Rannsókn Lögreglan gerði húsleit í gær á heimili Cintula í borginni Levice, en hann var ákærður í gær fyrir að hafa reynt að ráða Robert Fico af dögum.
Rannsókn Lögreglan gerði húsleit í gær á heimili Cintula í borginni Levice, en hann var ákærður í gær fyrir að hafa reynt að ráða Robert Fico af dögum. — AFP/Alex Halada
Saksóknarar í Slóvakíu ákærðu í gær Juraj Cintula, 71 árs gamlan rithöfund, fyrir banatilræðið við forsætisráðherrann Robert Fico í fyrradag. Cintula var handtekinn á staðnum, en hann mun hafa skotið Fico fimm sinnum af stuttu færi

Saksóknarar í Slóvakíu ákærðu í gær Juraj Cintula, 71 árs gamlan rithöfund, fyrir banatilræðið við forsætisráðherrann Robert Fico í fyrradag. Cintula var handtekinn á staðnum, en hann mun hafa skotið Fico fimm sinnum af stuttu færi.

Fico var í gær sagður úr lífshættu, en læknar mátu ástand hans enn mjög alvarlegt. Hann var fluttur með þyrlu eftir tilræðið á sjúkrahús í borginni Banska Bystrica, þar sem hann undirgekkst fimm klukkutíma skurðaðgerð.

Robert Kalinak aðstoðarforsætisráðherra sagði í gær að læknarnir hefðu náð að bjarga lífi Ficos, en að því miður væri ástand hans enn alvarlegt þar sem áverkarnir eftir skotárásina væru „flóknir“.

Innanríkisráðherrann Matus Sutaj Estok sagði að hinn handtekni hefði verið einn að verki og að svo virtist sem niðurstaða forsetakosninga Slóvakíu í síðasta mánuði hefði ýtt honum fram af brúninni, en þá náði Peter Pellegrini, einn af bandamönnum Ficos, kjöri sem forseti.

Pellegrini, sem tekur við embættinu í júní, sendi í gær frá sér yfirlýsingu ásamt Zuzönu Caputova, fráfarandi forseta Slóvakíu, þar sem þau hvöttu til stillingar og skoruðu á alla flokka landsins að hætta kosningabaráttu sinni vegna kosninganna til Evrópuþingsins, sem fram fara í næsta mánuði. Hafði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn þegar lagt niður kosningabaráttu sína.