Eva Björg Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 24. febrúar 2001. Hún lést af slysförum í Eyjafirði 24. apríl 2024.

Eva Björg er dóttir Vilborgar Þórarinsdóttur, f. 8. janúar 1969, og Halldórs Inga Róbertssonar, f. 18. maí 1969. Þau slitu samvistum. Eva Björg er eina barn Halldórs Inga. Sambýliskona hans er Ásta Dóra Kjartansdóttir, f. 13. júní 1974. Eldra barn Vilborgar er Sigþór Jens Jónsson, f. 23. september 1990. Sambýliskona Sigþórs Jens er Ingibjörg Íris Þorvaldsdóttir, f. 17. febrúar 1992. Barn þeirra er Sóley Björg, f. 11. september 2019.

Foreldrar Vilborgar eru Finnbjörg Jensen, f. 28. nóvember 1946, og Þórarinn Gunnarsson, f. 18. júlí 1947. Foreldrar Halldórs Inga eru Róbert Benediktsson, f. 28. janúar 1944, d. 28. janúar 2012, og Hallfríður Baldursdóttir, f. 29. maí 1944, d. 17. júlí 2012.

Eva Björg bjó fyrstu æviárin í Hafnarfirði. Árið 2007 flutti hún með móður sinni og stjúpföður, Áskeli Erni Kárasyni, f. 5. júlí 1953, til Akureyrar. Eva Björg stundaði nám alla sína grunnskólagöngu í Lundarskóla. Hún lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2022 og hóf í framhaldi nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Hún hafði frá unga aldri mikinn áhuga á hvers kyns íþróttum og þótti liðtæk í því sem hún tók sér fyrir hendur. Lengst af æfði hún bæði listdans á skautum og skíði af kappi. Frá fermingaraldri bættist hestamennskan við sem hún stundaði af mikilli ástríðu.

Útförin fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 17. maí 2024, klukkan 13.

Hún kom inn í líf mitt lítil stúlka. Með feimnisleg augu, stundum einbeitt, stundum einþykk. Viðkvæm. Dugleg. Átti unga tík að vini, þær kúrðu saman. Litlu skinnin.

Skautastúlka, skíðastúlka, hestastúlka. Nú undrast þau um hana, Skvísa, Sólon og Völsungur gamli.

Ung kona með fangið fullt af framtíð, hrifin burt svona snögglega. Lífið er stutt, allt of stutt. Ég syrgi með foreldrunum sem misst hafa barnið sitt. Með móðurinni sem missir augasteininn sinn. Ég græt í minni eigin sorg. Á bara til orð, en þau duga svo skammt.

Guð geymi hana Evu litlu. Minningin um hana lifir og sú minning er björt.

Áskell Örn Kárason.

Það er margs að minnast þrátt fyrir ungan aldur Evu Bjargar sem kvaddi þennan heim allt, allt of snemma.

Ferðirnar á Akureyri þar sem við gistum ófáar næturnar hjá Vilborgu og Áskeli. Samvera á Litlu-Laugum og á ættarmóti fyrir austan. Fjölskylduboðin. Ferðirnar til Danmerkur og Tenerife um árið.

Elsku Vilborg og fjölskylda, missir ykkar er mikill en minningin um Evu Björgu mun lifa um ókomin ár.

Ó, sofðu, blessað barnið frítt,

þú blundar vært og rótt.

Þig vængir engla vefja blítt

og vindar anda hljótt.

Af hjarta syngja hjarðmenn þér

til heiðurs vögguljóð sem tér:

Sofðu rótt, sofðu rótt, vært og rótt, sofðu rótt.

(Þýð. Þorgils Hlynur Þorbergsson)

Sigurður (Siggi),
Berglind og
fjölskylda.