Fjölskyldan Harpa og Hrafnhildur með dóttur sína Hólmfríði Bóel.
Fjölskyldan Harpa og Hrafnhildur með dóttur sína Hólmfríði Bóel. — Ljósmynd: Kristina Petrošiute
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrafnhildur Gunnarsdóttir fæddist á hvítasunnudagsmorgun 17. maí 1964 á fæðingarheimilinu á Eiríksgötu í Reykjavík. „Foreldrar mínir bjuggu í Hörgshlíð áður en ég fæddist og ég var þar alveg þar til ég fór til náms 1985.“ Hún segir að…

Hrafnhildur Gunnarsdóttir fæddist á hvítasunnudagsmorgun 17. maí 1964 á fæðingarheimilinu á Eiríksgötu í Reykjavík. „Foreldrar mínir bjuggu í Hörgshlíð áður en ég fæddist og ég var þar alveg þar til ég fór til náms 1985.“

Hún segir að það hafi verið dásamlegt að alast upp í nágrenni við Öskjuhlíðina og Valsheimilið. „Ég sótti mikið í Valsheimilið og spilaði mikið handbolta og fótbolta með Val frá tíu ára aldri alveg til 18 ára aldurs þegar ég fór yfir í Hauka og þjálfaði þar í 2. deild.

Hrafnhildur útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1984 af náttúrufræðibraut og ákvað að vinna í eitt ár hjá Smith og Norland til að safna fyrir ferðalagi. Hún fór til Oakland í Kaliforníu 17. ágúst 1985 og var í University of California, Berkeley, og síðan í systurskólana California College of Arts and Crafts og San Francisco Art Institute þar sem hún lauk BFA-gráðu.

Réttindi samkynhneigðra

„Það var algjört menningarsjokk að koma til Kaliforníu eftir að hafa búið heima hjá foreldrunum í 21 ár og fyrst hafði ég hug á að leggja fyrir mig blaðamennsku, en ég endaði í ljósmyndun og kvikmyndagerð og var í rauninni á hárréttum stað, og þarna opnaðist alveg nýr heimur fyrir mér.“

Hrafnhildur hefur alltaf beitt sér fyrir réttindamálum samkynhneigðra og rauði þráðurinn í verkum hennar er réttindabarátta af öllu tagi. „Ég labbaði sjálf inn í Samtökin '78 árið 1981, þá 16 ára gömul. Á þeim tíma leist mér ekkert á að búa á Íslandi, en sem betur fer hefur mikið breyst frá þeim tíma.“

Sextán ár vestanhafs

Dvölin í Bandaríkjunum varð 16 ár, en árið 1990 hafði hún hug á að koma heim, en gekk illa að fá vinnu, þrátt fyrir að vera útskrifuð úr kvikmyndaskóla. „Einn yfirmaður spurði hvort ég gæti yfirhöfuð haldið á kvikmyndatökuvél,“ segir hún sem dæmi um viðhorfið til kvenna í kvikmyndagerð á þessum tíma. „En mér leið mjög vel vestanhafs og ég bjó lengst af í Berkeley og Oakland og síðar í San Francisco. Það er mikill straumur fólks sem staldrar við í þessum borgum um styttri eða lengri tíma og ég á mjög góða vini í Bandaríkjunum, en ég ætlaði mér aldrei að vera svona lengi og vildi finna mér starf við hæfi á Íslandi.“

Hún nýtti tímann í Kaliforníu vel og vann bæði við kvikmyndatökur og klippingar og hóf þar ferilinn í heimildarmyndagerð. Árið 2004 kom út heimildarmyndin Í lifandi limbó (Alive in Limbo) sem Hrafnhildur gerði í félagi við Ericu Marcus sem er bandarískur gyðingur og Tinu Naccache frá Líbanon, auk þess að sjá um kvikmyndatökuna. Í myndinni er fylgst með þriðju kynslóð ungra palestínskra flóttamanna yfir tíu ára tímabil sem hafa verið fastir í Beirút síðan 1948 og eru enn landlausir flóttamenn. „Þessi mynd tengist beint við það sem er að gerast á Gasasvæðinu í dag.“

Svona fólk

Árið 1992 þegar alnæmisfaraldurinn var í hámarki fór Hrafnhildur að safna efni á Íslandi, því mikið bakslag kom í baráttuna á þessum árum. „Það var mjög erfitt að fjármagna þetta, en þegar ég loksins komst af stað með þetta verkefni var ég með gífurlega mikið efni.“ Hrafnhildur endaði með heimildarmynd og fimm þátta sjónvarpsseríuna Svona fólk, sem fjallar um réttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi og kom út 2018-19 og hlaut Edduverðlaunin 2019.

Hrafnhildur var alkomin heim í lok árs 2001 og 2003 stofnaði hún Krumma films efh., en hefur líka unnið verkefni fyrir Sagafilm og Skjá 1. „Ég segi oft að heimildarmyndagerð sé ekki starf, heldur lífsstíll.“

Fjöldi verðlauna

Hrafnhildur hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín og hefur gert heimildarmyndir um fjölbreytt efni. Síðustu ár hefur hún einnig verið í hlutverki framleiðanda og er til dæmis nýkomin af kvikmyndahátíðinni HotDocs í Kanada þar sem heimildarmyndin The Day Iceland Stood Still í leikstjórn Pamelu Hogan, um kvennafrídaginn 2024, var sýnd en Hrafnhildur var framleiðandi og meðhöfundur.

Hún er með nokkur verkefni í vinnslu, meðal þeirra eru: Bóndinn og verksmiðjan í samstarfi við Barða Guðmundsson, Mannréttindi í 50 ár, um Íslandsdeild Amnesty International í samstarfi við Höllu Kristínu Einarsdóttur, og Systur, um systurnar Rósku og Borghildi Óskarsdætur, sem Ósk Vilhjálmsdóttir leikstýrir.

Hrafnhildur var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á þessu ári fyrir heimildarmynda- og þáttagerð og framlag til vitundarvakningar á sviði jafnréttismála.

Fjölskylda

Maki Hrafnhildar er Harpa Másdóttir myndlistarkona, f. 27.11. 1975, og þær búa í Vesturbænum. Foreldrar Hörpu eru Már Gunnarsson lögfræðingur, f. 4.12. 1944, og Sigrún Andrésdóttir, f. 17.5. 1944, d. 3.8. 1978. Már er núna kvæntur Steinunni Hreinsdóttur flugfreyju, f. 16.8. 1958. Hrafnhildur var áður í sambúð með Susan Marcoux kvikmyndagerðarmanni, f. 30.5. 1960.

Dóttir Hrafnhildar og Hörpu er Hólmfríður Bóel Hrafnhildar Hörpudóttir leikskólanemi, f. 31.8. 2018. Barnsfeður eru Sigurþór Gunnlaugsson, f. 22.11. 1968, og Róald Viðar Eyvindsson, f. 23.5. 1977.

Bróðir Hrafnhildar er Þór Gunnarsson líffræðingur, f. 1.2. 1952.

Foreldrar Hrafnhildar eru hjónin Gunnar Einarsson, símvirki og símstöðvarstjóri, f. 24.10. 1929, d. 4.4. 2006, og Ólöf Hólmfríður Sigurðardóttir, skrifstofumaður hjá fjármálaráðuneytinu lengst af, f. 1.1. 1931, d. 16.9. 2012.