Guðmundur Freyr Pálsson og Óliver Óskarsson
Guðmundur Freyr Pálsson og Óliver Óskarsson — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Þetta er áhættusamt en við létum verða af því og sjáum alls ekki eftir því.

Óliver Óskarson og Guðmundur Freyr Pálsson eru stofnendur og eigendur Þreks, heilsuklíníkur. Þeir kynntust við kírópraktor-nám í Englandi, við AECC-háskólann í Bournemouth. Að loknu námi fluttu þeir báðir heim, þar sem Óliver bætti við sig sálfræðigráðu frá Háskólanum á Akureyri. Óliver Óskarsson sat fyrir svörum.

Eftir að hafa unnið í nokkurn tíma hér heima, fannst þeim báðum skortur á þeim gæðum sem kírópraktorinn hafði boðið upp á í þeirra námi. Ein nálgun sem hafði verið einkennandi í náminu var einstaklingsmiðuð, gagnagreind þjónusta þegar kemur að því að styrkja líkamann. Þá var einnig lögð áhersla á að einbeita sér að hverjum og einum sjúklingi og forðast þá nálgun að reyna að koma mörgum sjúklingum að á sem stystum tíma. „Okkur fannst landslagið í kírópraktíkinni þannig að mikil áhersla var lögð á það að fá sem flesta kúnna og ekki nógu mikil einbeiting á því að hjálpa hverjum og einum,“ segir Óliver. Úr því kom sú hugmynd að stofna fyrirtækið Þrek. Fyrirtækið er meðferðarstofa, þar sem eru starfandi sjúkraþjálfarar, kírópraktorar og sálfræðingar. Sérfræðingarnir starfa saman og hver í sínu lagi eftir tilvikum, og tilgangur meðferðarstofunnar er sá að vinna náið með einstaklingum að því sameiginlega markmiði að þeir nái fljótum bata. Hjá Þreki er lögð áhersla á andlega heilsu sem og virkni, og sérfræðingarnir vinna gjarnan með meðferðarplan þar sem sjúklingar þurfa sjálfir að leggja sitt af mörkum, en fá í staðinn að sjá bættan árangur. Þeir eru látnir eyða tíma inni í heilsuræktarsal og sendir heim með æfingaplan.

Sífellt fleiri leita sér sálfræðihjálpar nú til dags og eru til að mynda þunglyndi og kvíði viðurkenndari í dag sem sjúkdómar sem hægt er að fá hjálp við. Aukin þekking, líkt og á við flest annað, hefur bætt skilning á andlegum heilsuvandamálum og fólk nú til dags er meðvitað um mikilvægi þess að huga að andlegri heilsu, líkt og þeirri líkamlegu. Óliver talar um hvernig sérfræðingar geti hjálpað í ýmsum aðstæðum. „Margir þættir hafa áhrif á andlega heilsu, til að mynda umhverfi, streita og áföll.“

Andleg mein komi í ljós

„Sjúklingar Þreks glími flestir við líkamleg einkenni og byrji því í meðferð hjá sjúkraþjálfara eða kírópraktor,“ segir Óliver. „Þar sé lögð áhersla á að kynnast sjúklingunum, sem og þeim kvillum sem hafa verið að hrjá þá. Þar komi oft í ljós djúpir og langvinnir verkir, en í þeim tilfellum hafa andleg heilsuvandamál oft reynst spila inn í þá líkamlegu verki. Einnig eru það oft verkir í efri líkama, sem og höfði og herðum, sem reynast vera vandamál.“ Þá eru sjúklingar sendir til sálfræðings þar sem hægt er að vinna úr þeim vandamálum, enda hafa allir sérfræðingar stofunnar það sameiginlega markmið að vinna að bata sjúklinga.

Óliver nefnir að munurinn á nálguninni hér heima og í Bretlandi þar sem þeir stunduðu nám, sem og öðrum löndum, sé helst sá að hér eru þessi þrír þættir aðskildir. Eins og áður hefur verið nefnt er nálgunin ný af nálinni hér á landi, eða sú staða að hægt sé að finna sjúkraþjálfara, kírópraktor og sálfræðing á einni stofnun, og jafnvel er hægt að fá meðferð hjá fleiri en einum þessara sérfræðinga í einu. Hér hefur verið hægt að nálgast kírópraktormeðferð á ákveðnum stofum, en svo þurfi að fara annað til að nálgast sjúkraþjálfun, sem og sálfræðing. Þá geta sjúklingar sem vita ekki endilega hvað þeir þurfi til að ná bata mætt til þeirra, og sérfræðingar tekið á móti þeim og metið ástand þeirra. Það er því auðvelt að finna meðferð sem hentar viðkomandi sjúklingi.

Fólk á öllum aldri í meðferð

Ólíver segir að fólk á öllum aldri sem glími við alls konar kvilla komi til þeirra í meðferð. „Við fáum oft íþróttafólk og fólk sem hefur verið að glíma við meiðsli í nokkurn tíma. Það er þá oft orðið ráðþrota og líst vel á okkar stefnu að taka andlega heilsu til greina.“ Sjúklingar með verkjaheilkenni eru algengir, svo sem vefjagigt, slitgigt, höfuðverki og fleira. Við samtalsmeðferð kemur ýmislegt í ljós og hægt að vinna úr þeim verkjum sem fólk þjáist af.

Þegar Óliver er spurður hvort hann telji að andleg mein geti haft áhrif á líkamlega heilsu, svarar hann:

„Alveg klárlega. Maður tekur oft eftir persónueinkennum í þessu starfi, og þegar maður sér einstakling sem virkar stressaður og glímir við mikla spennu í líkamanum þá kemur það oft upp að viðkomandi sé með mikinn kvíða eða eitthvað álíka. Við reynum ekkert sérstaklega að nálgast andlegar spurningar en andleg heilsa kemur oft upp. Þá könnum við það og fólk tengir þetta oft við líkamlega kvilla.“

Hvernig hefur reksturinn gengið hingað til?

Óliver svarar og segir að reksturinn hafi gengið framar öllum vonum. Þrek hóf starfsemi um miðjan september á síðasta ári, 2023. Það hefur því aðeins starfað í um það bil átta mánuði, og þrátt fyrir að þeir hafi gert ráð fyrir erfiðu ári hafi hlutirnir gengið vel. Óliver segir að kúnnar þeirra taki vel í hugmyndir þeirra sem og þá meðferð sem þeir nota.

Óliver fullyrðir einnig að hann og félagi hans, Guðmundur, hafi tekið ákveðna áhættu, líkt og allir sem stofna fyrirtæki frá grunni. „Við vorum í virkilega góðum störfum og vorum ekkert að kvarta. Þetta er áhættusamt en við létum verða af því og sjáum alls ekki eftir því. Fyrsta árið er alltaf erfitt en við höfðum aldrei þorað að vona að það yrði svona mikil aðsókn. Viðbrögð fólks eru ótrúlega jákvæð og fólki finnst þetta virka.“

Þegar spurt er um framhaldið talar Óliver um að þeir stefni á að stækka við sig. Þeir eru opnir fyrir því að bæta við sig fleiri starfssviðum til þess að hjálpa sjúklingum sínum enn frekar þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu.

Höf.: Margrét Friðriksson