvælaframleiðandans John Bean Technologies Corporation (JBT) í allt hlutafé Marels. Gengi bréfa í Marel var við lok markaða í gær 500 kr

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Hluthafar í Marel fá 538 kr. á hvern hlut kjósi þeir að ganga að yfirtöku­tilboði bandaríska matvælaframleiðandans John Bean Technologies Corporation (JBT) í allt hlutafé Marels. Gengi bréfa í Marel var við lok markaða í gær 500 kr. á hvern hlut og er tilboðsverðið því tæplega 8% yfir núverandi markaðsvirði.

Verðið var endanlega staðfest í skráningarlýsingu sem JBT skilaði í gær til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (U.S. Securities and Exchange Commission, eða SEC) í tengslum við yfirtökutilboðið. Áður hefur verið greint frá því að hluthafar Marels hafa val um það hvort þeir fá greitt í reiðufé, fá hlut í JBT eða hvort tveggja, gangi þeir að tilboðinu.

Morgunblaðið greindi frá því í byrjun maí að áreiðanleikakönnun vegna yfirtökunnar væri lokið og að viðeigandi gögn hefðu verið send til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) til yfirferðar. Þá kom fram í árshlutauppgjöri JBT að viðræður milli aðila væru í réttum farvegi.

JBT greiðir 3,6 evrur á hvern hlut, en í skráningarlýsingunni kemur fram að miðað sé við gengi evru á 149,5 kr. Það gerir sem fyrr segir 538 kr. á hlut. Gengi bréfa í Marel var, þegar yfirtökutilboðið var lagt fram í nóvember sl., 350 kr. á hvern hlut, en hefur síðan þá hækkað um 43%. Yfirtökutilboðið var lagt formlega fram með verðum þann 18. janúar sl., en þá var gengi Marels 464 kr. Miðað við það er JBT að greiða um 16% yfir markaðsvirði.