Ragnar Halldórsson
Ragnar Halldórsson
Þemu Matthíasar sem skálds voru ekki síst Ísland sem vægðarlaus og stórbrotin náttúra, Reykjavík sem borgarlandslag, fuglar, tré, tilvist, fegurð og Hanna, æskuást hans og eiginkona.

Ragnar Halldórsson

Matthías Johannessen skrifaði í Morgunblaðið árið 1979: „Sá sem talar í nafni lýðræðis verður að standast margvíslegar freistingar, ekki sízt þá að láta yfir sig ganga skoðanir annarra, hversu vitlausar sem þær eru eða ógeðfelldar.“ Þannig gat Matthías, sem starfaði hjá Mogganum í 50 ár og var ritstjóri blaðsins í 42 ár, minnt á alla í senn: Whitman, Sartre, Voltaire, Rousseau og Churchill.

Enginn íslenskur listamaður veitti mér meiri innblástur strax í æsku í t.d. Helgispjalli í Morgunblaðinu, um kalda stríðið, listina, hugmyndasöguna og siðmenninguna. Honum vil ég líkjast, hugsaði ég. Matthías sameinaði það sem Ingmar Bergman kallaði „den lilla världen“, þ.e. litla heiminn, þeim stóra: heimssviðinu. Matthías var samviska Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar um leið. Hann hafði ekki áhuga á peningum heldur siðmenningu, arfi okkar, góðum gildum og siðferði: „Hvað stoðar það okkur þótt við eignumst allan heiminn, ef við fyrirgjörum sál okkar?“

Þemu Matthíasar sem skálds voru ekki síst Ísland sem vægðarlaus og stórbrotin náttúra, Reykjavík sem borgarlandslag, fuglar, tré, tilvist, fegurð og Hanna, æskuást hans og eiginkona.

Ritstjórnarskrifstofa Morgunblaðsins

Ég kynntist Matthíasi á ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins í Aðalstræti, við undirbúning á þætti okkar „Spurt og spjallað“ á Aðalstöðinni í sömu götu. Ég var að klippa þáttinn ásamt tæknimanni alla nóttina og til tíu næsta morgun, þegar nýr útvarpsstjóri Ólafs Laufdals, Baldvin Jónsson fv. umboðsmaður unglingahljómsveitar föður míns, Halldórs í Tempó, trompaðist eðlilega yfir þessu svo ég ákvað að koma ekki aftur. En þátturinn fór í loftið á jóladag og Matthías gaf mér allar ljóðabækur sínar áritaðar sem takk.

Matthías var hissa á sameiginlegri bylgjulengd okkar og bað mig að lesa smásöguna Absalon, byggt á þeirri hugmynd hvort við hefðum hist í öðru lífi í kringum Landakotstúnið í gamla Vesturbænum í Reykjavík. Sem er jú rétt hjá æskustöðvum hans við Hávallagötu og mínum við Ásvallagötu. Hann þekkti vel til Kjartans Guðmundssonar langafa í Axminster, stærsta persónulega styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins frá upphafi, sem bjó á Ásvallagötu og hætti við að kaupa Höfða því amma taldi reimt þar. Matthías þekkti einnig tvo bræður Rögnu Halldórsdóttur ömmu: Erling Ebeneser rithöfund og Baldvin leikara, og tengslin við Jón Kaldal ljósmyndara í gegnum hjónaband og börn föðursystur minnar, Steinu, með arkitektinum, syni hans og alnafna.

Matthías skrifaði stórbrotna ævisögu Ólafs Thors og þekkti vel fjölskyldusögu afa míns, Sigga í Hamborg, og afa hans, Akra-Jóns kaupmanns. Sá byggði þekkt hús í Borgarnesi og réð til sín fátækan danskan ungling sem hann gerði síðar að verslunarstjóra og sendi til Bergen í Noregi en kom aftur sem fulltrúi kaupmanns í Bergen, sem tók hús Akra-Jóns upp í skuld, svo ungi Daninn flutti þangað inn og gat upp frá því uppfyllt sinn íslenska draum: Thor Jensen.

Arfur Íslendinga

Matthías, sem ritstjóri og meistari samtalsbóka, greindi hin stóru þemu nútímans eins og ofurviðkvæmni sem færi best í gegnum list skv. Kjarval í Kjarvalskveri. Og frelsi og lýðræði sem tvíeggjuð sverð og garða til að rækta í t.d. Skeggræðum gegnum tíðina með Laxness og Í kompaníi við allífið með Þórbergi.

„Ég er ekki fugl á hendi,“ sagði Matthías, sem líkti Morgunblaðinu við forngrískt torg skoðanaskipta í anda Sókratesar og fjallaði um allt frá vöggu lýðræðisins og siðmenningu Forn-Grikkja til gúlags Sovétríkjanna sem guðlausrar ormagryfju, en var samt sakaður um „kommúnistadekur“. Hann var óþreytandi að minna á mannúð í nafni frelsis og lýðræðis: að frelsi og mannréttindi fara saman; norræn fræði, arfur Íslendinga, íslensk tunga og Sturlungaöld.

Árni Jörgensen ritstjórnarfulltrúi sagði Matthías hafa alið upp kynslóðir blaðamanna og vitað hluti löngu áður en þeir gerðust. E.t.v. svipað og Davíð Oddsson núverandi aðalritstjóri. Matthías var e.t.v. vanmetið skáld og blaðamaður vegna þjóðfélagsstöðu og stjórnmála. Ríkisstjórnir voru myndaðar við hringborðið á ritstjórnarskrifstofu hans og meðritstjórans, Styrmis Gunnarssonar.

Við Matthías brölluðum ýmislegt saman, t.d. við útgáfu á menningarblaðinu Fálkanum, sem Matthías hafði gaman af og sýndi mér mikið umburðarlyndi. Sem var einkenni hans ásamt hlýju gagnvart jafnvel pólitískum andstæðingum sem höfðu sumir gagnrýnt hann harkalega. Enda var Matthías góð og gegn manneskja og fyrirmynd öllum í háttvísi og mannlegri reisn. Ísland á eftir að meta hann sem einn stærsta hugsuð sinn og skáld.

Höfundur er sjálfstæður fræðimaður hjá Reykjavíkurakademíunni.

Höf.: Ragnar Halldórsson