Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Frumvarp um breytingu á útlendingalögum var tekið til annarrar umræðu á Alþingi í gær, fimmtudag. Málið er til bóta, miðað við núverandi regluverk, en nokkrar tennur voru þó dregnar úr því með breytingum á frumvarpinu frá því að málið var kynnt í…

Frumvarp um breytingu á útlendingalögum var tekið til annarrar umræðu á Alþingi í gær, fimmtudag.

Málið er til bóta, miðað við núverandi regluverk, en nokkrar tennur voru þó dregnar úr því með breytingum á frumvarpinu frá því að málið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og þar til dómsmálaráðherra mælti fyrir því í byrjun mars.

Málsmeðferðarreglur sem átti að fella út, en verða áfram hluti af íslensku regluverki, snúa meðal annars að veitingu endurgjaldslausrar talsmannaþjónustu á báðum stjórnsýslustigum og niðurfellingu 18 mánaða tímamarks við málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd.

Séríslenskar málsmeðferðarreglur hafa kallað fram þau áhrif að umsóknir um alþjóðlega vernd eru hlutfallslega margfalt fleiri en raunin er í samanburðarlöndum okkar. Það setur gríðarlegan þrýsting á stoðkerfi íslensks samfélags, hvort sem litið er til menntamála, heilbrigðismála, stöðunnar á húsnæðismarkaði eða á aðra þætti.

Tugmilljarða beinn útlagður kostnaður ríkissjóðs og margföld sú tala þegar afleiddur kostnaður er metinn er staða sem ætti að verða þess valdandi að stjórnvöld gerðu það sem hægt er til að ná tökum á landamærunum og stemma stigu við þeim gríðarlega fjölda umsókna sem hingað berast.

En staðan er því miður sú að ýmsar séríslenskar reglur verða áfram í regluverki útlendinga og dómsmálaráðherra hefur nú þegar sagst munu leggja fram nýtt frumvarp í haust sem ætlað er að stoppa upp í sum þeirra gata sem eftir verða á kerfinu.

Af hverju ekki að gera þetta í einni aðgerð? Skrifa ný útlendingalög frá grunni sem færðu okkur kerfi sem virkar fyrir þá sem eru í raunverulegri neyð og virkar sömuleiðis gagnvart því samfélagi sem við búum í.

Endalaus smáskref, endalaus bútasaumur, er því miður ekki leiðin að því marki sem við verðum að ná.

Göngum hreint til verks, að danskri fyrirmynd, og setjum okkur jafnfætis frændum okkar í þessum efnum. Ef skrefin verða svo stutt og fá að við komumst aldrei með tærnar þar sem frændur okkar hafa hælana í þessum efnum, þá verður kostnaðurinn meiri af kerfinu en þörf er á. Aðlögun þeirra sem hingað koma mun ganga hægar og stoðkerfin verða yfirhlaðin.

Mögulega er óraunhæft að ná fram slíkum ákvörðunum innan núverandi ríkisstjórnar, en það styttist í kosningar og þá mun skipta máli að til verka veljist stjórnmálamenn og flokkar sem geta tekið stórar ákvarðanir og fylgt þeim eftir. Þá mun muna um Miðflokkinn.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is