[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er uppsöfnuð viðhaldsþörf og okkur vantar alltaf meiri peninga í viðhaldið. Við erum tveimur árum á eftir áætlun í viðhaldi á öllum svæðum og náum ekki alltaf að laga fljótt það sem þarf að laga,“ segir Kristinn Lind Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni

Baksvið

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Það er uppsöfnuð viðhaldsþörf og okkur vantar alltaf meiri peninga í viðhaldið. Við erum tveimur árum á eftir áætlun í viðhaldi á öllum svæðum og náum ekki alltaf að laga fljótt það sem þarf að laga,“ segir Kristinn Lind Guðmundsson, sérfræðingur hjá Vegagerðinni.

Morgunblaðið leitaði eftir upplýsingum hjá svæðisstjórum Vegagerðarinnar um ástand veganna eftir veturinn og fjárveitingar til viðhalds vegakerfisins.

Oft malbikað inn í nóttina

Sumarið er tími viðhalds á vegum landsins. Verktakar víða um land eru að undibúa fræsingu og malbikslögn og sumir þegar byrjaðir. Ástand vegakerfisins er víða slæmt eftir veturinn þó sérstaklega á vestursvæði. Ástæðan er óhagstætt veðurfar og stórauknir þungaflutningar vegna fiskeldis á Vestfjörðum, sem vegakerfið er ekki hannað fyrir. Malbikslögn er mjög háð veðurfari og hlýindi og þurrviðri eru skilyrðin sem þarf til verksins. Oft er unnið á kvöldin og inn í nóttina.

Tæpum 8,2 milljörðum er varið til viðhalds vegakerfisins á þessu ári. Meginverkþættirnir eru malbikslögn, styrkingar og endurbætur og viðhald malarvega. Gert er ráð fyrir að flestum verkefnum verði lokið í júlí.

Suðursvæðið skiptist í þrjú svæði, höfuðborgarsvæðið, Reykjanes og Suðurland. Á því svæði verður varið 2.458 milljónum í viðhald bundins slitlags, 840 milljónum í styrkingar og endurbætur og 270 milljónum í viðhald malarvega. Vegagerðin leggur áherslu á mikil gæði í efnisvali og eru öll steinefni flutt inn frá Noregi samkvæmt stífustu kröfum. Lögð er áhersla á að endurnýta hágæða efni. Malbiksfræs er flokkað eftir gæðum og er 10% af því notað í malbikið.

Viðbótarfjármagn fer vestur

Á vestursvæði verður 1.300 milljónum varið í viðhald bundins slitlags, 918 milljónum í styrkingar og endurbætur og 70 milljónum í malarvegi. Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri vestursvæðis, segir ástand vegakerfisins mjög slæmt. Verst er ástandið á Vestfjarðavegi 60 í Miðdölum, Reykhólasveit og Snæfellesnesvegi 54. Sömu sögu má segja um kafla á Barðastrandarvegi 62 og Bíldudalsvegi 63.

„Áhrif þungaflutninga og aldur burðarlaga eru farin að segja til sín á okkar svæði en það er ekki góð blanda að vera með 30-40 ára gamla vegi sem voru ekki hannaðir fyrir þessa þungaumferð. Búið er að veita viðbótarfjárveitingu til viðhalds á vestursvæði í ár til þess að bregðast við ástandinu sem upp er komið, þá sérstaklega á Vestfjarðavegi 60,“ segir Pálmi Þór.

Takmarka þungaflutninga

Stefán Þór Pétursson, deildarstjóri umsjónardeildar á norðursvæði, og Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri á austursvæði, taka undir þau sjónarmið að meira fé vanti til viðhalds. Reynt sé að forgangsraða verkefnum miðað við hvar þörfin sé mest en bæði þessi svæði eru víðáttumikil.

Stefán segir að 920 milljónum verði varið í viðhald bundins slitlags og 465 milljónum í styrkingar og endurbætur og af því fari 70 milljónir í malarvegi.

Sveinn segir að 430 milljónum verði varið í viðhald bundins slitlags, 350 milljónum í styrkingar og endurbætur og 155 milljónum í viðhald malarvega. Hann segir austursvæðið víðáttumikið.

„Það nær frá Brekknaheiði milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar inn á Möðrudalsfjöll að Biskupshálsi milli Víðidals og Grímsstaða, vestur fyrir Gígju á Skeiðarársandi.“

Spurður um áhrif þungaflutninga segir Sveinn að mikilvægt sé að takmarka þungaumferð jafnvel í tvo til þrjá mánuði. Það eru vegirnir með ströndinni frá Skeiðarársandi austur á Fáskrúðsfjörð. Ekki þurfi að takmarka umferðina á vegum sem hafa verið byggðir upp á Miðausturlandi inn til landsins og þola þessa flutninga.

Höf.: Óskar Bergsson