Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Ákvarðanir peningastefnunefndar ná aðeins að óverulegu leyti til íslensks atvinnulífs nema „langlánanefnd“ verði vakin til lífs að nýju.

Vilhjálmur Bjarnason

Það er fátt sem ekki verður að deiluefni á Íslandi. Eitt sem ekki hefur verið deilt um er skattfrelsi bænda.

Því er fróðlegt að ferðast um landið og heyra viðhorf bænda til peningastefnunnar og Seðlabankans. Þannig var að ritari átti eitt sinn leið um Skagafjörð. Maðurinn að sunnan hafði sést í sjónvarpi og bóndinn í Skagafirði taldi bera vel í veiði að ræða við mann að sunnan um illmenni sem sitja í Seðlabankanum. Í upphafi reyndi maðurinn að sunnan að leiða bónda fyrir sjónir að bændur væru álíka mikið háðir ákvörðunum Seðlabanka og stjórntækjum bankans eins og íslensk flugfélög, en ákvarðanir Seðlabanka hafa engin áhrif á ákvarðanir íslenskra flugfélaga. Það stafar af því að flugfélög eru með allar fjármálaskuldbindingar í þeirri mynt sem notuð er í flugvélaviðskiptum, en það er bandaríkjadalur.

Skagfirski bóndinn er mun háðari ákvörðunum Kaupfélags Skagfirðinga en þess ímyndaða óvinar sem situr í Seðlabankanum í Reykjavík. Það kann að vera að bóndinn hafi talið það upphaf og endi allrar peningastefnu hvernig gengi að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, án nokkurra breytinga á afkomu.

Og svo graðgaði bóndinn í sig gott viskí, sem honum var boðið að skilnaði.

Fjármálamarkaður og félagsleg aðstoð

Fjármálamarkaður getur aldrei orðið rás fyrir félagslega aðstoð, hvorki fyrir bændur né almenning. Fjármálamarkaður er vettvangur viðskipta þar sem frjálsir menn eiga viðskipti. Börn og eldri borgarar, þ.e. þeir sem eiga bankainnstæður, eiga rétt á vernd fyrir eignir sínar, eignir ungs fólks, sem ætlaðar eru til útborgunar í fasteignakaupum, og eignir eldri borgara, sem ætlaðar eru til neyslu eftir að starfsaldri lýkur. „Fjármagnseigendur“ þessa lands er vinnandi fólk, sem ber skyldu til að tryggja lífeyrisréttindi sín. Lífeyrissjóðir eru vörsluaðilar í umboði almennings.

Vernd sparifjáreigenda

Ritari minnist þess að eitt sinn á þeim tíma þegar Seðlabanki Íslands ákvarðaði alla vexti í viðskiptalífinu taldi bankastjórn bankans rétt að geta þess sérstaklega að réttur sparifjáreigenda hefði verið fyrir borð borinn allt of lengi. En sparifjáreigendur er almenningur en ekki fyrirtæki!

Svo var það árið 1979 að þáverandi forsætisráðherra, en sá sem gegndi því embætti var jafnframt dáður formaður Framsóknarflokksins, var algerlega nóg boðið að sjá hvernig farið var með eignir lífeyrissjóða. Í raun voru launþegar hafðir að fíflum með greiðslu til öflunar lífeyrisréttinda. Framlög til öflunar lífeyrisréttinda voru fyrst og fremst félagsleg aðstoð við fyrirtæki, sem ætluðu aldrei að endurgreiða fengin lán, heldur aðeins að rýra lífeyri launþega. Blygðunarlaust var jafnvel talað um „lánafyrirgreiðslu“, þ.e. greiða því öllum var ljóst að lán á stórlega neikvæðum vöxtum yrðu aldrei endurgreidd að raunvirði.

Það var þetta sem forsætisráðherrann og formaður Framsóknarflokksins ætlaði að koma í veg fyrir.

Nýr veruleiki

Nú ber svo við að forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins er ekki einn og sami maðurinn. Formaður Framsóknarflokksins er fjármálaráðherra, og jafnframt efnahagsráðherra, og hugar vel að skattfrelsi bænda.

En báðir vilja þóknast öllum. Það er vondur vilji því stundum þarf að gera annað og fleira en gott þykir í bráð þótt það reynist gott í lengd.

Forsætisráðherra telur að lántakendur „komist hjá vaxtaákvörðunum“ peningastefnunefndar og segi sig úr lögum við Seðlabankann með því að breyta „óverðtryggðum“ lánum í verðtryggð. Flugfélög gera það einnig með því að eiga viðskipti við lánafyrirtæki í Japan, Kína og Dúbaí. Ég er alls ekki viss um að bankar í þessum löndum viti nokkuð um skoðanir ráðherra og bankastjóra á Íslandi. Bankar vilja aðeins eiga viðskipti við skilvísa greiðendur. Ráðherrar á Íslandi hafa þær skyldur að viðhalda viti í umræðunni og í íslensku efnahagslífi.

Efnahagsráðherrann er að því er virðist ekki sáttur við jákvæða raunvexti. Virðist þrá eignatilflutning með neikvæðum raunvöxtum og hafnar því að greiða fyrir fórnarkostnaðinn við að spara og fresta neyslu.

Það voru þessi atriði sem formanni Framsóknarflokksins misbauð árið 1979.

Stöðugt verðlag og fjármálastöðugleiki

Nú vill til að Seðlabankinn hefur ekki aðeins það hlutverk að stuðla að stöðugu verðlagi. Hann hefur einnig það hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika. Seðlabankinn hefur enn fremur þær skyldur að fjármálafyrirtæki kunni margföldun og deilingu í vaxtaútreikningi. Á því hefur orðið misbrestur.

Kann að vera að jafnar greiðslur svokallaðra „verðtryggðra“ lána viðhaldi stöðugleika í efnahagslífi og svokölluð „óverðtryggð“ lán valdi truflun í fjármálalífi einstaklings.

Tekið skal fram að „óverðtryggð“ lán eru ekki til. Breytileiki verðtryggðra lána er mældur með hlutlægum hætti, en breytileiki „óverðtryggðra“ lána tekur mið af vaxtaákvörðun Seðlabanka.

Ákvörðun vaxta

Það er bundið í lög að Seðlabanki ákvarðar vexti í eigin viðskiptum. Af því leiðir að önnur fjármálafyrirtæki verða að ákveða eigin vexti og hafa þá vonandi í huga siðræn samkeppnissjónarmið. Svo er hægt að slá um sig með samfélagsbanka. Þá er rétt að minna á samfélagsbankann Íbúðalánasjóð, nú ÍLS-sjóð, sem er skúffufyrirtæki í fjármálaráðuneytinu og eiginlegt vandamál í ríkisfjármálum.

Og ef fjármálafyrirtæki „festa“ vexti í ákveðinn tíma, hvað gerist þegar vextir „losna“? Er það víst að vextir geti aðeins lækkað? Hver lofaði því? Er ekki eðlilegt að neytendur á fjármálamarkaði velji þá kosti sem best henta hverju sinn?

Á neytandi á fjármálamarkaði að hegða sér eins og neytandanum hentar? Eða eins og seðlabankastjóra og ráðherrum hentar? Ráðherrar og bankastjórar verða að gera sér grein fyrir þeim takmörkunum sem stjórntæki banka og löggjafarvalds hafa. Ekkert er fullkomið! Síst af öllu hegðun mannsins.

Að graðga í sig fisk

Fröken Hnallþóra sagði eitt sinn: „Það hefur aldri þótt viðeigandi að skárra kvenfólk graðgaði í sig fiski á almannafæri hér undir Jökli.“

Það er á sama veg með ráðherra, þeir geta ekki graðgað í sig ákvarðanir peningastefnunefndar þannig að það verði til óbóta fyrir almenning. Ákvarðanir peningastefnunefndar ná aðeins að óverulegu leyti til íslensks atvinnulífs nema „langlánanefnd“ verði vakin til lífs að nýju.

Hugið aðeins að margföldun og deilingu, en takið ekki slag við margföldunartöfluna! Takið mið af ávöxtun og núvirðingu við mat á lánum.

Og gerið það sem mest er viðeigandi á almannafæri.

Höfundur var alþingismaður og metinn hæfur til að gegna embætti seðlabankastjóra.