Ég undirritaður Jón Kr. Ólafsson söng með hljómsveitinni Facon á Bíldudal frá 1962-1969 og við gerðum plötu sem SG-hljómplötur sáu um að gefa út. Þegar þessum ferli lauk kom upp sú staða að ég var ekki að syngja í nokkurn tíma og það varð til þess að ég fór til Reykjavíkur að leita fyrir mér með verkefni. Ég var svo heppinn að komast í hljómsveit Jóns Sigurðssonar sem þá var að spila á Hótel Borg og fleiri stöðum.

Í þessum ferðum mínum, sem stóðu í mörg ár, kom Haukur Morthens mér heldur betur á framfæri. Það varð til þess að ég var farinn að syngja um alla Reykjavík og var það mikill sigur fyrir mig. Árið 1994 voru haldnir minningartónleikar um Hauk á Hótel Sögu. Þar komu fram tuttugu söngvarar ásamt stórsveit Ólafs Gauks. Sjónvarp og útvarp voru á staðnum og tóku tónleikana upp þannig að mikið efni er til varðandi feril Hauks.

Ég þakka þessum frábæra söngvara fyrir mig og allar þær góðu stundir sem við áttum á sviði og allan stuðninginn. Kæri vinur, hafðu þökk fyrir allar okkar samverustundir, drengskap þinn og hjálp í öllum okkar samskiptum.

Með vinsemd og virðingu,

Jón Kr. Ólafsson
söngvari, Bíldudal.