Langbestar Íslandsmeistarar Vals fagna ásamt ungum handboltakrökkum úr félaginu eftir sigurinn á Haukum á Hlíðarenda í gærkvöld.
Langbestar Íslandsmeistarar Vals fagna ásamt ungum handboltakrökkum úr félaginu eftir sigurinn á Haukum á Hlíðarenda í gærkvöld. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valskonur urðu í gærkvöld Íslandsmeistarar í nítjánda skipti og annað árið í röð þegar þær sigruðu Hauka í þriðja úrslitaleik liðanna á Hlíðarenda, 28:25. Þær unnu einvígið 3:0 en Valur vann fyrsta leikinn 28:27 og annan leikinn á Ásvöllum 30:22

Handboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Valskonur urðu í gærkvöld Íslandsmeistarar í nítjánda skipti og annað árið í röð þegar þær sigruðu Hauka í þriðja úrslitaleik liðanna á Hlíðarenda, 28:25.

Þær unnu einvígið 3:0 en Valur vann fyrsta leikinn 28:27 og annan leikinn á Ásvöllum 30:22.

Þetta er jafnframt sjöundi sigur Valskvenna á Íslandsmótinu á síðustu 15 árum. Þær saxa á þessu með Fram sem hefur unnið titilinn oftast, eða í 23 skipti. Næst á eftir Val kemur Ármann með 12 Íslandsmeistaratitla sem félagið vann á árunum 1940 til 1963.

Óhætt er að segja að sigur Vals sé afar sannfærandi því liðið gerði sér lítið fyrir og vann 26 af 27 leikjum sínum á Íslandsmótinu tímabilið 2023-2024.

Í úrvalsdeildinni unnu þær 20 leik af 21 en eina tapið kom í sjöttu umferð gegn Haukum á Ásvöllum, 26:25. Þær unnu síðustu fimmtán leikina og síðan alla sex leikina í úrslitakeppninni, gegn ÍBV og síðan Haukum. Og að auki urðu þær fyrr á tímabilinu bikarmeistarar ársins 2024, í annað sinn á þremur árum.

Haukakonur mega líka vera sáttar við sinn hlut. Þær enduðu í þriðja sæti deildarinnar og unnu síðan Stjörnuna 2:0 og Fram 3:0 í úrslitakeppninni en lentu á vegg gegn ríkjandi Íslandsmeisturum. Haukar urðu síðast Íslandsmeistarar 2005.

Hafdís Renötudóttir markvörður Vals var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Hún átti sannkallaðan stórleik í gærkvöld og varði 17 skot, þar af tvö vítaköst Haukanna.

Elín Rósa Magnúsdóttir, Thea Imani Sturludóttir og Þórey Anna Ágústsdóttir voru markahæstar Valskvenna með sex mörk hver.

Hjá Haukum var Sara Odden með sjö mörk, Elín Klara Þorkelsdóttir með sex og Sara Katrín Gunnarsdóttir fjögur.

Höf.: Víðir Sigurðsson