Mikel Arteta hefur hendur á loft á hliðarlínunni í leik hjá Arsenal.
Mikel Arteta hefur hendur á loft á hliðarlínunni í leik hjá Arsenal. — AFP/Glyn Kirk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allir gátu þá þegar séð að hér væri eitthvað sérstakt á ferðinni, að ekki myndi líða á löngu þar til hann væri farinn að vinna með aðalliði í ensku meistaradeildinni.“

Skömmu eftir að leik Manchester City og Arsenal á dögunum lauk birtust skilaboð í síma Ronalds de Boers. Sendandinn var Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, sem hafði verið að vinna mikilvægt stig í 0-0 jafntefli með sitt unga lið. Eftir leikinn sendi hann vini sínum frá Hollandi orðsendingu og spurði hann grínaktugur hvers vegna hann hefði ekki komið að hitta sig eftir leikinn. Einhver í starfsliði Arsenal hafði sagt Arteta að hollenski landsliðsmaðurinn fyrrverandi hefði verið á vellinum á leiknum, en gert þau klassísku mistök að ruglast á Frank – sem var á leiknum í hlutverki leikskýranda – og tvíburabróður hans, Ronald.

De Boer áttaði sig strax á misskilningnum. „Ég sendi honum skilaboð til baka: Nei vinur, þetta var bróðir minn. Heldur þú virkilega að ég hefði ekki heilsað upp á þig? Þá hefði ég líka sagt þér að vera með liðið aðeins framar á vellinum,“ svaraði de Boer og stríddi honum á móti.

Undir verndarvæng de Boer

De Boer og Arteta hafa þekkst í rúmlega 20 ár. Samband þeirra nær aftur til sumarsins 2002 þegar núverandi þjálfari Arsenal fór til Glasgow Rangers. De Boer hafði þá leikið á Ibrox í tvö ár og þar sem hann talaði spænsku tók hann hinn unga Arteta undir sinn verndarvæng. Utan vallar tengdist fjölskylda hans Arteta og kærustu hans vinaböndum. „Við vörðum miklum tíma saman og sýndum þeim Glasgow, til dæmis með því að fara út að borða saman. Ég var orðinn 31 árs gamall og var honum ákveðin föðurímynd,“ sagði hann.

„Við fórum með hann á þessa dæmigerðu skosku veitingastaði og stundum aðeins út á land. Við lögðum okkur fram um að prófa nýja staði á þessum lítt þekktu, verulega fallegu slóðum þar sem var dásamlegt að fara í hádegismat. Ég held að hann hafi líka kunnað að meta það.“

De Boer hafði líka mikið dálæti á Arteta sem leikmanni auk þess sem örlögin höfðu hagað því þannig að þeir voru hjá Barcelona á sama tíma seint á tíunda áratug 20. aldar. Þar áttu þeir reyndar engin samskipti þar sem Arteta var í unglingaliði félagsins, en hollenski miðvallarleikmaðurinn í aðalliðinu. De Boer mætti Arteta í fyrsta skipti á velli skömmu síðar, 2001, þegar hinn ungi spænski miðvallarleikmaður var á láni hjá Paris Saint-Germain, sem mætti Rangers í UEFA-bikarnum. „Í röðum PSG voru Ronaldinho, Nicolas Anelka, Jay-Jay Okocha og Mauricio Pochettino, ágætis leikmenn, ha ha, og þarna skar sig úr þessi 19 ára gamli leikmaður. Eftir þennan leik vildu Rangers endilega semja við hann,“ sagði hann.

Elegant leikmaður

„Við hugsuðum með okkur: Þetta er góður leikmaður, svona ungur og samt svona atkvæðamikill á þessum unga aldri. Rangers komust áfram þótt ekki mætti miklu muna. En hann vakti athygli okkar vegna aldurs síns og þroskaðs leikstíls. Stjórn hans á boltanum, hröðunin, sendingarnar, yfirsýnin og tæknin voru framúrskarandi,“ rifjar de Boer upp þegar hann hugsar til leikjanna tveggja við PSG. „Hann var elegant leikmaður, virkilega unun að fylgjast með honum.“

Arteta samdi við Rangers sumarið eftir og átti eftir að leika á Ibrox í tvö ár. Með Rangers vann hann þrefalt heima fyrir á sínu fyrsta tímabili áður en hann sneri heim til Spánar 2004 og gekk til liðs við Real Sociedad. Ári síðar fór hann aftur til Bretlands til að leika með Everton og þaðan fór hann til Arsenal þar sem hann var síðustu fimm árin af ferli sínum á fótboltavellinum.

Í Lundúnaklúbbnum lágu leiðir hans og Jans van Loons saman. Van Loon var yfir þjálfun í fótboltaakademíunni hjá Arsenal. Á seinni stigum ferils síns byrjaði Arteta að afla sér þjálfararéttinda og kynntist þá hollenska þjálfaranum. „Á föstudögum kom hann með syni sína í fótboltaskóla, sem yngra starfið hjá Arsenal skipulagði,“ segir van Loon. „Ég þekkti hann fyrir frá því ég var að þjálfa unglingalið félagsins og við spjölluðum af og til. Þar kom að hann nefndi við mig að hann þyrfti að komast að til að klára atvinnuþjálfararéttindi og spurði hvort hann gæti komið í teymið hjá liði 16 ára og yngri, sem ég var að þjálfa.

Ég var opinn fyrir því – ég hafði áður hjálpað Thierry Henry og Freddie Ljungberg – og Andries Jonker [sem á þeim tíma var stjórnandi akademíunnar hjá Arsenal] kom því í kring. Ég man enn þegar Andries hringdi í mig til að láta mig vita: „Eftir klukkutíma verður Arteta kominn niður á völl til þín.“

Van Loon var kominn með framúrskarandi fagmann, sem undirbjó sig vandlega. „Þetta small um leið,“ segir van Loon. „Hann var ekki fyrr kominn inn á völlinn en hann tók frumkvæðið og innan tíu mínútna þekkti hann hvern leikmann með nafni, sem mér þótt mikið til koma. Hann var mjög jákvæður í sinni nálgun. Þegar hann talaði við leikmenn sagði hann hluti eins og: „Þú ert frábær í þessu, getur þú bætt þessu við?“ Strákarnir brugðust strax við og sögðu: „Já auðvitað, ég geng í það.“ Hann hafði þann eiginleika að lesa í karakterinn hjá strákunum og vissi hvað hann átti að fara fram á hjá hverjum og einum í einstaklingsþjálfun,“ sagði van Loon.

Fótbolti á öðru plani

„Hann dembdi spurningum á ungu leikmennina. Hann sagði ekki hvernig ætti að gera hlutina, í staðinn spurði hann: „Ef boltinn fer þangað, hvað þarft þú þá að gera? Hvernig stoppum við andstæðingana, hvernig þvingum við þá í stöður þar sem við eigum góðan möguleika á að vinna boltann? Hann var alltaf að spyrja spurninga. Ég var mjög áhugasamur um hans aðferðir og leikmennirnir líka.

Oft spiluðum við æfingaleiki þar sem ég þjálfaði annað liðið og Mikel hitt. Það var fótbolti á öðru plani. Mikel hafði mikil áhrif á þessar æfingar, innleiddi aðferðir frá aðalliðinu með þeim hætti að það féll að U-16 hópnum. Oft spurði hann: „Jan, má ég reyna þetta? Eða þetta?“ Ég sagði honum einfaldlega að láta vaða. Frekar en að vera með mikla endurgjöf spurði ég hann einfaldlega spurninga á borð við: „Gekk þetta eins og þú sást fyrir þér og hvers vegna var það?““

Í van Loon fann Arteta mann sem var tilbúinn að hlusta og ræða við hann málin – mann sem spurði spurninga og hvatti hann til að greina ákvarðanir sínar. Hollendingurinn hefur haldið áfram í því hlutverki með þjálfurum í ungliðastarfinu hjá FC Utrecht og nú hjá FC Bangaluru á Indlandi.

„Við ræddum hvað hann vildi nákvæmlega fá fram sem þjálfari og hvernig hann ætlaði að fara að því,“ útskýrir van Loon. „Við ræddum ákveðin smáatriði eins og hvernig eigi að ná yfirtölu, átta sig á hvenær er rétti tíminn til að ráðast til atlögu, fara úr því að vinna boltann í að sækja.“

Van Loon sagði að Arteta hefði til dæmis ekki verið hrifinn af æfingum þar sem nokkrir leikmenn eiga að láta boltann ganga á milli sín á meðan varnarmenn reyna að ná boltanum af þeim. Hann hefði viljað tengja slíkar æfingar meira við það sem gerist í leik. Það hefði alltaf verið taktískt markmið á bak við sendinga- og skotæfingar hjá honum. Hann hefði einnig vitað hvernig ætti að fara að því að hafa hlutina sem einfaldasta og lagt áherslu á að gefa boltann inn í hreyfingu hjá leikmanni frekar en beint á hann þannig að sá sem tekur við boltanum þurfi ekki að stoppa eða hægja á sér. „Hann innleiddi þessar hugmyndir í sendingaæfingar þannig að leikmenn ættu auðveldara með að átta sig á þessum mynstrum og beita þeim í leikjum,“ sagði van Loon.

Skjótur frami blasti við

Það blasti við honum að Arteta væri með mjög góðan grunn. Allt hefði verið vandlega hugsað skref fyrir skref og tryggt að allir vissu við hverju væri að búast. „Ef þú horfir á aðalliðið hjá honum núna sést hver afraksturinn getur verið af því að helga sig leiknum með þessum hætti,“ sagði hann.

„Allir gátu þá þegar séð að hér væri eitthvað sérstakt á ferðinni, að ekki myndi líða á löngu þar til hann væri farinn að vinna með aðalliði í ensku meistaradeildinni.“

Van Loon segir að Arteta hafi vakið hrifningu bæði fyrir taktíska hugsun og hæfni sína í mannlegum samskiptum. „Hann er með náttúruhæfileika í að greina og byggja upp lið. Ég held að það sé hans helsti hæfileiki, auk þess að kunna að umgangast allar gerðir af leikmönnum.“

Hollenski unglingaþjálfarinn tók sérstaklega eftir því hvað Arteta átti auðvelt með að ná sambandi við leikmenn. „Hann er með blöndu af tilfinningagreind og greiningargreind, sem kemur fram í því hvernig hann orðar hlutina. Þegar þú ert með menn af tíu þjóðernum í búningsklefanum er nauðsynlegt að vita hvernig eigi að beina hverjum og einum í rétta átt, þar á meðal þeim sem ekki fá spilatíma.

Arteta skilur hvernig á að kveikja metnað leikmanna og hvetja þá til að leggja aðeins harðar að sér sem oft ríður baggamuninn,“ segir van Loon. „Hann er mikill fjölskyldumaður, höfðar til allra í kringum liðið og er föðurímynd yngri leikmanna.“

Fyrir um 20 árum var de Boer í svipuðu hlutverki og Arteta hjá Rangers. „Hann var mjög geðugur krakki, hann var enn frekar ungur á þeim tíma,“ rifjar hann upp. „Hann var kurteis og tilbúinn að leggja hart að sér. En fyrst og fremst reyndi hann að nýta sér styrkleika sinn og var liðinu mjög mikilvægur.“ Það sýndi sig á lokadegi tímabilsins 2002-2003 þegar Rangers tryggðu sér deildarmeistaratilinn á markamun og Arteta skoraði úr mikilvægu víti þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma í síðasta leiknum. „Hann hafði trú á því hvers hann væri megnugur; hann var ekki hræddur við að axla ábyrgð þegar hann tók vítið. Það segir líka mikið um hann.“

Hann var hátt skrifaður hjá de Boer og hann sá í Arteta efni í einstakan leikmann. „Mikel spilaði mjög vel árið sem við unnum þrefalt. Hann var eins og hrár demantur sem þurfti aðeins að slípa til, en hafði allt til að bera til að skína skært. Svo fór líka að hann lék með Arsenal þar sem honum farnaðist mjög vel.“

Van Loon segir að reynsla Arteta sem leikmaður með liði í fremstu röð gefi honum forskot í starfi þjálfarans. „Hann átti auðvelt með að útskýra æfingar og þurfti ekki mörg orð til að leikmenn skildu hann. Hann gat sagt leikmönnum hvað þeir ættu að gera og til hvers væri ætlast af þeim. Og augljóslega gat hann sýnt þeim það sjálfur því að á þeim tíma var hann enn leikmaður.“

Þrjú ár með Guardiola

Í unglingaliði van Loons sem Arteta þjálfaði var Emile Smith-Rowe, sem nú er með númerið 10 á bakinu í aðalliði Arsenal. Sumarið 2016 fékk Arteta tækifæri til að ganga til liðs við Pep Guardiola hjá Manchester City. Hann sneri aftur til Arsenal í lok árs 2019 þegar honum var boðið að verða aðalþjálfari liðsins. Upphafið var ekki auðvelt vegna þess að kórónuveirufaraldurinn skall á og klúbburinn lenti í fjárhagsvandræðum sem urðu til þess að segja þurfti upp fjölda starfsmanna.

„Arsenal var þá í ansi viðkvæmri stöðu og þurfti að láta marga fara,“ segir van Loon. Hann tók eftir því að Arteta tók unga leikmenn inn í liðið. „Það voru hæfileikamenn í aðalliðinu fyrir og Mikel ýtti liðinu lengra fram á við með leikmönnum á borð við Buikayo Saka. Mikel hefur verið að byggja liðið upp á frekar skömmum tíma, þótt í ensku úrvalsdeildinni sé ekki gefinn mikill tími.“

Það hitnaði undir Arteta strax tímabilið 2021-2022 þegar Arsenal tapaði þremur leikjum í röð og liðið var komið á botninn í deildinni. En honum tókst að vinna sig út úr þeirri háskalegu stöðu og hefur endurgoldið félaginu þolinmæðina.

Stoltur af vini sínum

De Boer er stoltur af því sem vinur hans hefur byggt upp og ánægður með að Arsenal missti ekki trú á hann. „Hann var heilmikið gagnrýndur í upphafi, en félagið gaf honum þann tíma sem hann þurfti og það sýnir um hvað hlutirnir snúast hjá Arsenal. Nú gengur þeim sérstaklega vel; þeir voru ekki langt frá því að verða Englandsmeistarar í fyrra og í ár eru þeir aftur að keppa um titilinn. Þolinmæði þeirra borgaði sig. Hann er einfaldlega mjög klár í fótbolta og ekki hræddur við að stilla fram ungum leikmönnum. Mér finnst mjög mikið til þess koma sem hann er að gera.“

Van Loon bætir við: „Mér finnst mjög gaman að sjá Mikel þjálfa á hliðarlínunni vegna þess að ég veit hvað hann er að hugsa. Hann er mjög klár – bæði sem persóna og þjálfari – og hann kiknar ekki þótt þrýstingurinn sé mikill vegna þess að hann bjó við það svo lengi sem leikmaður. Í ofanálag starfaði hann í þrjú ár við hlið Pep Guardiola.“

Nú um helgina kemur í ljós hvort öll þessi vinna skili sér í æðsta titli enskrar knattspyrnu. Það væri verðskulduð umbun fyrir allan undirbúninginn og vinnuna bak við tjöldin að uppskera meistaratitilinn. Til þess að það gerist þarf Manchester City þó að misstíga sig. Í dag, sunnudag, leikur Arsenal við Everton og City við West Ham. City er með tveggja stiga forskot fyrir síðustu umferðina þannig að Arsenal verður að treysta á sigur West Ham. Það kann því að hljóma ósennilega að Arsenal vinni meistaratitilinn, en allt getur gerst í fótbolta.

Höf.: Arthur Rendard